Baráttumanninum Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu, félags fanga, hefur verið vísað úr prófkjöri Samfylkingarinnar. Kjörstjórn fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík komst að þeirri niðurstöðu að framboð Guðmundar Inga í flokksvali Samfylkingarinnar vegna borgarstjórnarkosninga sé ógilt, á þeim grundvelli að hann uppfylli ekki skilyrði kosningalaga um kjörgengi. Fréttablaðið greindi frá þessu og vísaði í lokaða stuðningsmannasíðu Guðmundar Inga. Kjörstjórn tók þessa ákvörðun í gærmorgun eftir að hafa áður samþykkt kjörgengi Guðmundar Inga. Úrskurðarnefnd samþykkti síðan ákvörðunina í gærkvöld. Prófkjörið hefst núna í morgunsárið.
Guðmundur Ingi er þekktur baráttumaður fyrir réttindum fanga. Hann á að baki feril sem afbrotamaður en hefur tekið útr refsingu sína. Hann hefur lokið afplánun í fangelsi og undir rafrænu eftirliti. Það er skilningur hans að afplánum hans sé lokið þrátt fyrir reynslulausn sem skilgreind sé í fullnustulögum sem skiloðsbundin eftirgjöf refsingar.
Frambjóðandanum hafði áður borist staðfesting frá kjörstjórn um að framboð hans væri gilt. Sú staðfesting barst 22. janúar síðastliðinn. Hann veltir fyrir sér í tilkynningunni hvað valdi þessum sinnaskiptum kjörstjórnar.
„Það er líka sárt að fá þessi tíðindi svona kvöldið áður en prófjörið hefst enda hafði Ásta Guðrún Helgadóttir, formaður kjörstjórnar, sagt mér að kjörgengi mitt hefði verið rætt innan flokksins. Ekki væri lengur um það deilt að ég væri kjörgengur“.
Óljóst er hvert næsta skref Guðmundar Inga verður en hann sagðist í gærkvöld myndu sofa á málinu.