„Þetta er mjög dæmigert fyrir dýpri kvikusöfnun og við sjáum þetta mjög víða,“ sagði Benedikt Gunnar Ófeigsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Rætt var við Benedikt í kjölfar mælinga sem sýndu kvikusöfnun austan við Fagradalsfjall.
Kvikusöfnunin er talin vera á um 16 kílómetra dýpi en sagði Benedikt ekkert benda til þess að kvika nálgist yfirborðið. Þá hafa rúmlega 5000 skjálftar mælst á Reykjanesskaganum frá því að gosinu lauk og útilokar Benedikt ekki annað gos. „Við vitum það ekki en já, á meðan við sjáum kviku vera að safnast fyrir og ef það stoppar ekki þá geri ég ráð fyrir að það endi með gosi og ekkert ólíklegt að við fáum fleiri gos á Reykjanesi á næstu áratugum.“
„Ef ég ætti að veðja á eldfjall þá myndi ég veðja á Grímsvötn næst, en við sjáum til,“ sagði Benedikt en þensla í Grímsvötnum er nú þegar komin út fyrir stöðuna sem var fyrir síðasta gos. Viðtalið við Benedikt má lesa hér.