Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Guðrún syrgir Svavar: „Ég má ekki láta sorgina yfirtaka líf mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Ágústsdóttir er einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, hún á að baki langan feril sem borgarfulltrúi og síðar forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, hún var sendiherrafrú um árabil í Svíþjóð og síðar Kaupmannahöfn og á síðustu árum hefur hún meðal annars unnið sem ráðgjafi hjá Landssambandi eldri borgara þar sem hún flutti meðal annars fyrirlestra um einmanaleika. Guðrún missti eiginmann sinn, Svavar Gestsson, fyrr á þessu ári og skrifaði eftir fráfall hans bækling: „Við andlát maka. Ætlaðan eldra fólki aðallega.“

 

„Ég held að ég sé fæddur jafnaðarmaður,“ segir Guðrún Ágústsdóttir. „Ég hef alla tíð sjálf verið vel sett og bjó alla mína æsku við fjárhagslegt öryggi en það gerðu ekki allir í Reykjavík. Sumt fólk bjó við svo mikla fátækt. Ég sá þennan gífurlega mismun og ég þoldi það ekki og ég þoli það ekki ennþá. Ég þoli ekki fátækina og ég held að hún sé öllum skaðleg. Ég fór einu sinni sem barn inn á heimili þar sem voru mörg börn og fékk að kíkja inn í stofuna sem var lítið herbergi. Svo komu krakkarnir þaðan heim til mín og var herbergið mitt stærra heldur en litla stofan heima hjá þeim. Ég fann eftir þetta að krakkarnir höfðu ekki sama áhuga á að vera jafnmikið með mér eins og áður. Þetta var eftir stríðið og þótt Ísland hafi grætt á stríðinu meira en margir aðrir þá flykktust margir á mölina og fluttu sumir í bragga sem Bretar og Bandaríkjamenn höfðu yfirgefið. Og það var bara ekkert annað hægt en að verða bara sósíalisti. Eða það fannst mér.“

Hvað með drauma á æsku- og unglingsárunum?

„Ég ætlaði að verða húsmóðir og svo var ég farin að hugsa um að það gæti nú verið gaman að vera kennari. Það hvarflaði hins vegar aldrei að mér að ég myndi fara í pólitík; ekki fyrr en ég var komin á kaf í þessa pólitísku baráttu sem fór fram á vegum Rauðsokkahreyfingarinnar.“

Guðrún lauk gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1964 og stundaði veturinn eftir það enskunám í London. Hún vann á þessum tíma hjá Landsbanka Íslands, var flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands árin 1966 og 1967, skrifstofumaður hjá Sjóvá næstu þrjú árin og hún vann á árunum 1971-1987 á skrifstofu Hjúkrunarskóla Íslands með þriggja ára hléi en þá bjó hún ásamt fjölskyldu sinni í Edinborg þar sem fyrri eignmaður hennar, Kristján Árnason, var í doktorsnámi.

- Auglýsing -

„Hjúkrunaskólinn var yndislegur vinnustaður. Kvennavinnustaður. Þar var mikill styrkur og stuðningur kvenna á milli og fannst mér líka vera óskaplega gaman að sinna nemendunum. Ég hef aldrei séð fólk taka út eins mikinn þroska og framförum eins og þar. Nemendurnir upplifðu svo mikla ábyrgð og urðu fullorðnir á svipstundu.“

Guðrún var fræðslu- og kynningarfulltrúi hjá Kvennaathvarfinu á árunum 1991-1994.

„Það hafði mikil áhrif á mig að vinna þar og ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þeim hryllingi sem sum börn og konur búa við varðandi líkamlegt og andlegt heimilisofbeldi. Við þurfum öll að taka höndum saman og vinna gegn þessu. Og við megum aldrei líta undan. Við verðum að sjá og við verðum að hlusta. Það er ekki prívat og persónulegt þegar gengið er í skrokk á manneskju og fólki ber alltaf að sinna svona málefnum. Ég tók eftir að sumar mæður héldu að börn þeirra hefðu ekki orðið vör við neitt en blessuð börnin vita alltaf af ofbeldinu. Það fer aldrei fram hjá þeim og þau bera þess mörg merki.“

- Auglýsing -

 

Það er ekki prívat og persónulegt þegar gengið er í skrokk á manneskju og fólki ber alltaf að sinna svona málefnum.

 

Rauðsokkahreyfingin

Guðrún er einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar sem var stofnuð árið 1970 þegar hún var rúmlega tvítug og búin að eignast tvö börn af þremur.

„Barátta okkar snerist um að breyta samfélaginu. Það var svo mikið óréttlæti og svo er náttúrlega ennþá. Helstu baráttumál okkar voru meðal annars að íslenskar konur gætu ráðið yfir líkama sínum sjálfar, sem sé frjálsar fóstureyðingar. Þetta var mikil barátta en þær konur  sem vildu binda enda á meðgönguna og sem höfðu efni á því fóru til útlanda í fóstureyðingu. Hinar þurftu að leita til lækna hér á landi en þá var fóstureyðing ólögleg og fengu þær þá ekki þann aðbúnað og aðstoð sem þær þurftu. Svo eignuðust sumar börnin og gáfu þau kannski. Við börðumst líka fyrir því að vel yrði hugsað um öll börn samfélagsins, að börn ættu að fá að fara á dagheimili, sem kallast leikskóli í dag, en þá var í besta falli bara boðið upp á leikskólapláss í hálfan dag. Við börðumst einnig fyrir því að konur gætu menntað sig sem var ekki sjálfsagt. Það voru í raun og veru ekki allir skólar á landinu opnir konum þótt þeir ættu að vera það samkvæmt lögum. Svo var náttúrlega gífurlegur launamismunur milli karla og kvenna og í rauninni fáar konur í fullri vinnu og fáar konur sem höfðu til dæmis lokið háskólaprófi. Svo vorum við konur ekkert í sögubókunum. Saga okkar var óskráð. Það var í rauninni eins og við værum ekki til. Það breytti lífi mínu að fara út í þessa baráttu með þessum öflugu konum og reyndar nokkrum körlum. Þetta var besti skóli ævi minnar.“

Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum í almennum kosningum, og Jóhanna Sigurðadóttir varð forsætisráðherra Íslands, fyrst íslenskra kvenna.

„Ég ákvað að styðja Vigdísi um leið og hún steig fram og ég var óskaplega glöð þegar hún var kosin. Þegar úrslitin lágu fyrir um nóttina þá lágu dætur mínar tvær, þá þriggja og 13 ára, sitt hvorum megin við mig sofandi og ég horfði á þær og hugsaði með mér að nú yrði lífið auðveldara fyrir þær sem og son minn sem var í sveit. Samfélagið yrði betra af því að þetta var svo stórt skref sem við vorum að stíga þarna. Það var dásamlegt að þetta skyldi nást. Ég er svo hrifin af Vigdísi. Mér finnst hún vera svo stórkostleg. Eins fannst mér stórkostlegt þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra næstum þrjátíu árum síðar. Við höfðum unnið mikið saman til dæmis í Framkvæmdanefnd um launamál kvenna sem var öflugt samstarf kvenna úr launþegahreyfingunni og stjórnmálaflokkunum og hún var ótrúlega dugleg og öflug. Þegar Katrín Jakobsdóttur varð síðar forsætisráðherra þá hugsaði ég með mér að hún væri önnur konan til að gegna þessu embætti með svona stuttu millibili og að þetta yrði bara framtíðin. Þetta yrði bara sjalfsagður hlutur. Það þarf svo aðra Vigdísi; þegar Guðni hættir þá þurfum við að vera alveg viðbúin og tilbúin.“

Guðrún er spurð hvernig henni finnist staða íslenskra kvenna vera í dag.

„Það hefur náttúrlega orðið bylting. Gjörbylting. Ég verð nú að hæla núverandi ríkisstjórn en það hafa gífurlega mikilvægir áfangar náðst. Konur ráða til dæmis núna yfir eigin líkama og þegar það mál var loksins afgreitt á Alþingi fyrir tveimur árum þá sat ég á pöllunum og hugsaði: „Það eru liðin rúm 50 ár frá því að við í Rauðsokkahreyfingunni hófum þessa baráttu og vorum að dreifa bæklingum og krefjast frjálsra fóstureyðinga eins og það hét þá. Og nú sat ég þar og fullnaðarsigur unninn.“ Og þá fór ég að gráta uppi á pöllunum. Og það gerðu fleiri.“ Þetta var í maí 2019.

Guðrún nefnir líka fæðingarorlof sem eru 12 mánuðir í dag.

„Ég á þrjú börn og ég hef fengið samtals þrjá mánuði í fæðingarorlof. Það eru breyttir tímar en við erum alls ekki komin nógu langt.“

Guðrún nefnir líka MeToo- og Free the nipple-byltingarnar. „Það er ýmislegt svona sem er að hrista upp í samfélaginu og er til góðs. Svo verð ég að nefna lög um kynrænt sjálfræði; þar sem fólki er veitt frelsi til að ákveða kyn sitt sjálft. Það er ýmislegt svona sem er dásamlegt. Og ég fagna ákaft. En við erum alls ekki komin á leiðarenda,“ segir Guðrún og nefnir launamun kynjanna í dag sem og lífeyrisréttindi kvenna sem eru almennt lakari heldur en karla þar sem konur hafa margar hverjar verið á mun lægri launum en karlar og kannski í hlutastarfi.

 

Ég ákvað að styðja Vigdísi um leið og hún steig fram og ég var óskaplega glöð þegar hún var kosin.

 

Stjórnmálin

Guðrún var árið 1974 beðin um fara í framboð fyrir Alþýðubandalagið sem hún gerði og tók sæti á lista í borgarstjórnarkosningunum það ár. Hún var í Albýðubandalaginu þangað til það var lagt niður árið 1999. Guðrún var aðal- eða varaborgarfulltrúi flokksins á árunum 1974-1994 og borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans frá 1994 -1999 og forseti borgarstjórnar. Stærstu verkefni Guðrúnar jafnframt setu í borgarstjórn voru undirbúningur og skipulagning á þátttöku íslenskra kvenna á Nordisk Forum í Oslo. Á þessum tíma var hún framkvæmdastjóri við undirbúning Norræns kvennaþings í Osló frá 1986-1988 á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Einnig  var hún framkvæmdastjóri Vestnorræns kvennaþings 1992 sem haldið var á Egilsstöðum. Þá var hún aðstoðarmaður Svavars Gestssonar á árunum 1988-1991 en hann gegndi þá stöðu menntamálaráðherra.

Borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Guðrún er spurð hverju henni finnist hún hafa náð fram og komið til leiðar.

„Ég tel mig hafa lagt mitt lóð á vogarskálar kvennabaráttunnar undanfarna áratugi hvar sem ég hef starfað. Íslenskar konur hafa náð gríðarlegum árangri. Og niðurstaðan er betra og réttlátara samfélag fyrir konur, karla og börn. Ég vil nefna setu mína í félagsmálaráði í 12 ár þar sem verkefnin voru að vinna gegn fátækt og óréttlæti og hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Mín verkefni snerust þar mjög um málefni aldraðra. Ég var formaður Skipulagsnefndar í fimm ár og hafði áður verið lengi í þeirri nefnd. Ég var fyrsta konan sem varð formaður stjórnar Strætó og mér fannst það vera svakalega merkilegt. Mér fannst vera svo mikilvægt að almenningssamgöngur væru góðar og að allir gætu ferðast og komist leiðar sinnar, líka á kvöldin og á nóttunni. Við lögðum áherslu á að biðskýli væru góð og afsláttarmiðar væru fyrir þá sem ættu minna og að net almenningssamgangna væri mjög þéttriðið. Ég talaði svo mikið um þetta og var svo mikið að skrifa í blöðin að ýmsir félagar mínir voru kannski svolítið pirraðir á þessu öllu saman og fannst þetta ganga of langt; þeir sögðu að ég héldi að sósíalisminn væri á hjólum.“ Hún hlær. „En ég held að hann sé það. Ég hugsaði líka um umhverfismálin; allt þetta svæði sem bíllinn tekur undir sig þegar nær helmingurinn af Reykjavíkurborg er lagður undir vegi, götur og bílastæði. Það er verið að breyta því núna með þéttingu byggðar. Ég barðist fyrir 30 kílómetra hámarkshraða í sumum götum. Það gerðu líka borgarfulltrúar í öðrum flokkum en flokkarnir þeirra studdu þá ekki. Þetta var hins vegar á stefnuskrá Alþýðubandalagsins – 30 kílómetra hámarkshraði svo sem í kringum skóla. Ég var einmitt að rifja upp áðan að ég rétt náði að tjá mig um Kárahnjúkavirkjun sem stjórnmálamaður áður en ég hætti en ég var algjörlega mótfallin því að það væri ráðist með þessum hætti að landinu okkar. Og ég var harmi lostin eins og margir aðrir. Ég er mjög upptekin af fegurðinni. Mér finnst til dæmis ýmis fjöll vera óskaplega falleg og náttúran á Íslandi og víða um allan heim dásamleg. Og mér finnst að við eigum svolítið að dýrka fegurðina þannig að það sem byggt er, það manngerða, eigi líka að vera fallegt og í takt við náttúruna. Ég er til dæmis á móti háhýsum,“ segir Guðrún og bendir á strengi sem þar eru oft og segir að í eitt skiptið hafi hún rétt hjá háhýsi þurft að halda sér í skilti til að detta ekki í rokinu.“ Hún hlær. Segist hafa haldið í skiltið þangað til einhver kom og hjálpaði henni. „Háhýsarok er þekkt. Við eigum að reyna að minnka rokið í borginni og það hefur svo sannarlega minnkað af því að við erum með svo mikinn gróður. Svo þegar er verið að skipuleggja þá vil ég endilega að trappað sé niður að sjó þannig að flestir geti notið útsýnisins og það finnst mér vera lýðræðislegt.“

 

Ég tel mig hafa lagt mitt lóð á vogarskálar kvennabaráttunnar undanfarna áratugi hvar sem ég hef starfað.

Yfirborðslegt samfélag

Guðrún giftist Svavari Gestssyni árið 1993 eftir þriggja ára sambúð. Hjónin fluttu vestur um haf árið 1999 þegar Svavar varð sendiherra og aðalræðismaður í Winnipeg þar sem hann sá meðal annars um hátíðahöld árið 2000 í Kanada í tilefni af þúsund ára afmæli landafundanna en þá var jafnframt minnst 125 ára afmælis vesturferðanna og þúsund ára afmælis kristnitöku á Íslandi.

„Þessi hátíðardagskrá samanstóð af  200 viðburðum sem voru mjög vel sóttir og segja má að þetta hafi kveikt nýtt líf í Íslendingasamfélögunum og í Bandaríkjunum. Hátíðahöldin náðu allt frá Vancouver í vestri til Nýfundnalands í austri. Einn viðburðurinn af þessum 200 voru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands víða um Kanada. Ég var í miklu stuði og tók þátt í þessu öllu alveg á fullu. Þetta var óskaplega skemmtilegt.“

Svavar var svo skipaður sendiherra Íslands í Svíþjóð 2001–2005 og svo sendiherra Íslands í Danmörku 2005–2010.

„Starf okkar í Stokkhólmi og í Kaupmannahöfn var gjörólíkt því sem var í Winnipeg. Við vorum ekki í diplómatasamfélagi þegar við bjuggum í Winnipeg. Þar urðu til vináttutengsl sem enn standa. Í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn hins vegar eru aðstæður allt aðrar og diplómasamfélagið formfastara. Þetta var svolítið yfirborðslegt samfélag en mér fannst mjög gaman. Það var hægt að gera svo margt,“ segir Guðrún sem í Stokkhólmi var orðin varaformaður Diplomatic Women’s Club auk þess að vera meðal annars í bókaklúbbi og hélt kvennafundi með sænskum vinkonum.

„Eitt af því sem mér fannst vera skemmtilegt eftir að við fluttum til Kaupmannahafnar var að vera í hópi kvenna sem hittust reglulega og ákváðum við að halda upp á 8. mars, alþjóðlegan baráttudag kvenna, og bjóða einhverjum frá Íslandi og halda samkomu í Jónshúsi. Þessu var haldið áfram eftir að ég flutti heim til Íslands. Maður getur ekki bara setið og beðið eftir boðskorti í kokteilpartí. Ég hugsaði með mér í Kaupmannahöfn að ég þyrfti að gera eitthvað meira og þá lét ég drauminn rætast og fór í háskólanám en ég lauk prófi í félagsvísindum frá Hróarskelduháskóla árið 2009.“

 

Í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn hins vegar eru aðstæður allt aðrar og diplómasamfélagið formfastara. Þetta var svolítið yfirborðslegt samfélag en mér fannst mjög gaman.

 

Það er fallegt að syrgja

Guðrún hefur sinnt ýmsum störfum og verkefnum eftir að þau Svavar fluttu aftur til Íslands. Reykjavíkurborg leitaði til hennar árið 2015 en þá var nýbúið var að stofna öldungaráð og var hún beðin um að verða formaður þess. Hún sinnti þeirri formennsku í fjögur ár. „Ég hafði gaman af því og það þarf alltaf að passa sérstaklega upp á þann hóp aldraðra sem er fátækur. Við eigum að útrýma fátæktinni þar. Þetta var eitt af áherslunum í málefnum ráðsins sem og málefni eldri innflytjenda.“

Hún vann meðal annars sem ráðgjafi hjá Félagi eldri borgara og einnig Landssambandi eldri borgara þangað til nýlega en þar flutti hún meðal annars fyrirlestra á vegum landssambandsins um einmanleika.

„Ég gerði það án þess að hafa hugmynd um að ég myndi lenda í þeirri stöðu að verða ekkja sem er eitt því sem er líklegast til að valda einmanaleika,“ segir Guðrún en Svavar lést fyrr á þessu ári. „Ég fór út um borg og bý og talaði um einmanaleika og það var eins og ég hefði verið í háskólanámi í hvernig á að koma í veg fyrir einmanaleika þannig að ég vissi alveg hvað ég átti að gera þegar Svavar lést. Auðvitað breytist lífið óskaplega mikið þegar maður er kominn á þennan aldur, 74 ára, og þegar við erum ekki lengur tvö og sérstaklega þar sem við vorum mjög náin og mikið saman. En nú veit ég hvað ég á að gera. Ég má ekki einangra mig og ég má ekki gleyma því að reyna að einblína á það sem veitir mér hamingju. Og ég má ekki láta sorgina yfirtaka líf mitt. Það liggur algjörlega í augum uppi. Ég er elsta manneskjan í stórum hópi og það væri ómögulegt ef ég væri alltaf sorgmædd; grenjandi úti í horni. Það má alveg gráta og við gerum það öll.“ Guðrún á þrjú börn, börn Svavars eru þrjú, barnabörnin eru 17 í allt og von er á sjötta langafa/langömmubarninu. „Það skiptir miklu máli að eiga tengslanet; eiga góða fjölskyldu og rækta vináttuna. Það er eitt besta ræktunarstarfið. Maður verður að passa sig á því að dvelja ekki í sorginni; lífið hefur upp á svo margt að bjóða. Og mjög margir hafa verið í mínum sporum þannig að ég er alls ekki ein.“

Guðrún segir að það skpti máli að sorgin sé ekki bara neikvæð. „Hún er falleg. Það er fallegt að syrgja. Það gefur auga leið að ef maður hefur elskað þá er mjög líklegt að maður muni syrgja. Sorgin er ákveðin vídd og það að upplifa sorgina breytir manni sem manneskju. Maður sér hlutina í öðru ljósi og það skiptir mig svo miklu máli að átta mig á því hvað ég hafði verið óskaplega lánsöm, hvað ég hafði átt gott líf og á enn og hvað ég á mikið af minningum sem ylja mér. Þannig að mér líður vel þegar ég rifja upp ýmislegt fallegt sem ég hef upplifað með mínum maka. Ég á ennþá makann minn þótt hann sé ekki hérna með mér. En ég á hann. Og hann er með mér. Þetta er einhvern veginn þannig að sorgin getur verið svo falleg þegar maður skoðar hlutina í þessu ljósi.“

Guðrún segir að þeir sem upplifa sorgina geri það hver með sínum hætti.

„Ég reyni eins og ég sagði að einblína á það sem veitir mér hamingju og það er búið að rannsaka það að það hjálpi að vera úti í náttúrunni og hreyfa sig, það þarf góða næringu og félagsskap. Ég veit af því og ég sinni þessu vel. Það sem hefur hjálpað mér mikið er að ganga. Ég geng og geng og geng og geng. Ég hef stundum pælt í hvort skrefateljarinn minn springi ekki af því að mér finnst vera svo gaman að ganga. Þegar Svavar var á gjörgæslu á Landspítalanum þá byrjaði ég að ganga niður á Landspítala og þegar hann var fluttur á gjörgæslu á Borgarspítalanum gamla þá hugsaði ég með mér að ég gæti gengið þangað líka. Svo byrjaði ég að ganga meira og meira og stundum fór ég í göngutúra tvisvar á dag. Ég fann hvernig ég styrktist og efldist við gönguna og maður hugsar öðruvísi þegar maður er að ganga. Þess vegna hlusta ég aldrei á neitt þegar ég er að ganga heldur nota tímann til að velta ýmsu fyrir mér sem ég þarf að gera. Svo fór ég að draga vinkonur mínar með mér í göngur.“

Guðrún talar líka um náttúruna. „Svo finnst mér vera ótrúlega gott að vera úti í náttúrunni.“

Hún býr í Hlíðahverfi og blasa hús við næstu götur út um alla gluggana. „Ég er í borgarumhverfi sem ég elska en ég á sumarbústað fyrir vestan þar sem er fallegasta útsýni í heimi og við Svavar vorum þar hálft árið frá 2006. Og þangað sæki ég næringu. Þar hlaðast einhver batterí. Það er gífurlega mikilvægt að vera úti í náttúrunni.“

Guðrún segir að eftir fráfall Svavars hafi hún gert sér grein fyrir að hún sé aðeins sterkari heldur en hún hélt að hún væri. „Ég held að fólki í kringum mig finnist það kannski líka. Ég sæki styrkinn í minningarnar, það jákvæða og það góða. Og ég á alveg ótrúlega mikinn forða. Ég er auðug hvað það varðar. Og ég á alveg yndislegt fólk – börnin mín og börn Svavars og fjölskyldur þeirra. Þetta eru góðar manneskjur og frábært fólk. Svo á ég góða vini þannig að ég er óskaplega lánsöm manneskja og mjög þakklát fyrir það.“

 

Ég má ekki einangra mig og ég má ekki gleyma því að reyna að einblína á það sem veitir mér hamingju. Og ég má ekki láta sorgina yfirtaka líf mitt.

 

Bæklingurinn Við andlát maka

Guðrún segir að þegar sorgin dynur yfir og makinn dáinn þá taki við gífurlega flókið ferli. „Það voru margir í kringum mig að hjálpa mér en það var samt margt sem enginn gat gert nema ég sjálf. Ég var að bugast yfir því hvað ég þurfti að tala við marga í bönkunum og til dæmis Orkuveitunni og breyta reikningum og loka. Þegar maður hefur afhent dánarvottorð hjá sýslumanni þá lokast bankareikningar makans; líka reikningar sem fólk heldur að sé sameiginlegur heimilisreikningur. Þannig að ef reikningurinn er á nafni hins látna þá lokast allt og ekkjan eða ekkillinn getur ekki notað kortið sitt sem er búið að loka. Mjólkurpotturinn úti í búð er óaðgengilegur. Þetta er eitthvað sem margir vita ekki en þurfa að vita.

Það er til fullt af bæklingum. Maður fær til dæmis bækling frá Landspítalanum og útfararstofunni,“ segir Guðrún. Þessi reynsla og annarra varð til þess að hún tók sig til í samvinnu við formann LEB, Þórunni Sveinbjörnsdóttir, og útbjó bækling sem er kominn út: „Við andlát maka. Ætlað eldra fólki aðallega.“ Elsa S. Þorkelsdóttir lögfræðingur aðstoðaði við lagalegu hliðina.

„Ég er mjög ánægð með að vera búin að þessu og hafa ýmsir, þar á meðal prestar, fengið bæklinginn í hendur. Hann verður kannski settur á netið og það verður alltaf hægt að uppfæra ef það verða breytingar. “

Í bæklingnum er fjallað um það helsta sem eftirlifandi makar standa frammi fyrir við andlát svo sem dánarvottorð, undirbúning útfarar, dánartilkynningu, samskipti við banka, Tryggingastofnun en einnig búskipti og lífeyrismálin. Þá er fjallað í bæklingnum um erfðamál, opinber skipti og einkaskipti, lífeyrissjóði – séreignasparnað, heilsugæslu og stuðning í sorg.

„Ég vona innilega að þessi bæklingur gagnist sem flestum.“

 

Nú tekur eitthvað annað við

Guðrún segist vilja búa í samfélagi þar sem manneskjur beri virðingu hver fyrir annarri, sýni sanngirni og reyni að vanda sig þegar þær tjá sig. Hún vill að fólk sýni umhverfinu og landinu virðingu og jafnvel lotningu.

„Jafnaðarstefnan er sú stefna sem við verðum að vinna eftir.“

Nýr kafli er hafinn í lífi Guðrúnar. Hún hefur einbeitt sér að kjörum aldraðra en nú tekur eitthvað annað við. Önnur verkefni.

„Ég hef áhuga á mörgum málefnum, ekki bara málefnum aldraðra..Ég finn ekki svo mikinn mun á hvað fólk er gamalt. Mér finnst ekki vera síður mikilvægt að passa upp á fátæk börn. Nú er ég alveg til í að fara að sinna einhverju öðru svo sem börnum og ekki síst börnum innflytjenda. Fólk er að vinna í alls konar sjálfboðavinnu svo sem að lesa fyrir börn og læra með þeim.“

Guðrún hefur margt lagt á vogarskálar samfélagsins í áratugi og hún segir að sér finnist það vera skylda hvers og eins að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. „Það veitir mér mikla ánægju og ein leið til að koma í veg fyrir einmanaleika. Þannig að þegar ég er að takast á við verkefni sem ég held að geti hugsanlega orðið til góðs þá líður mér vel. Þá er ég hamingjusöm.“

 

„Jafnaðarstefnan er sú stefna sem við verðum að vinna eftir.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -