„Í dag er brakandi sól en búið að rigna stanslaust í mánuð og það á víst að halda áfram. Ég hef ekki upplifað svona skítaveður í þau átta ár sem ég hef búið hérna, Frakkland er búið að vera á floti síðan í apríl. En þegar því lýkur verður maður verður fljótlega farinn að kvarta yfir hitanum, hér er yfir 40 stiga hiti í júlí og ágúst og bullandi raki,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson, heimsins fyrsti maður til að fá á sig grædda handleggi.
Þegar Mannlíf talaði síðast við Guðmund Felix í mars var hann byrjaður að fá tilfinningu í aðra öxlina og áætlaði að vera kominn með tilfinningu í hendurnar eftir tvö ár. Hann var vongóður um að sú áætlun myndi standast en nú er breyting á.
Eins og bank í vitlausa beinið
„Þetta gengur betur en nokkuð hefði þorað að vona. Mér var sagt að taugarnar yxu enn millimetra á dag og samkvæmt því ætti ég að fá tilfinningu í olnboga ári eftir aðgerð og niður í fingur eftir tvö ár. En núna finn ég fyrir taugum í báðum olnbogum og úlnlið hægra hægra megin. Þetta er dásamleg en rosalega skrítin tilfinning, svipuð því þegar það er bankað í vitlausa beinið á manni”.
Guðmundur Felix er glaður og bjartsýnn. „Ég er búin að ná sama árangri á fjórum árum og gert var ráð fyrir á tveimur árum. Það verður rosalega spennandi að fylgjast með hvað gerist næstu vikurnar og mánuði. Ef taugagreinarnar halda áfram að vaxa á þesu hraða ætti ég að geta hreyft hendurnar fyrir lok sumarsins. Þetta er alveg magnað, enginn átti von á þessu og ég skil þetta ekki frekar en aðrir. Ég talaði við skurðlækninn í dag og nú er bara beðið eftir að sjá hvað gerist næst. Það hefur enginn neina hugmynd”.
Betra að hafa hendur en ekki
Guðmundur Felix segir að ef taugarnar haldi áfram að vaxa á sama hraða verði hann farinn að heilsa með handabandi um jólin. „Það er magnað eftir að hafa ekki haft hendur í 23 ár. Nú er ég búin að prófa að vera með hendur og vera án þeirra og hef komist að þeirri niðurstöðu að það er betra að hafa hendur. Allt er auðveldara því við skynjum heiminn og nærumhverfi okkar svo mikið snertingu. Mig langar að snerta konuna mína og klóra mér í nefinu þegar mig klæjar, í dag þarf ég að finna eitthvað horn að nudda mér í. Það er þessi litlu atriði sem fólk hugsar kannski ekki út í. Það er alltof mikið raus í fólki sem hefur það bara helvíti gott“.
Alltaf pikk í gangi
Hann segir að nú séu að opnast dyr sem veiti öðrum í sömu stöðu von en enginn vissi á hverju mætti eiga von þegar hann fór í ágræðsluna.
„Þetta var mikið álitamál á sínum tíma en mannslíkaminn er magnaður. Ég fæ einnig mikla og góða þjálfun við að styrkja mig, hún er reyndar strembin. Ég fer alla daga vikunnar og tvisvar í viku í blóðprufur. Í sjúkraþjálfuninni rækta ég líkamann til að stífna ekki upp og geri heila- og taugaæfingar sem ég finn að eru að virka. Það er verið að búa til nýjar taugabrautir, ekki bara fyrir meðvitað virkni heldur líka ómeðvitaðar eins og þegar æðarnar draga sig saman eða þenja sig út eftir hitastigi. En almennt er heilsan á mér góð og ég finn að vöðvarnir í öxlunum eru alltaf að verða sterkari”.
Guðmundur Felix hefur þó lent í áföllum í ferlinu. Hann vill samt ekki gera mikið úr því
„Ég fékk blóðtappa í lærið og hendurnar stokkbólgnuðu en en það er allt í góðu núna, tappinn og bólgurnar farnar. Það þarf alltaf að vera að pikka eitthvað í mig og opna mig hér og þar en skrokkurinn á mér er orðinn svo vanur þessu. Það hefði örugglega verið hægt að fljúga flugvél í gegnum öll götin sem hafa verið skorin í mig!” segir hann og hlær.
Kannski bara vanur þessu
Ein mesta hættan við ágræðslur er hvort fólk þoli þau gríðarlega sterku ónæmisbælandi lyf sem nauðsynleg eru.
„Ég var fullkomið tilraunadýr þar sem ég hafði farið í lifrarskipti en sumir eru að fá hrikalega slæmar aukaverkanir. Ég þekki konu sem fékk ágræddar á sig hendur og það gekk svo vel að hún var farin að spila tölvuleiki. Hún lét aftur á móti taka af sér hendurnar því hún þoldi ekki lyfin. Ég finn ekkert fyrir þeim eða er kannski er ég bara vanur þeim, ég veit það ekki”.
Hann losnaði af sjúkrahúsinu í síðasta mánuði og er því guðslifandi feginn.
„Ég er bara heima núna, það munar öllu. Þetta er eins og hver önnur vinna, ég mæti á sjúkrahúsið átta eða níu á morgnana og er til fjögur og fæ að borða og sofa heima hjá mér. Ég tek meira að segja með mér nesti í því það er bara ekki hægt að slafra sífellt í sig sama óætið á þessu sjúkrahúsi daginn út og inn“.
Langar á gosstöðvarnar
Hann hlakkar til sumarsins og ætlar með fjölskyldunni í hjólhýsaferð í ágúst.
„Ég elska Frakkland í ágúst. Það er svo mikið af fallegum stöðum hérna auk þess sem allt er svo rólegt þar sem Frakkar fara almennt í frí í ágúst. Svo stefni ég á að koma heim um jólin. Ég fékk nýtt barnabarn í fyrra sem ég er ekki enn farin að sjá og á von á öðru.
Ég vona bara að gosið verði áfram, helst myndi ég vilja arka daglega að gosstöðvunum og sanka að mér hrauni, ég er viss um að það myndi rokseljast á ebay! Nýjasta hraun í heimi, ekki spurning,” segir Guðmundur Felix og hlær.
Hann segist auðvitað verða stundum þreyttur og sumir dagar séu erfiðari en aðrir.
„En ég fékk mestu og bestu gjöf sem hægt er að fá í heiminum og get ekki kvartað, segir Gummi Felix, bjartsýnn um að óska fólki gleðilegra jóla með handabandi.