Þrátt fyrir að skoðanakannanir gefi til kynna að Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti, vinni stórsigur í komandi forsetakosningum er forsetframbjóðandinn Guðmundur Franklín Jónsson sannfærður um að hann muni sigra.
„Ég fer aldrei aftur í forsetaframboð, en ef þjóðin vill sama mann þá segi ég bara guð blessi Ísland. Ég mun hins vegar vinna kosningarnar.“ Þetta segir Guðmundur Franklín Jónsson í viðtali í Morgunblaðinu og það þrátt fyrir að sitjandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, hafi mælst með í kringum 90% fylgi í könnunum hingað til, nú síðast í könnun EMC Rannsókna fyrir viku.
Þegar Guðmundur er spurður hvað hann ætli að gera ef hann tapi stendur ekki á svari. „Ég hef engar áhyggjur af sjálfum mér,“ segir hann. „Ég hef meira og minna verið að koma að rekstri fyrirtækja í gegnum tíðina. En ég er ekki að fara að tapa þessum kosningum.“