Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Guðni Ágústsson snýr aftur heim á Selfoss: „Krakkarnir sögðu að ég væri með þingmanninn í maganum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því Guðni Ágústsson kvaddi stjórnmálin fyrir þrettán árum síðan. Hann bjó í áratugi á Selfossi þar sem Ölfusá rennur í gegn eins og tíminn. Þegar stjórnmálaferlinum lauk flutti hann og eiginkona hans, Margrét Hauksdóttir, til Reykjavíkur og þar hafa þau búið síðan í Skuggahverfinu. Nú verður breyting þar á en þau eru búin að setja íbúð sína í sölu og hafa fest kaup á íbúð í nýja miðbænum á Selfossi þar sem fjöldi manns hefur lagt leið sína til að berja hann augum á undanförnum vikum. Það er eins og fortíðin stígi þar fram og heilsi á sinn hátt en eins og flestir vita er búið að byggja þar glæsilegt svæði þar sem hús í gömlum stíl og í ýmsum litum gleðja augað.

„Nú vil ég heim. Við Margrét viljum heim á Selfoss. Tíminn er kominn.

Mér sýnist allir vera að fara austur. Ekki bara við heldur fjöldi fólks sem vill flytja þangað og ég held að höfuðborgin sé á leiðinni austur. Við erum að fylgja straumnum í þetta sinn. Römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til. Þarna er rót mín. Þar áttum við Margrét yndislegustu ár ævi okkar og þar ólum við upp stelpurnar okkar og þekkjum náttúrlega þar mikið af fólki. Það verður gaman að vera þar en það er auðvitað alls staðar gaman að vera sé maður lífsglaður.“

Guðni ólst upp á bænum Brúnastöðum í Árnessýslu og flutti að heiman 14 ára gamall þegar hann fór í Héraðsskólann á Laugavatni. Hann segir það vera mesta drama sem hann hefur upplifað.

„Það var kvíðvænlegt. Maður var feiminn, ég saknaði heimilisins en á 10 dögum var búið að taka mann inn í nýtt og lifandi samfélag. Þetta var eins og að fara í hernað, við vorum lokuð inni á nóttunni og þetta var harður skóli. Svo gengum við krakkarnir um götur á kvöldin og hlustuðum á Lög unga fólksins en sumir voru með útvörp undir hendinni. Öll þessi lög, I cant get no og allt hvað þetta hét nú, glumdu í fjallasal.

Þarna varð ég að manni á einum vetri. Það var annars gott að fara á heimavist 14 ára gamall innan um 140 krakka og upplifa yndislega tíma; frelsi æskunnar og Bítlana og Rolling Stones sem gerðu allt vitlaust. Ég lifði þessa frelsisbyltingu æskunnar. Ég sá strákana verða síðhærða og þeir voru teknir fastir og keyrðir til rakarans. Þetta voru merkileg ár.“

Hann segir að hann hafi verið orðinn þingmannsefni á Laugavatni.

- Auglýsing -

„Krakkarnir sögðu að ég væri með þingmanninn í maganum, enda þingmannssonur. Ég var farinn að halda ræður. Ég var vígalegur með mikinn karlaróm, svona ungur strákur. Ég fór að leika þannig að ég varð strax svolítið athyglissjúkur og það hefur sem betur fer varað og haldist.“

Hann átti sér samt draum. Hann vildi verða bóndi. Hann varð hins vegar síðar landbúnaðarráðherra.

 

- Auglýsing -

Ferillinn

Guðni Ágústsson:

Fæddur á Brúnastöðum í Hraungerðishreppi 9. apríl 1949. Foreldrar: Ágúst Þorvaldsson (fæddur 1. ágúst 1907, dáinn 12. nóvember 1986) alþingismaður og bóndi, og kona hans Ingveldur Ástgeirsdóttir (fædd 15. mars 1920, dáin 6. ágúst 1989) húsmóðir. Maki (2. júní 1973): Margrét Hauksdóttir (fædd 3. apríl 1955) Foreldrar: Haukur Gíslason og kona hans Sigurbjörg Geirsdóttir. Dætur: Brynja (1973), Agnes (1976), Sigurbjörg (1984).

Búfræðipróf Hvanneyri 1968.

Mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna 1976–1987. Skipaður 28. maí 1999 landbúnaðarráðherra, lausn 23. maí 2003. Skipaður 23. maí 2003 landbúnaðarráðherra, lausn 18. maí 2007 en gegndi störfum til 24. maí.

Formaður Umf. Baldurs í Hraungerðishreppi 1969–1974. Formaður Félags ungra framsóknarmanna í Árnessýslu 1972–1975. Formaður kjördæmissambands framsóknarfélaganna á Suðurlandi 1979–1986. Formaður Sambands ungra framsóknarmanna 1980–1982. Í stjórn Hollustuverndar ríkisins 1982–1986. Í bankaráði Búnaðarbanka Íslands 1990–1998, formaður 1990–1993. Í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1990–1997, formaður 1990–1993. Formaður stjórnar Lánasjóðs landbúnaðarins 1998–1999. Í fulltrúaráði Sólheima í Grímsnesi 1990–1994. Í Þingvallanefnd 1995–2008. Varaformaður Framsóknarflokksins 2001–2007, formaður hans 2007–2008.

Alþingismaður Suðurlands 1987–2003, alþingismaður Suðurkjördæmis 2003–2008 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Suðurlands nóvember 1986.

Landbúnaðarráðherra 1999–2007.

  1. varaforseti sameinaðs þings 1989–1990. 3. varaforseti Alþingis 1995–1999.

Samgöngunefnd 1991–1995 og 2007–2008, landbúnaðarnefnd 1991–1999 (formaður 1995–1999), heilbrigðis- og trygginganefnd 1995–1999, sérnefnd um stjórnarskrármál 1995–1996, iðnaðarnefnd 2007–2008.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2007–2008.

 

Guðni Ágústsson og Margrét Hauksdóttir.

 

Berst fyrir bændur og sveitinni

Guðni er spurður hvað standi upp úr í pólitískum ferli hans.

„Að vera landbúnaðarráðherra Íslands í átta ár. Koma sveitunum í tísku og jafnvel sveitamönnum. Ég berst enn fyrir bændur og sveitinni. Þar er fegurðin.“

Hvað er íslensk sveit í huga Guðna? Íslensk náttúra?

„Ég held að við eigum alveg einstakt land. Íslensk náttúra er óskaplega falleg. Við eigum þessa jökla, þessa hveri og þessar ár og læki.

Við búum hér á heilmikilli auðlind og hér eru mikil tækifæri.“

Guðni er spurður hvort hann eigi uppáhaldsstað á Íslandi.

„Já, auðvitað er minn uppáhaldsstaður Árnessýsla. Þingvellir. Auðvitað æskuslóðir mínar á Brúnastöðum. Það eru margir staðir á Íslandi sem ég elska og sem gaman er að koma til. Það er gaman að hugsa til þess hvað frelsið er mikið og hvað samgöngurnar eru loksins að batna í höndum stjórnmálamannanna núna, Sigurðar Inga og félaga í ríksstjórninni. Núna getur fólk farið á sólskinsstaðina fyrir austan og norðan þegar rigning er hér á suðvesturhorninu. Við þurfum fyrst og fremst á einum hálendisvegi að halda til að auðvelda þetta fyrir almenning. Akfær vegur yfir Kjöl, hina fornu þjóðleið.“

Hann er spurður um skoðun sína á kaupum erlendra auðmanna á jörðum á Íslandi.

„Ég er andvígur þeim Ég vil að við eigum okkar land. Við verðum að eiga okkar land. Við getum tapað því á augabragði.“

 

Mætti bæta móralinn

Það gefur oft á bátinn á Alþingi. Guðni er þekktur fyrir að vera húmoristi og það hefur án efa komið að góðum notum í starfi.

„Við skömmuðum hvern annan oftast að gamni okkar þegar ég var á þingi og auðvitað líka í alvöru. En þetta var ekkert persónulegt. Það voru engin persónuleg illindi þótt maður hafi skammað Össur, Steingrím J. eða Halldór Blöndal. Þá drakk maður kaffi með viðkomandi á eftir til að fara yfir málin. Þannig var þetta. Þegar ég byrjaði á þingi þá henti Helgi Seljan, sem var Alþýðubandalagsmaður, til mín bréfaskutlu, eins og var gert í skólanum, og hafði skrifað falleg orð á blaðið:

 

Mér að skapi mjög svo er

málflutningur slíkur.

Festulegur fylginn sér

föður sínum líkum.

 

Ég fékk sjálfstraust við hólið.“

Guðni segir að mórallinn mætti núna vera betri í Alþingishúsinu.

„Svona er þetta ekki lengur. Ég held að fólk þar sé ekki eins góðir vinir og fólk var á þessum tíma. Það mætti alveg bæta móralinn.“

„Þetta voru erfiðir dagar“

Jú, það gefur oft á bátinn. Guðni segir að í lífi sínu hafi það verið erfiðast þegar hann yfirgaf pólitíkina.

„Þetta voru erfiðir dagar en ég taldi mig vera að gera þetta til að bjarga flokknum mínum svo menn áttuðu sig á því að þeir yrðu að standa saman og vera vinir. Það var allt í rugli hjá okkur í Framsókn þá. Menn vildu ganga í Evrópusambandið sem ég hef aldrei séð fyrir mér. Ég vil að við eigum okkar landbúnað, okkar landhelgi og sjómenn og okkar frelsi hér á Íslandi. Það er okkur fyrir bestu. Ég er ekki reiður við neinn. Og menn í öllum flokkum eru orðnir góðir við mig og voru það reyndar alltaf.

Alþingi er bara vinnustaður eins og hver annar vinnustaður en að vísu með troðfullt hús af egóistum “

Guðni er spurður hvað hann hafi lært af því að vera í stjórnmálum.

„Ég get sagt þér það að þegar ég byrjaði í pólitík þá var ég talinn vera afburða leiðinlegur. Árni Johnsen sagði að ég væri eins og Þjórsá í klakaböndum; ég væri svo leiðinlegur og brúnaþungur. Ég held að þetta hafi verið rétt hjá honum. En svo fór af mér feimnin og ég kynntist öllu þessu fólki og þessari þjóð og það breytti mér vonandi til batnaðar.“

 

Í fýlu

Það styttist í kosningar í haust.

„Ég sé Framsóknarflokkinn minn rísa. Ég trúi á gott fólk í öllum flokkum. Ég stend með núverandi ríkisstjórn og ég tel hana hafa unnið vel í mörgum stórum og erfiðum málum. Breidd hennar er mikil og þar liggur núna heilmikil þekking og ábyrgð. Þau ættu að vera næstu fjögur árin en svo er alltaf gott að skipta á einhverjum tímabilum um ríkisstjórn því menn þurfa að vera báðum megin við borðið. Stjórnmálamenn sem fara aldrei í stjórnar-andstöðu vita ekki hvað lífið er.

„Sigmundur Davíð stofnaði Miðflokkinn af því að hann fór í fýlu“

Hvað með Miðflokkinn?

„Hann var búinn til utan um Sigmund Davíð og hann er auðvitað flokkurinn. Ég held að hann renni inn í Framsóknarflokkinn aftur. Það hefur bara allt sinn tíma. Þetta hefur gerst áður í sögu flokksins og það hefur alltaf endað vel. Framsóknarflokkurinn hefur klofnað þrisvar eða fjórum sinnum. Viðreisn fer síðan í Sjálfstæðisflokkinn áður en varir. Flokkar eru yfirleitt stofnaðir vegna óánægju manna. Steingrímur J. Sigfússon stofnaði Vinstri græna af því að hann fór í fýlu. Þorgerður Katrín stofnaði Viðreisn af því að hún fór í fýlu. Og Sigmundur Davíð stofnaði Miðflokkinn af því að hann fór í fýlu. Þannig er þetta.“

 

Ágætis maður

Guðni er húmoristi eins og flestir vita.

„Ég hef tamið mér að vera lífsglaður og mér finnst vera skemmtilegra að segja eitthvað fallegt heldur en að vera í fílu. Það versta sem maður gerir er að fara í fílu og vera þunglyndur þannig að maður þarf að halda sinni gleði og reisn.“

Fer Guðni aldrei í fýlu?

,,Það þyngir yfir stundum. Ég á mína erfiðu daga eins og allir en oftast góða daga. Og það er nýtt tilhlökkunarefni að koma heim í bæinn sinn og finna sig þar á nýjan leik. Við Margrét eigum svo sumarhús í okkar gömlu sveit, þar hlustum við á fuglasöng og dáum blómskrúð. Þar tökum við á móti börnunum okkar og vinum við eigum sjö barnabörn og köllum okkur niðjaþjóna.“

Hann hefur verið ræðumaður og uppistandari og sagt fjöldann allan af skemmtilegum sögum. Hann er spurður um uppáhaldssöguna og nefnir þá þegar séra Hjálmar kallaði á sig til sín í Dómkirkjuna.

„Hann lét mig flytja ræðu, presturinn, og svo líkaði fólki mjög vel ræðan mín. Ég held það hafi klappað og svo orti Hjálmar þessa vísu:

 

Það sem Guðni gerir best

gleður þjóðarmúginn.

Þar fór efni í afbragðs prest

algjörlega í súginn.

 

Ég ætlaði að verða prestur þegar ég var lítill. Ég predikaði yfir systkinum mínum, sem voru 15, og hermdi eftir prestum. Svo gat ég ekki tónað af því að ég er laglaus. Þá hætti ég við að verða prestur og varð stjórnmálamaður.“

Er hann mjög trúaður?

„Já, ég trúi á guð og að yfir manni sé vakað. Ég fer með bænir. Manni var kennt það við móðurkné að signa sig og það var gert á Brúnastöðum þótt krakkarnir hafi verið 16. Okkur var kennt að fara með bænir og hugsa fallegt á stórum stundum. Ég bið stundum í hljóði þegar erfitt verk er fram undan. Ég græt í jarðarförum, það er eftirsjá að góðu fólki. Ég er miklu mýkri heldur en ég lít út fyrir að vera. Ég er ekki eins og Þjórsá í klakaböndum eins og vinur minn, Árni Johnsen, sagði.“

Er Guðni mjúkur maður?

„Já, ég er bara sanngjarn. Ágætis maður, held ég.“

Hvernig myndi hann lýsa sjálfum sér?

„Ég vil að fólk minnist mín sem  heiðarlegs drengskaparmanns sem vill hvers manns vandræði leysa.“

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -