Kraftaverk er vægt orðaval þegar Guðmund Felix ber á góma, en í nýju myndbandi sem hann deilir á Facebook sést Felix hnykkla annan upphandleggsvöðvann skælbrosandi. Framfarirnar hafa farið langt fram úr björtustu vonum og er ekki annað að sjá en læknar reiknuðu með því í upphafi að Guðmundur Felix myndi þá fyrst verða fær um að hreyfa hendur að tveimur árum liðnum.
„Ég er með frábærar fréttir! Áður en ég fór í aðgerðina ræddum við hversu langur tími gæti liðið þar til árangur færi að nást. Við ræddum að taugarnar myndu vaxa um 1 mm á dag. Sem þýðir að taugarnar væru komnar niður í olnboga eftir eitt ár og að taugarnar yrðu komnar niður í fingur eftir tvö ár. En eins og maður segir: skítt með meðaltalið!“
Sjá einnig: Guðmundur Felix vongóður að nota fingurna eftir 3 ár: „Fyrstu vikurnar ólýsanlega sársaukafullar“
Þá segir Guðmundur, sem fékk grædda á sig handleggi í Frakklandi í janúar, að þó hann sé ekki enn fær um að hreyfa hendurnar, eða hafi ekki enn getað framkvæmt skipulegar hreyfingar, þá hafi hann nú loks megnað að hreyfa annan upphandleggsvöðvann. „Ef þið lítið á upphandleggsvöðvann,“ segir hann og biður þann sem myndar að færa linsuna nær. „Sjáið! Ég get hreyft upphandleggsvöðvann!“ segir Felix stoltur og hnykklar vöðvann glæsilega, brosandi á svip.
„Sjáið! Ég get hnykklað upphandleggsvöðvann! Og héðan í frá verður þetta bara betra með hverjum degi!“