Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Guðrún Veiga þurfti læknishjálp við að ná af sér óheppilega staðsettu einangrunarlímbandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hin bráðfyndna og orðheppna Guðrún Veiga Guðmundsdóttir er undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Það má með sanni segja að Guðrún Veiga hafi unnið hug og hjörtu Íslendinga slíkar hafa vinsældir hennar á samfélagsmiðlum verið. Og ekki að undra. Fyrir utan að vera mikill húmoristi, þá kemur hún til dyranna eins og hún er klædd, tuðar yfir hinu og þessu, sem við eigum nú öll til að gera, spjallar við fylgjendur sína ómáluð á sloppnum sínum góða, sýnir heimilið sitt óháð því hvort allt sé í drasli eður ei og er einhvern veginn svo hversdagsleg, í jákvæðustu mynd þess orðs, að auðvelt er að tengja við hana og ósjálfrátt fer manni að þykja vænt um hana.
Mannlíf komst að því að Guðrún Veiga hefur sungið á sviði með Leoncie, óumbeðin þó, horfir alltof mikið á sjónvarp og verður sjaldan fyrir vonbrigðum.

Guðrún Veiga

Fjölskylduhagir? Ég er gift Guðmundi Valssyni og við eigum saman tvö börn, Val Elí og Sigrúnu Þórdísi.

Menntun/atvinna? MA gráða í mannfræði frá Háskóla Íslands en ætli ég starfi ekki sem eins manns auglýsingastofa – sem er ljómandi fínt af því ég kann best við mig bara í eigin félagsskap. Ég er líka búin að kaupa svo mikið af pottablómum undanfarið að það er að verða að fullu starfi. Jú og svo er ég farin að rækta þau líka.

Uppáhalds Sjónvarpsefni?  The Office, Cougar Town, Friends, Good Girls, Younger, Cold Case, Real Housewives of hvað sem er, Parks and Recreation, Sex and the City, Seinfeld, Desperate Housewives, You – jájájá, ég horfi alltof mikið á sjónvarp og hef alltaf gert.

Leikari? Höfum það leikkonu, Julia Roberts, ávallt og að eilífu

Rithöfundur? Glennon Doyle og Jojo Moyes

- Auglýsing -

Bók eða bíó? Bók – það vill enginn fara með mér í bíó af því það er ekki nokkur möguleiki að ég geti þagað í 90 mínútur eða meira.

Besti matur? Skyr, karamelludýrin frá Góu, pizza, ítölsku kjötbollurnar hennar mömmu og rjúpurnar hans Gumma. Eins hef ég óþægilega mikla matarást á mági mínum.

Kók eða Pepsí? Rauðvín

- Auglýsing -

Fallegasti staðurinn?  Ó, Eskifjörður er sá allra fallegasti. Seyðisfjörður fylgir svo fast þar á eftir. Og Vestmannaeyjar – þær hafa aldeilis skriðið inn í hjartað á mér.

Hvað er skemmtilegt? Þegar sonur minn hlær að bröndurunum mínum. Hann er 14 ára – segir að ég sé meira skrýtin en fyndin, þannig að ég fagna hverri hlátursgusu áður en umbreytingin í úrillan ungling verður algjör.

Hvað er leiðinlegt? Mannamergð og múgæsingur. Of mikið af fólki. Ég er líklega ekki félagslyndasta kona sem þú finnur.

Hvaða skemmtistaður? Æ, ég er best geymd í sófanum heima – sem ég sit svo oft og mikið í að það er komin dæld í hann.

Kostir? Stundvísi

Lestir?  Stundvísi – sver það, hef eytt 30% af ævinni í að bíða einhversstaðar af því ég er mætt tveimur tímum of snemma, aðallega af ótta við að fá ekki bílastæði á áfangastað. Bílastæðakvíði er raunverulegt fyrirbæri.

Hver er fyndinn? Pabbi minn.

Hver er leiðinlegur? Ég get verið alveg mökkfokk leiðinleg þegar ég tek mig til.

Trúir þú á drauga? Alveg bara. Það er líklega leitun að myrkfælnari einstaklingi. Ég sé allskonar misgáfuleg fyrirbæri í hverju horni þegar húmar að. Sef helst með öll ljós kveikt og held líklega uppi rafveitunni í Vestmannaeyjum.

Stærsta augnablikið? Er til eitthvað stærra en að fá börnin sín í fangið í fyrsta sinn? Ó, ég fór líka á tónleika með Adele árið 2016, tróð mér upp við sviðið (sem er ekki rétt, ég hata mannamergð og múgæsing – vinkona mín dró mig) og Adele horfði í augun á mér og blikkaði mig. Get svo guðsvarið það. Árið 2003 söng ég líka á sviði með Leoncie. Hún bauð mér ekki upp á svið, ég sá um það sjálf.

Mestu vonbrigðin? Sko, ég er afar svartsýnn og kvíðinn einstaklingur. Bölsýniskona mikil. Ég hef tileinkað mér að gera alltaf ráð fyrir því versta í öllum kringumstæðum. Mála skrattann á sem flesta veggi bara. Hræðilegur ókostur en hefur þann kost í för með sér að ég verð eiginlega aldrei fyrir vonbrigðum.

Hver er draumurinn? Að fá að sofa fram að hádegi. Ég er að ala upp einn hrikalega árrisulan einstakling. Hef ekki sofið lengur en til sjö í góð fjögur ár. Og og og að læra til prests. Sá draumur rætist þó líklega ekki fyrr en að Háskóli Íslands hundskast inn í nútímann og stóreykur framboð sitt af fjarnámi og reynir að þjónusta aðeins fleiri en þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu eða eru tilbúnir til þess að flytjast þangað.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Fer það ekki á mína afrekaskrá ef systir mín eignaðist barn á árinu? Jæja, ég afrekaði allavega að verða yfir mig ástfangin af agnarsmáum einstaklingi við það eitt að sjá ljósmynd af honum. Svo skipulagði ég líka og hélt fermingarveislu. Það á heima á afrekaskrá. Og drakk ekkert vín í janúar. Og er komin í þriðju viku af couch to 5K.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Ég er kvíðakona mikil og markmiðasetning er langt frá því að vera hvetjandi fyrir mig. Meira bara þrúgandi og kvíðvænleg. Ég á ýmislegt eftir óafrekað þó. Veit ekki hvað en það skýrist.

Manstu eftir einhverjum brandara? Engum sem ekki er svo óviðeigandi að krakkarnir verða líklega teknir úr minni umsjá ef ég læt þá flakka.

Vandræðalegasta augnablikið? Líf mitt er röð vandræðalegra augnablika og afar erfitt að ætla að velja eitt sem stendur upp úr. Það sem kemur fyrst upp í hugann er að einu sinni var ég að fara í myndatöku og bolurinn sem ég ákvað að klæðast bauð ekki upp á þann munað að skartað væri brjóstahaldara innan undir. Ég ætlaði nú aldeilis ekki að bjóða þeim sem myndu bera myndina augum upp á blýsperrtar geirvörturnar á mér. Mig minnti endilega að ég hefði lesið einhversstaðar að þetta vandamál mætti leysa með svolitlu límbandi. Jóðla bara tveimur strimlum á stitthvora túttuna. Það eina sem ég fann var hins vegar einangrunarlímband einhversskonar. Töluvert mikið sterkara en það sem þú notar á afmælispakka. Þessu límbandi smellti ég svo kyrfilega á bringuna á mér – hæstánægð með eigin lausnamiðaða hugsanahátt. Löng saga stutt – ég þurfti á endanum læknishjálp af því ég reif næstum geirvörturnar á mér upp með rótum þegar kom að því að afklæðast eftir þessa ágætu myndatöku.

Sorglegasta stundin? Ein af sorglegari stundum barnæsku minnar var þegar ég komst að því að Sigga og Grétar í Stjórninni væru ekki hjón.

Mesta gleðin? Það veitir mér mikla gleði hvað systkini mín hafa orðið skemmtileg og ómissandi með aldrinum. Þoldi þau ekki þegar ég var yngri.

Mikilvægast í lífinu? Hversdagsleikinn.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -