Guðmundur Magnússon, kennari og leiðsögumaður, er látinn en hann var 84 ára. Vafalaust kannast hálfur Vesturbærinn við hann því Guðmundur kenndi í Hagaskóla í 40 ár. Einar Magnússon, fyrrverandi skólastjóri Hagaskóla, þakkar honum fyrir óeigingjarnt starf í minningargrein.
Guðmundur lærði húsasmíði og varð húsasmíðameistari en síðar á ævinni lauk hann myndlistakennaraprófi. Guðmundur kenndi í áratugi í Hagaskóla, fyrst sem myndlistakennari en síðar sem landafræðikennari. Hann kenndi einnig við Fósturskólann, Æfingadeild Kennaraskólans og var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
Um miðjan aldur hóf hann störf sem leiðsögumaður hjá Úlfari Jacobsen í hálendisferðum, Ferðaskrifstofunni Sunnu og Ferðaskrifstofu Samvinnuferða Landsýnar. Hann var einnig meðlimur í Flugbjörgunarsveitinni.
Einar skólastjóri segir hann hafa verið skemmtilegan samstarfsmann. „Drengur góður, orðvar, glettinn, hugmyndaríkur,ódeigur að takast á við ný verkefni, þúsundþjalasmiður, lífskúnstner og kunni að lifa lífinu lifandi. Stakur reglumaður. Guðmundur kenndi um langt árabil við Hagaskóla, lengst af myndmennt þar sem hann fór ekki troðnar slóðir. Hann hvatti nemendur sína til sjálfstæðra vinnubragða og var þeim innan handar í einu og öllu. Hann viðaði stöðugt að sér efni sem hann safnaði saman í geymslum skólans og sótti svo í eftir þörfum. Til hans var leitað þegar settar voru upp sýningar um skólastarfið á merkisdögum því hann var með afbrigðum úrræðaóður og lausnamiðaður,“ segir Einar og þakkar honum fyrir farsælt óeigingjarnt starf við Hagaskóla.