Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnsamband Íslands, telur allar líkur á því að skýrsla um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi sitji í skúffu sjávarútvegsráðherra fram yfir kosningar. Það væri ekki í fyrsta skiptið sem ráðherra kemur í veg fyrir að skýrsla birtist fyrir kosningar. Kjarninn greinir frá því að skýrslan hafi átt að birtast fyrir viku.
„Dettur einhverjum í hug að sjávarútvegsráðherrann láti taka þessa skýrslu saman og birta hana fyrir kosningar? Eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa fengið rúmlega 100 milljarða í arð á innan við áratug. Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með beint og óbeint yfir 17 prósent alls úthlutaðs kvóta, hefur til að mynda verið ráðandi í Eimskip og á stóran hlut í Jarðborunum,“ skrifar Guðmundur á Facebook.
Hann nefnir einnig önnur dæmi. „Þá er SVN eignafélag, sem er í eigu Síldarvinnslunnar (Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut i henni), langstærsti eigandi Sjóvá með 14,52 prósent eignarhlut. Kaupfélag Skagfirðinga, Hvalur hf., Stálskip og Ísfélag Vestmannaeyja eru dæmi um önnur félög í útgerð, eða sem voru í útgerð en hafa selt sig út úr henni, sem eru afar umsvifamikil í íslensku viðskiptalífi.“