Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Guðni syrgir röddina sem allir þekkja en nú er þögnuð: „Hvað segir hann í dag?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrrum ráðherrarnir, Guðni Ágústsson og Sighvatur Björgvinsson, minnast fallins félaga með fögrum orðum í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag. Sá félagi var Gissur Sigurðsson fréttamaður sem lést 5. apríl síðastliðinn og lætur eftir sig fjögur börn og eina fósturdóttur. Útför Gissurar hefur ekki farið fram en verður auglýst síðar.

Gissur fæddist 7. desember 1947 í Hraungerði í Flóa. Níu ára gamall flutti Gissur á Selfoss og bjó þar fram undir tvítugt. Á unglingsárum starfaði hann við hin ýmsu störf til sjós og lands, stundaði flugnám og aflaði sér réttinda sem einkaflugmaður. Árið 1979 hóf Gissur störf sem blaðamaður á Alþýðublaðinu, var um skeið ritstjóri Sjávarfrétta og fór þaðan yfir á Dagblaðið. Gissur varð síðar fréttamaður á Ríkisútvarpinu og gat sér þar orð meðal annars fyrir mannlífs- og sjávarútvegsfréttir. Þekktastur er hann líklega fyrir störf sín þegar hann færði sig yfir á Bylgjuna og flutti þar morgun- og hádegisfréttir með mikilli prýði.

Það var einmitt á Alþýðublaðinu sem þeir Gissur og Sighvatur kynntust. „Einn af þeim ungu mönum, sem komu til starfa á Alþýðublaðinu á meðan ég starfaði þar, var Gissur Sigurðsson. Hann var mikill og góður samstarfsmaður sem vann sér fljótt álit og helgaði sig síðan því starfi, sem hann hóf á Alþýðublaðinu, og gat sér hvarvetna mjög gott orð. Ekki bara hjá þeim, sem hann stundaði vinnu hjá, heldur einnig og ekki síður hjá þeim, sem hann starfaði fyrir – fólkinu í landinu,“ segir Sighvatur og bætir við:

„Ég á margar og góðar minningar frá þeim árum, sem við Gissur störfuðum saman á Alþýðublaðinu. Ekki bara um hann heldur allt það góða fólk, sem með okkur vann. Þeir, sem eftir eru, verða að láta sér nægja að orna sér við minningarnar. Það geri ég nú, þegar ég kveð minn gamla starfsfélaga. Orna mér ekki bara við minninguna um hann heldur okkar gamla vinnustað og alla þá, sem þar voru daglegir félagar, oft á erfiðum stundum. Góður og gegn blaða- og fréttamaður er fallinn frá. Að honum er eftirsjá.“

„Hann las aldrei fréttir. Hann sagði þær. Oft fékk maður á tilfinninguna að hann væri að tala við mann sjálfan í eldhúsinu heima“

Guðni minnist Gissurar sem fyrirmyndar fréttamanns og töfrandi sagnamanns. „Gissur Sigurðsson vaknaði fyrir allar aldir, við fyrsta hanagal. Hann var morgunmaður þjóðar sinnar sem hafði skannað landið og miðin þegar aðrir fóru á fætur. Hann var fréttamaður af bestu gerð, forvitinn sagnaþulur sem kunni þá list að gæða mál sitt töfrum sagnamannsins og segja þjóð sinni frá atburðum líðandi stundar. Morgunstund gaf honum gull í mund og sjálfsagt hefur hann byrjað daginn við sólarupprás með bleksvörtu kaffi,“ segir Guðni í minningargrein sinni.

Guðni segir að þræðir Gissurar hafi víða legið og hvarvetna hafi hann unnið sér inn trúnað og vináttu manna. „Gissur átti vinsældum að fagna sem útvarpsmaður og það lá alltaf spenna í loftinu: „Hvað segir hann í dag?“ Það var oft fár og elding í orðum meistarans. Málrómurinn var djúpur og magnaður og þegar mikið lá við og alvarleg tíðindi bar að garði dýpkaði röddin. Errin urðu fleiri í framburðinum. Fólkið lifði sig inn í atburði dagsins. Hann las aldrei fréttir. Hann sagði þær. Oft fékk maður á tilfinninguna að hann væri að tala við mann sjálfan í eldhúsinu heima. Svo þegar þannig viðraði í dauðum sjó fréttanna ískraði allt af hlátri og atburðirnir fengu á sig mynd ævintýranna,“ segir Guðni og heldur áfram:

- Auglýsing -

„Æskuheimili Gissurar í Hraungerði og Selfossi var háskóli í mannlegum samskiptum. Það gerði Gissur djarfan og skilningsríkan um mannlega reisn og rétt fólksins. Hann var lausastur allra manna við að gera sér mannamun og þrátt fyrir að bera þá sigurkórónu að vera talinn skemmtilegastur allra var hann líka maður sem undi vel einn og með sjálfum sér. Minningin lifir um góðan dreng.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -