Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning vegna líkamsárásar í Grafarvogi um klukkan hálf þrjú í nótt. Maðurinn sem varð fyrir árásinni var töluvert slasaður, með sár á höfði sem blæddi mikið úr. Var hann í kjölfarið fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild og gerandi handtekinn. Var hann látinn gista fangaklefa og rannsakar lögregla nú málið.
Stuttu síðar var lögregla kölluð út vegna tveggja bifreiða sem stóðu í ljósum logum við Esjustofu. Slökkviliðið mætti á vettvang og slökkti eldinn en óljóst er um upptök eldsins. Bílarnir voru að lokum fluttir af vettvangi.
Íbúi í Laugardal hafði samband við lögreglu skömmu fyrir klukkan fjögur í nótt er hann komst að því að bílnum hans hafði verið stolið. Taldi hann líklegustu skýringuna vera að þjófurinn hafi teygt sig inn um glugga á heimili hans, stolið lyklunum og keyrt á brott.
Lögregla fann bílinn um klukkustund síðar og handtók mann sem er grunaður um verknaðinn.