Meðlimir bakvarðasveitarinnar sem starfað hefur á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík eru ekki með Covid-19, samkvæmt sýnum sem voru tekin úr fólkinu. Vísir greinir frá þessu og ræðir við Gylfa Ólafsson, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sem staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.
Sveitin þurfti að fara í sóttkví á farsóttarheimilinu á Ísafirði í kjölfar þess að kona úr sveitinni var handtekin, grunuð um að framvísa fölsku starfsleyfi og þjófnað á lyfjum á hjúkrunarheimilinu.
Sjá einnig: Falski bakvörðurinn á framboðslista í síðustu kosningum – „Harmleikur“ segir fyrrverandi samstarfsmaður
Sýni var tekið úr konunni og reyndist það vera neikvætt, samkvæmt fréttastofu Vísis. Fólkið er því ekki lengur í sóttkví.