Guðmundur Óskarsson matreiðslumaður er mjög ósáttur við Íslendinga og íslenska pólitík.
Guðmundur skrifaði í morgun reiðipistil inni á hópinn Sósíalistaflokkur Íslands. Þar segist hann vera búinn að fá nóg af íslenskri pólitík. „Ég er búinn að fá nóg af íslenskri pólitík sem mun ekkert breytast því fólk heldur með stjórnmálaflokkum eins og ég held með fótboltaliði,“ segir hann og heldur áfram, „Ég er handviss um að manni eins og Bjarna B. hefði verið úthýst frá stjórnmálum í hvaða landi sem nefnt er. Nei, hann er fjármálaráðherra Íslands.“
Því næst talar hann um krónuna sem hann segir hafa gert sumt fólk nánast eignalaus á áratugar fresti að meðaltali, „og fólk er bara ánægt með hana.“ Þá talar Guðmundur um nýafstaðnar kosningar. „Það er ljóst að ekki var farið að lögum við síðustu kosningar og samkvæmt viðtali við almenning á förnum vegi í fréttum er ekki vilji til að kjósa aftur því fólk nennir því ekki.“ Telur Guðmundur að lýðræðið sé ekki dýrmætt í hugum þessa fólks. „Fólkið hefur gert upp hug sinn og er ekkert að flækja málið með staðreyndum.“
Þá segir Guðmundur að allt gangi vel í Noregi og hefur skoðun á hvers vegna það sé. „Ég þakka það að þeir losuðu sig við heimskasta fólkið fyrir um þúsund árum til Íslands, sem voru á sínum tíma réttdræpir því þeir vildu ekki borga skatta.“ Segir Guðmundur enn fremur að skattsvikagenin séu enn í blóði Íslendinga sem að sögn hans eiga heimsmet í skattaskjólum miðað við mannfjölda. „Skattsvikarar hafa verið verðlaunaðir með setu á þingi. Hversu heimsk getur ein þjóð verið!“
Að lokum segir Guðmundur frá samtali tveggja Íslendinga í pottinum eftir kosningar.
„Ísland er hlutlausasta ríki í heimi.“
„Hvað áttu við?“
„Það lætur jafnvel eigin málefni afskiptalaus.“
Sjá einnig: Guðmundur með lausnina á íslenska heilbrigðiskerfinu: „Þetta er auðvitað algjör tímaskekkja“