Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir kveðjur til íbúa á Vestfjörðum í nýrri færslu á Facebook. „Ég sendi hlýjar kveðjur vestur á firði og einlægar þakkir til allra sem brugðust við og sinntu nauðsynlegum störfum eftir snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði. Blessunarlega varð ekki mannskaði, annað tjón er unnt að bæta,“ skrifar Guðni.
„Enn vorum við minnt á ægimátt náttúruaflanna. Um leið sönnuðu gildi sitt varnargarðarnir, sem reistir voru á Flateyri eftir flóðið mikla fyrir aldarfjórðungi, þótt litlu hafi mátt muna nú – slíkur var hamfarakrafturinn þar,“ skrifar Guðni í færsluna.
Þá segir hann frá því að á fundi hans og Katrínar Jakobsdóttur hafi hún frætt hann um fund hennar með almannavörnum í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í morgun og þær upplýsingar sem þar komu fram.
„Sem betur fer virðist veður nú ganga niður á Vestfjörðum en áfram þarf að hafa vara á, flytja fólk og vistir og veita fólki stuðning og aðstoð eins og þörf krefur. Ég ítreka góðar kveðjur og þakkir. Á þessum stundum sannast gildi samstöðu og samkenndar.“