„Ég myndi segja að það væru eiginlega engar líkur á að það gysi í Grindavík, en það gæti gosið í Hagafelli,“ sagði Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Mikil óvissa hefur verið síðustu vikur eftir að Grindavíkurbær var rýmdur. Mikil hætta var talin á svæðinu og líklegt þótti að eldgos myndi ná til Grindavíkur en nú virðist töluverið breyting þar á.
Þá bætti Ármann við í samtali við mbl.is að jarðskorpan væri að róast eftir gliðnunina sem varð fyrir tveimur vikum síðan. Sagði hann óþarfa fyrir fólk að hafa áhyggjur af eldgosi í Grindavík að svo stöddu en jarðskjálftavirkni gæti þó haldið áfram. Grindvíkingar ættu að hans mati getað snúið heim til sín að viðgerðum loknum.