Fimmtudagur 16. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Guðlaugur í Steinstúni bregður búi: „Ömurlegt að þurfa að sitja undir skítkasti, drullu og lygum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er gjörólíkt líf að á vera á Suðvesturhorninu. Þar ertu vafinn í bómull og ert nobody. Mig er farið að langa til að verða nobody,” segir Guðlaugur Ágústsson, yngsti bóndinn í Árneshreppi á Ströndum. Guðlaugur hefur ákveðið að bregða búi þegar sauðfjárárinu lýkur í september en halda eignarhaldi á jörðinni. Brotthvarf Guðlaugs úr hópi sauðfjárbænda í Árneshreppi er áfall þar sem þá standa aðeins þrjú bú eftir.

Guðlaugur segir ákvörðina ekki hafa verið auðvelda en hann tók hana í samráði við einkadóttur sína. „Ég er fjórða kynslóðin hér á Steinstúni, sem er flottasta bæjarstæði á Íslandi, og er orðinn yngstur sauðfjárbænda, 56 ára gamall, reyndar á besta aldri. Það voru hér yngri bændur sem fóru 2016. Þetta er að tæmast innan frá.“

Þreytandi að vera bundinn

„Vissulega er ofboðslega gaman þegar fjölskyldan kemur í sauðburð og smalamennsku en ég er orðinn leiður á að vera svona bundinn. Mig langar í helgarferðir til Parísar, geta skotist frá hvenær sem er og notið lífsins.” Guðlaugur segir engan geta dregið fram lífið á sauðfjárrækt og þar sé hann engin undantekning.

„Ég er í tveimur öðrum störfum, ræ til strandveiða auk þess sem ég er flugupplýsingamaður á flugvellinum hérna og sé alfarið um hann. Fjárhagslega gengur þetta upp og þetta er draumadjobb fyrir par en erfiðara að standa í þessu einn, sérstaklega yfir vetrartímann. Ég þarf til dæmis alltaf að vera til staðar fyrir allar komur og brottfarir.“ Guðlaugur segir þetta ekki líf fyrir ungt fólk. „Unga fólkið vill menntun, geta skotist til vina sinna eða farið í afmæli. Það er ekki í boði á stað þar sem samgöngur geta lokast í hvelli.“

Hvalárvirkjun skar samfélagið

- Auglýsing -

Það hefur einnig áhrif að miklar deilur komu upp í sveitarfélagnu vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar en sveitarfélagið logaði í deilum í kjölfarið og tóku ættingjar og vinir sitt hvora afstöðuna sem skar samfélagið hreinlega í sundur. Guðlaugur er þungorður um þessa stöðu og segir að vissulega eigi hún sinn þátt í að hann hafi ákveðið að bregða búi. „Það er ömurlegt að þurfa að sitja undir skítkasti, drullu og lygum fólks sem ég vil hreinlega meina að sé illgjarnt inn að beini.“

Guðlaugur er reiður. „Ég eyddi 10 árum ævi minnar í að tryggja mér atvinnuréttindi vélfræðings en það er svo makalaust að enginn gat hugsað sér neitt hræðilegra en að ég, búandi í sveitinni, fengi hugsanlega starf hjá þessari virkjun. Og það sem verra er, að dóttir mín, sem er að ljúka námi í véla- og orkutæknifræði, fengi starf þar. Í staðinn fékk ég kæru sem var byggð á haugalygi og sargi og pexi í þessu liði.“

Guðlaugur situr í sveitarstjórn og byggði kæran á því að hann væri fylgjandi virkjun gegn atvinnuloforði. Hann segir það af og frá og rökleysu frá upphafi til enda.

- Auglýsing -

„Meðstjórnandi minn í sveitarstjórn var fylgjandi virkjun en tók síðan u-beygju. Ég sýndi því virðingu því hann færði rök fyrir sínu máli, þannig tekur fullorðið fólk á málum.“

Til tíðinda dró í aðdraganda kosninganna 2018. „Það fylltist allt af einhverju vitleysingaliði sem skráði lögheimili sitt á eyðistað til að koma í veg fyrir virkjunina. Og þegar það er margsannað að virkjanir séu þeim samfélögum til góða þar sem þær eru byggðar. Bæði eykst þjónusta og samgöngur. Það getur verið að aðrir þoli þennan djöfulgang en ég vil bara vera í félagsskap góðs og skemmtilegs fólks. Í lok dags er verið að ræða um vatn sem rennur fram að kletti. Þetta er ekkert annað.”

Einagrun kostur og galli

Einangrunin getur orðið mikil á Ströndum enda er hætt að moka veginn um áramót og fram að apríl. Það gerir það að verkum að nálægðin litla samfélaginu er mikil sem getur vissulega verið bæði kostur og galli að mati Guðlaugs.

„Hér hjálpast allir að. Það er ekki eins og í Reykjavík þar sem þú getur bara hringt í einhvern ef rafmagnið fer, þakið fýkur eða vatnveitan gefur sig. Við bara keyrum í þetta og björgum okkur. Það eru eintómir töffarar sem búa hérna og geta allann andskotann. Það þarf bara mannskap til stjórna þessu vel. Á móti kemur að svona deilur hafa mikil áhrif á fjölskyldubönd og vinskap sem ég vil ekki taka þátt í lengur. Fólk sem býr í sveitinni lagðist lágt. Báðum megin borðs. Það var engum til sóma.”

Guðlaugi þykir vænt um kindurnar sínar og hefur ásamt dóttur sinni unnið staðfastlega í því að gera aðbúnað dýranna sem allra bestan. „Það er ekkert skemmtilegra en að standa í sauðburði og smölun með allri fjölskyldunni og það verður erfitt að sjá á eftir þeim í bíl á leið í sláturhúsið en ég er ekki búinn að gefa upp vonina að fá kaupendur af þeim yngri. En ég er búinn að taka mína ákvörðun og er harðákveðinn. Mig langar að njóta þess að vera í vitleysingur í góðum og skemmtilegum hópi annara vitleysinga,” segir Guðlaugur Ágústsson, bráðum fyrrverandi bóndi að Steinstúni.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -