Guðmundur gekkst undir aðgerðina í Lyon í Frakklandi fyrir 9 mánuðum. Batinn hefur verið undraverður og á undan áætlun. Í myndbandinu sýnir Guðmundur það nýjasta í bataferlinu.
„Nú eru liðnir 9 mánuðir frá því að ég fékk handleggina og vildi ég gera myndband og segja frá nýjustu þróuninni í ferlinu. Fyrir ykkur sem sáuð myndbandið í maí, að ég held 28. maí, þá gat ég lítillega hreyft tvíhöfðann,“ segir Guðmundur í myndbandinu og hreyfir tvíhöfðann. „En nú get ég gert talsvert meira. Tvíhöfðinn virkar nokkuð vel og svo eykst styrkurinn í öxlunum, tvíhöfðanum og þríhöfðanum með hverjum deginum sem líður.“ Þá segist hann finna fyrir kulda og snertingu í hægri handleggnum, sé þrýst vel á hann.
Sjá einnig: MYNDIR – Guðmundur Felix faðmar dóttur sína í fyrsta skipti í 23 ár
og: Guðmundur Felix mættur í ökutíma: „Þvílíkt afrek!“
Hann segir að taugarnar í vinstri handlegg séu að vaxa og að hann sé kominn með taugar fram í höndina. „Ég get hreyft öxlina lítillega, en hún er fjandi þung.“
Svo hlakkar í Guðmundi Felix og hann segir að nýjasta þróunin sé nokkuð merkileg. „Nú get ég hreyft fingurna lítillega, en þetta átti ekki að geta gerst fyrr en eftir tvö ár.“ Því næst gerir hann smá tilraun, tekur upp mandarínubát með hægri hönd og setur upp í sig. Sjón er sögu ríkari!