Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Guðrún Sóley hatar að henda mat og er meðvituð um umhverfisvernd: Vill ekki „vera neyslugrís“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Neytandi vikunnar, Guðrún Sóley Gestsdóttir, er einn umsjónarmanna Kastljóssins á RÚV og fjallar þar helst um menningu, viðburði og listir. Hún býr í Vesturbænum með hundinum Jakobínu og ver næstum öllum sínum frítíma utandyra – þá helst á fjöllum eða kajak.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég versla oftar og minna í einu – hreinlega hata að henda mat svo ég vil frekar kaupa oftar og hafa þá nákvæmari tilfinningu fyrir hvað vantar og nýtist. Ef eitthvað hráefni er til heima í miklu magni legg ég viðleitni í að finna fjölbreyttar uppskriftir til að nýta það, hægt að búa til svo gjörólíkar máltíðir með því að varíera kryddum, sósum og meðlæti. Og auðvitað eldunaraðferð. Svo mætti kalla það sparnaðaraðferð að vera vegan – oft er kjöt það dýrasta í matarkörfu fólks auk nokkurra annarra dýraafurða. Vitaskuld er allur gangur á því en minn matarkostnaður lækkaði allavega verulega eftir að ég varð vegan. 

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

Ég endurnýti eins og ég get – skola umbúðir og ílát og nota aftur, flokka pappa, plast og flöskur en þarf að gera betur með lífrænan úrgang. Geymi þó alltaf lúna banana í fyrsti fyrir nicecream og hýði og grænmetisafganga fyrir soð og súpur. Þá reyni ég að versla sífellt meira af notuðum fötum, þá helst í Rauðakrossbúðunum og Hringekjunni. Ég læt gera við föt og jafnvel breyta þeim á saumastofum – mæli með því, það er eins og að eignast nýja flík í hvert sinn! Eins hugsa ég vel um skó og aukahluti og fer með þá til skósmiðs frekar en að kaupa alltaf nýtt. Pakka gjöfum inn í dagblaðapappír og nýti fallegar flöskur sem blómavasa og kertastjaka. 

- Auglýsing -

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Með hverju ári eykst tilfinning mín fyrir því hvað pláss er verðmætt og vil með öllum ráðum koma í veg fyrir að heimilið mitt (og tilvera almennt) fyllist af dóti og drasli. Ofhlaðin íbúð krefst auk þess meiri þrifa, skipulags og tiltektar og ef eitthvað er verðmætara en pláss þá er það tími – vil frekar eiga minna og spara þannig hvort tveggja; pláss og tíma. Mig langar rosalega að vera svona Búddamúnks-minimalisti með einlita staka hörflík í fataskápnum, smávegis misosúpu í eldhússkápnum og lifa á loftinu og þögninni en það er ennþá óralangt í það land. En þið vitið, ég er að reyna.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

- Auglýsing -

Föðurlandi. Ég er gjörsamlega sjúk í föðurlönd (innsta lag/stillongs), má hreinlega ekki sjá föðurland í verslun, þá er ég búin að kaupa það. Á einhver 11, 12 sett og hef sett sjálfa mig í strangt föðurlandskaupabann. Þetta er bara svo yndislegur fatnaður: hlýr, mjúkur og praktískur. Lífsnauðsynlegur á veturna og töff á sumrin. Virkar líka sem kósýföt heima og í raun náttföt. Hér er ég að skrifa mig inn á að kaupa eitt sett í viðbót.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Sannarlega. Ég er í stöðugri baráttu við að vera ekki fávís neyslugrís – reyni að finna nýja og nýja möguleika til að skilja sem minnst eftir mig og tileinka mér lifnaðarhætti sem menga hvorki né skaða.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -