Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Guðmundur biður þjóðina að mygla ekki: „Éttu það, Covid“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi formaður Bjartrar framtíðar og fyrrum alþingismaður, segir íslensku þjóðina stadda í bylgjulest kórónuveirunnar sem ekki sér fyrir endann á. Hann er sannfærður um að Íslendingar, með sína sléttu magavöðva og nýbyggðu sólpalla, standi uppi margfalt sterkari, reynslunni ríkari og hamingjusamari eftir faraldurinn.

Þetta segir Guðmundur í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar veltir hann því fyrir sér að kaupa sér sóttvarnarhjálm í anda Svarthöfða, heilbúning og jafnvel skikkju í ljósi tíðinda af því að meginþorri almennings verði ekki bólusettur fyrr en árið 2022. „Haltu á ketti, langar mann að segja við því. Þarf maður að fara að kaupa sér eitthvað varanlegra en grímu fyrir andlitið? Er það kannski svona sem búningarnir í Stjörnustríði, í því sólkerfi langt í burtu, byrjuðu? Þurfti Svarthöfði upphaflega að bera hjálm út af langvarandi farsótt? Ætti maður að fjárfesta í svoleiðis? Heilbúningi og skikkju jafnvel? Hver er sparnaðurinn í varanlegum hjálmi með öndunarbúnaði miðað við einnota grímur? Þetta er auðvitað hætt að vera fyndið, en þetta má samt aldrei hætta að vera fyndið. Sem er fyndið,“ segir Guðmundur.

„Þessu mun linna. Og þá verður þessi vírus aðeins ein opna í sögubókum og við margfalt sterkari, reynslunni ríkari og hamingjusamari.“

Guðmundur segir reginmun á þriðju bylgju faraldursins í samanburði við þá fyrstu. Þar hafi tímasetningin skipt meginmáli. „Í vor, þegar kórónuveiran fór á flug í sinni fyrstu bylgju, var tímasetning heimsfaraldurs fyrir okkur Íslendinga að mörgu leyti heppileg. Það glaðhlakkalega viðhorf er reyndar svolítið í stíl við annað. Þjóðin hefur haft tilhneigingu til að telja sig koma ágætlega út úr válegum hörmungum, eins og tveimur heimsstyrjöldum, og jafnvel kveður svo rammt að þessu hugarfari að sjálf hamfarahlýnun jarðar er af sumum talin ákjósanleg fyrir Íslendinga, því hér verði þá loksins skaplegt veður. Slíkar ályktanir eru í besta falli ábyrgðarlausar, en hins vegar er þó nokkurt sannleikskorn í þessu með kórónuveiruna í vor,“ segir Guðmundur sem tekur það skýrt fram að viðureignin við veiruna hafi ekki verið auðveld og margir eigi um sárt að binda.

Guðmundur Steingrímsson. Mynd / Skjáskot RÚV.

„Almennt var þó talið að Íslendingar hefðu sloppið vel. Ég held að með nokkurri vissu megi halda því fram að mars og apríl séu frekar tilkomulitlir millibilsmánuðir á Íslandi. Vetur að hætta, en þó ekki. Slabb og drulla. Vor að koma, en er þó ekki komið. Árshátíðir búnar. Líkamsræktarátök að renna út í sandinn. Fólk ekki orðið besta útgáfan af sjálfu sér. Ég held þess vegna, bæði af veðurfarslegum og félagslegum ástæðum, hafi mörgu fólki þótt það hreinilega ágætt að fá smá tíma heima hjá sér í þessa tvo mánuði. Hætta við plön. Pústa. Vinna í magavöðvunum. Blása af fermingarveislur. Byggja pall. Fara í naflaskoðun. Vera í náttfötunum. Af tali fjölmargra hef ég merkt að fólk jafnvel sakni þessa tímabils. Þetta hafi verið svo ágætt. En annað var líka áberandi. Alltaf var viss tilhlökkun fyrir hendi. Sumarið kemur, sagði fólk. Þá verður gaman,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Og það kom líka. Partí fóru fram. Nánast óbærileg félagsleg pressa myndaðist á landsmenn alla um að keyra austur til að skoða Stuðlagil. Allir voru á einhverjum tímapunkti í Vök við Egilsstaði, virðist vera. Sumarið var sem sagt skemmtilegt. Ísland út af fyrir okkur. Og svo heppilega vildi til fyrir Íslendinga, þá lukkunnar pamfíla, að vírusinn dró sig í hlé um stundarsakir.“

„Vírusinn veit ekki úr hverju við erum gerð.“

Nú segir Guðmundur allt annan veruleika uppi á teningnum þegar þriðja bylgjan í bylgjulestinni mætti til leiks. Hann vitnar til frægra orða úr sjónvarpsþáttaseríunni Game of Thrones. „Veturinn er að koma. Ég man eftir síðasta janúar. Þá dundu á okkur lægðirnar. Maður var orðinn samanherptur af veðurbarningi, eins og síðasti ábúandi í afskekktum dal við heimsskautsbaug. Maður gegn veðri í myrkri. Inn í þetta siglum við nú og ekkert sumar í nánd. Spurningar blasa við og þær eru aðkallandi: Munum við mygla? Munum við tryllast? Munum við síðhærð og óklippt fara í hár saman? Þetta er sem sagt langhlaup, en ekki spretthlaup, þessi óskundi. Ég held að sá veruleiki sé að síast inn. Aftur erum við heima. Náttföt. Fjarfundir,“ segir Guðmundur sem segir að kórónaveiran sé í þetta sinn að leggja fyrir okkur samfélagslegt próf.

- Auglýsing -

„Að halda í góða skapið. Hún ætlar að herja á okkur enn um sinn, gera suma fárveika, aðra ekkert veika, pirra okkur, etja okkur saman, stía okkur í sundur, hafa af okkur mannamót og jafnvel lífsviðurværi, troða okkur mjútuðum í Zoom og láta okkur með öllum sínum bellibrögðum falla í þá freistni að brjálast. En við skulum ekki gera það. Vírusinn veit ekki úr hverju við erum gerð. Langur vetur? Iss piss. Sama hvað hver segir. Það mun koma sumar. Þessu mun linna. Og þá verður þessi vírus aðeins ein opna í sögubókum og við margfalt sterkari, reynslunni ríkari og hamingjusamari. Með slétta magavöðva og nýjan pall. Búin að horfa á alla sjónvarpsþætti heimsins og mastera súrdeigið. Éttu það, COVID,“ segir Guðmundur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -