Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Guðni Ágústsson: „Ég lék bæði Lykla – Pétur og Jón Hreggviðsson“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er frásagnarbók,“ segir Guðni Ágústsson um nýjustu bókina sína í viðtali við Reyni Traustason. Guðjón Ragnar Jónasson skráði. „Það eru margar skemmtisögur í bókinni en fyrst og fremst er þetta bók sveitanna. Ég fer um mína fæðingarsveit, Hraungerðishreppinn í Flóa, og ferðast nánast bæ frá bæ og get þar tekið upp persónur sem voru í minni æsku; gríðarlega merkilegt, magnað og duglegt fólk. Fólk sem hafði nú ekki gengið í skóla. Það hafði verið í farskóla og í mesta lagi í barnaskóla. Góðir bændur og lifandi persónuleikar sem kunna að svara fyrir sig með þeim hætti að það eru ógleymanleg tilsvör í bókinni.“

Hún var hógvær og vildi ekki láta sviðsljósið skína á sig þó Ágúst væri héraðshöfðingi og alþingismaður.

Í bókinni er meðal annars fjallað um æskuheimli Guðna. „Ég segi frá móður minni ekki síst sem kölluð var stundum „huldukonan“ af því að hún var hógvær og vildi ekki láta sviðsljósið skína á sig þó Ágúst væri héraðshöfðingi og alþingismaður. Hún átti sín 16 börn með honum og vann sín verk og hefur ábyggilega unnið á við tvo þrjá.“

Guðni talar um æskuheimilið að Brúnastöðum. Það var gamalt hús. Um 70 fermetrar að stærð. „Það voru fæddir einir 12 – 13 krakkar í gamla bænum, 70 fermetra húsi. Þar sváfum við tveir og tveir í hverju rúmi.“

Og hann nefnir líka Snata gamla og köttinn.

Allir þarna í kös.

Hvar ert þú í röðinni

- Auglýsing -

„Ég er númer sjö.“

Sjö af 16.

„Og fæddust níu eftir það.“

- Auglýsing -

Miðjubarn.

„Og öll börnin fæddust heima nema yngsti drengurinn. Amma tók á móti okkur. Hún var ljósmóðir.“

Það er ákveðin hógværð í þessu fólki sem einkenndi móðurina.

Guðni segir að systur sínar og bræður hafi verið í sveitarstjórnum í sinni sveit og tekið þátt í félagsmálum. „En þau hafa ekki verið valin í það erfiða verkefni eins og ég eða sóst eftir því. Það er ákveðin hógværð í þessu fólki sem einkenndi móðurina.“

Guðni fór að heiman 14 ára gamall og fór í Héraðsskólann á Laugarvatni. Þar fór hann í leikhúshópinn. „Ég lék bæði Lykla-Pétur og Jón Hreggviðsson. Tvær mikilvægar persónur í sögunni.“

 

Barðist fyrir lífi sínu

Í bókinni eru sagðar sögur af föður Guðna.

Þetta hefur sennilega verið jafnmikil þrekraun eins og þegar Gretti sterki glímdi við Glám.

„Ágúst var heljarmenni. Varð heljarmenni þótt hann hafi búið við sult og seyru á Eyrarbakka fyrstu 10 árin og væri fátæka barnið og ríku strákarnir reyndu að atast í honum. En hann drakk lýsið úr tunnunni til að seðja hungrið og það rann í kögglana sagði hann en kraftarnir voru gríðarlegir. Að taka í hendurnar á Ágústi var þrekraun stundum þegar hann gleymdi sér. Hann vissi ekki hvað hann var sterkur. En þarna segi ég frá því þegar hann glímdi við Núma sem var 10 vetra griðungur og ekki með hring í nefinu. Nautið brjálaðist og þetta urðu gríðarleg átök. Ágúst sagðist síðan hafa haldið nautinu niðri í ábyggilega hálftíma til klukkutíma áður en hjálp barst sem hefur verið gríðarleg þrekraun og reyndi mjög á hann. Þetta hefur sennilega verið jafnmikil þrekraun eins og þegar Gretti sterki glímdi við Glám. Svo varð hann undir vörubíl í Kömbum og fékk hann yfir brjóstið og þá bjargaði honum Grímur á Syðri-Reykjum. Þegar þeir sáu Ágúst undir vörubílnum og hann lá á brjóstinu á honum þá sögðu þeir „hann er dauður“. Pabbi heyrði englasöng úr himnaríki og rankaði við sér við þessa setningu og Grímur sagði „gefið honum brennivín, brennivín er allra meina bót“ og svo hellti hann upp í hann einum gúlsopa. Þá fór Ágúst að hósta.“

Þá hrökk hann í gang.

„Þá hrökk hann í gang. Og Lúðvík, afi Davíðs, kom til hjálpar.

Það eru margar svona sögur.“

Þegar nautið réðst á hann þá var væntanlegri tilveru þinni ógnað.

„Í báðum þessum tilfellum. Hann barðist fyrir lífi sínum í báðum tilfellum.“

Guðni Ágústsson

Á ekki að meiða neinn

Minnst er á Bobby Fischer í bókinni.

„Ég gerði Bobby Fischer að sveitunga mínum,“ segir Guðni en Fischer er jarðaður í Laugadælakirkjugarði. „Það eru gríðarlega merkilegar sögur sem ég er að segja af Bobby Fischer. Þar er hann grafinn. Það var séra Kristinn sem jarðsöng hann sex sinnum og jarðaði hann einu sinni. Svo var það kaþólskur prestur sem jarðaði hann. Fyrst þurfti að grafa hann upp.“

Af hverju jarðsöng hann Fischer sex sinnum?

„Það var af því að menn söknuðu þess að vera ekki í jarðarförinni.“

Svo kom svartur boli sem breyttist í landbúnaðarráðherra.

Guðni talar um drauma sem hann heyrði um. „Bjarni Stefánsson í Túni, sem er núverandi bóndi í hreppnum, kallaði mig á sinn fund í einkaviðtal þegar ég var ráðherra. Þá hafði hann dreymt að hann væri í heimaslátrun og þar lýsti hann draumi sínum sem hann dreymdi í tvígang. Inn í heimaslátrunina gekk Halldór Ásgrímsson og mikið lið með honum til að verða vitni að því og svo kom svartur boli sem breyttist í landbúnaðarráðherra. Þetta eru magnaðir draumar og sögur. Þetta var um átökin á milli okkar Halldórs um hugsjónir okkar og mismunandi skoðanir.“

Það var þungt undir það síðasta.

„Já, það var þungt. Hann var auðvitað hinn mætasti stjórnmálamaður og mikilfenglegur á margan hátt. En eins og margir var hann kannski of lengi.“

Það getur verið hættulegt. Þú hafðir vit á því að fara tímanlega.

„Ég stóð frammi fyrir því að bjarga flokki mínum.“

Þegar þú sagðir af þér sem formaður?

„Lýðurinn gerði aðsúg að mér. Æskulýðurinn í flokknum. Eða Evrópulýðurinn. Ég kaus að víkja og velja nýjan formann. Sigmundur Davíð kom upp úr því.“

Hann braust út úr hvaða tugthúsi sem var og stundum braust hann aftur inn.

Í bókinni eru meðal annars sögur af föngum á Litla-Hrauni sem brutust út hvað eftir annað. „Þetta eru skemmtilegar sögur. Jóhann Víglundsson var í æsku minni jafnfrægur og stjórnmálamennirnir og við dáðumst náttúrlega að honum. Hann braust út úr hvaða tugthúsi sem var og stundum braust hann aftur inn. Ég er að lýsa því.“

Guðni segir Reyni frá fleiri sögum sem hann fjallar um í bókinni.

„Ég vona að menn verði ekki sárir út af neinum sögum. Þessi bók á ekki að meiða neinn einasta mann því mér var ekki illa við neinn í minni sveit. Ég hafði gaman af þessu fólki og á glæstar minningar frá þorrablótum og réttunum og öllum þessum atburðum. Svo kom þetta fólk á Brúnastaði þegar ég var drengur að alast upp til að hitta oddvita sinn og alþingismann.“

 

Þar sem tveir regndropar koma saman

Guðni var hálfhrakinn úr formennsku Framsóknarflokksins á sínum tíma og hann hætti. Hann hefur samt sjaldan verið jafnfrægur eins og núna og er minnst á uppistand hans.

„Ég er einhver þjóðareign. Sumir stjórnmálamenn hafa orðið þjóðareign. Og ég þakka fyrir það að ég er svona þjóðareign.

Ég er þó fyrst og fremst ræðumaður.

Ég næ hljóði í sal. Ég fæ athygli.“

Það er gríðarlega mikið af fólki út um allt Ísland sem hermir eftir mér.

Talið berst að eftirhermum sem hafa hermt eftir honum. „Stjórnmálamenn voru oft og tíðum sárir ef það var ekki hermt eftir þeim. Ég varð snemma frægur ef því að menn fóru að herma eftir mér; ná rödd minni. Það er gríðarlega mikið af fólki út um allt Ísland sem hermir eftir mér.“

Guðna hefur verið strítt og hann þolir það vel. Þar má nefna hina frægu setningu „staður konunnar er á bak við eldavélina“.

„Þetta er ein af hinum frægu setningum. Það voru alls konar svona setningar smíðaðar upp í mig og fólk trúði því að ég hafi sagt þetta. Og ég er löngu hættur að þræta fyrir það. Það er alls konar svona eins og „þar sem tveir regndropar koma saman – þar er rigning“. Þetta var mjög algengt á þessum ráðherraárum mínum.“

Þar sem tveir menn koma saman þar er podcast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -