Húseigendur á flótta frá húseignum sínum í Grindavík eru ævareiðir vegna sleifarlags og doða hjá fasteignafélaginu Þórkötlu sem ætlað er að kaupa upp húseignir Grindvíkingaa og gera þeim kleift að kaupa annnars staðar á landinu. Fjöldi Grindvíkinga eru í úlfakreppu vegna þess að þeir geta ekki staðið við kauptilboð sem þeir hafa gert í þeirri trú að Þórkatla muni standa við uppkaupin. Vandio þeirra eyskt svo enn meira vegna þeirrar þenslu sem er á íbúðamarkaði þar sem nokkur þúsund Grindvíkingar leita sér að íverustað.
Sverrir Árnason framhaldsskólakennari hefur fengið nóg af þessu ástandi og boðar til mótmæla á Austurvelli í dag klukkan 17.
„Mótmælum vinnubrögðum Fasteignafélagsins Þórkötlu sem heldur Grindvíkingum í spennutreyju vegna uppkaupa húseigna. Ekkert ætlar að standast af því sem FÞ hefur gefið út,“ skrifar Sverrir á Facebook.
Hann segir engar fréttir berast af framvindu frá félaginu í þessari viku þegar allt átti að vera komið á fullt.
„Margir eru búnir að vera í erfiðri skuldastöðu og lifa frá degi til dags. Þá eru margir að missa af eignum vegna þess að dagsetningar í kauptilboðum eru fyrndar og lenda í því að tilboðum er rift og söluverð eigna er hækkað,“ skrifar Sverrir.
Hann segir að enn fleiri munu lenda í sömu krísu ef ekki verði settur fullur kraftur í uppkaupin.
„Þolinmæðin er þrotin, taugarnar farnar,“ skrifar Sverrir og skorar á Grindvíkinga og velunnara þeirra að mæta á Austurvöll í dag, hvort sem þeir eigi hagsmuna að gæta eða vilji einfaldega standa með Grindvíkingum.