Guðmundur Felix Grétarsson, sem fékk grædda á sig handleggi í Frakklandi í janúar, er nú farinn í endurhæfingu á annað sjúkrahúsð í Lyon. Hann er því farinn af Édouard Herriot-sjúkrahúsinu í Lyon þar sem hann hefur dvalið síðastliðnar sjö vikur.
Guðmundur Felix er duglegur að birta uppfærslur af bataferlinu á Facebook-síðu sinni og það var einmitt þar sem hann greindi frá þessum nýja áfanga. Í færslunni þakkar hann öllu starfsfólkinu á Édouard Herriot-sjúkrahúsinu fyrir störf sín. Með færslunni birtir hann hópmynd af sér með starfsfólkinu og þar er Guðmundur Felix brosandi út að eyrum.
„Eftir nærri 7 vikur á Édouard Herriot tók ég í dag næsta skref og færi mig yfir á endurhæfingarstöð. Ég þarf varla að taka það fram en ég tók aðeins handfarangur. Það er gott að halda ferlinu áfram en ég mun sakna starfsfólksins sem hefur verið með mér síðustu vikur. Hvílíkur hópur af frábæru fólki og því miður náði ég bara mynd með hluta hópsins. Takk fyrir að gera þetta ferðalag auðveldara fyrir mig,“ segir Guðmundur Felix.