Mynd sem Rúnar Gunnarsson deildi innan hópsins Gamlar ljósmyndir á dögunum vakti þar talsverða athygli. Þar mátti sjá svipmynd úr miðbæ Reykjavíkur frá árinu 1963, sem sjá má hér fyrir ofan. Tugir athugasemda hafa verið skrifað og margir nota tækifærið til að segja Degi B. Eggertssyni til syndanna, það sé honum að kenna að miðbærinn sé ekki lengur svona. „Þarna er líf í bænum,enda engin Dagur B,“ skrifar ein kona svo dæmi sé tekið.
Guðjón Friðriksson sagnfræðing svarar þessum eldri borgurum fullum hálsi í athugasemd og bendir þeim á að Dagur hafi verið barn þegar miðbær Reykjavíkur fór að breytast. „Svo dó Miðbærinn á árunum 1970-1980, verslanir fóru inn eftir allri Suðurlandsbraut, í Síðumúla, Ármúla og Skeifuna og upp í Ártúnshöfða og auk þess í verslunarmiðstöðvar í úthverfum. Skemmtistaðirnir hurfu líka á brott úr Miðbænum (Klúbburinn, Sigtún, Hollywood, Broadway, Hótel Loftleiðir, Hótel Saga og fleiri), bankarnir tóku hverja bygginguna eftir aðra samhliða því að verslanir, skemmtistaðir og kaffihús hurfu á brott,“ segir Guðjón.
Hann heldur áfram og er kaldhæðinn. „Sundahöfn tók smám saman við af gömlu Reykjavíkurhöfn og þar með hvarf margs konar þjónusta og heildsala. Margar byggingar í Kvosinni voru í hörmulegu ástandi um 1980 og varla sálu að sjá þar á kvöldin og um helgar. Allt Degi B. að kenna en hann var þá barn að aldri í Árbæjarhverfinu bölvaður. Hann kórónaði svo allt með því að búa til nýjan miðbæ í Kringlumýri, þá 16 ára að aldri,“ skrifar Guðjón.
Egill Helgason fjölmiðlamaður tekur undir með honum og segir þá sem tuða mest um miðbæinn einfaldlega vera með fortíðarþrá. „Annars er það svo með fólk sem er sífellt að tuða um miðbæinn að það saknar æsku sinnar. Miðbær unglingsára minna var miklu dauflegri en hann er nú – en ég vildi gjarnan fara aftur til 1978 og verða ungur á ný.“