Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Guðrún yfirlæknir á sóttvarnarsviði jarðsungin í dag: „Að mamma sé farin er svo ólýsanlega sárt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Sigmundsdóttir, doktor í smitsjúkdómalækningum og yfirlæknir á sóttvarnarsviði embættis Landlæknis, verður borin til grafar í dag. Hún lést langt fyrir aldur fram á heimili sínu eftir erfiða baráttu við krabbamein 27. október síðastliðinn, aðeins 59 ára að aldri. Guðrún gegndi lykilhlutverki í baráttunni við Covid-19 hér á landi.

Guðrún ólst upp í Vogahverfi og síðar á Seltjarnarnesi. Hún lauk stúdentsprófi frá MR og embættispróf í læknisfræði frá HÍ. Þaðan hélt hún í framhaldsnám í smitstjúkdómum og sýklafræði í Svíþjóð. Þar varði hún einnig doktorsritgerð sína í smitsjúkdómum árið 2010. Eftir sérnámið starfaði Guðrún sem sérfræðingur og yfirlæknir á rannsóknarstofu Landspítalans og hjá embætti Landlæknis. Hún tók virkan þátt í vísindastarfi og skrifaði fjölmargar greinar um smitsjúkdóma og faraldsfræði þeirra.

Hólmfríður Gylfadóttir lyfjafræðingur minnist móður sinnar í hjartnæmri minningargrein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hún móður sína hafa kennt sér svo ótrúlega margt. „Undanfarinn mánuð hef ég gengið í gegnum mikinn missi. Með aðeins þriggja vikna millibili missti ég háaldraða móðurömmu mína og í kjölfarið 59 ára móður mína eftir baráttu við erfitt krabbamein. Það er þungbært að horfast í augu við þá staðreynd, mamma átti ekkert að fara svona snemma. Að mamma sé farin er svo ólýsanlega sárt, hún var mín stoð og stytta í einu og öllu og hefur alltaf verið mér svo dýrmæt. Ekki datt mér annað í hug en að hún næði háum aldri því hún hugsaði alltaf svo vel um sig, bæði hvað varðar mataræði og hreyfingu,“ segir Hólmfríður.

Með fráfalli Guðrúnar hefur Ísland misst einn af færsustu sérfræðingum sínum á sviði sóttvarna en hún gegndi lykilhlutverki við gerð viðbragðsáætlana sem voru þungamiðjan í viðbrögðum við Covid-19. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir syrgir góðan samstarfsmann. „Gunna var góður starfsmaður, vel að sér í fræðunum, atorkusöm og ósérhlífin. Mestu kostir Gunnu voru hennar mannlega hlýja, glaðværð og jákvæðni. Alltaf reyndi hún að leysa mál með málamiðlunum en gat þegar það átti við verið ákveðin og hélt sínum hlut. Síðustu árin voru Gunnu erfið eftir að sjúkdómurinn sem varð henni að aldurtila tók að láta á sér kræla. Hún tók hins vegar örlögum sínum af miklu æðruleysi og lýsandi fyrir hana var síðasta samtal okkar þar sem hún baðst afsökunar á því að hafa ekki getað tekið meiri þátt í baráttunni við COVID-19. Ég svaraði að hennar þáttur í öllum undirbúningi og vinnunni á meðan hennar naut við hefði verið ómetanlegur,“ segir Þórólfur.

„Núna stöndum við fjölskyldan eftir í tómarúmi og stingandi sorg“

Hólmfríður minnist þegar þegar Guðrún móðir hennar lenti í alvarlegu bílslysi fyrir þremur árum. Ári síðar komu fylgddi í kjölfarið áfallið, erfið krabbameinsgreining. „Eftir öll þessi áföll stóð þessi magnaða fyrirmynd mín alltaf upp og stappaði í mig stálinu þegar ég var hvað hræddust. En að lokum varð þessi versti ótti minn því miður að veruleika. Núna stöndum við fjölskyldan eftir í tómarúmi og stingandi sorg. Þrátt fyrir alla þessa erfiðleika er hugurinn þó furðu fljótur að gleyma því slæma og draga upp það góða. Góðu minningarnar eru svo ótalmargar, þökk sé mömmu og pabba. Mamma hefur mótað mig til frambúðar. Þeir eiginleikar sem hún hafði og gildin sem hún kenndi mér eru að hjálpa mér að takast á við þessa erfiðu sorg, hún er ljósið mitt í myrkrinu,“ segir Hólmfríður.

Alma Möller landlæknir segir skarð fyrir skildi hjá embættinu eftir fráfall Guðrúnar. „Guðrún hóf störf hjá embætti landlæknis fyrir tuttugu árum og var það stofnuninni mikið happ. Hún var einstakur fagmaður enda vel menntuð í smitsjúkdómalækningum og með doktorspróf á því sviði. Guðrún var gáfuð kona, fjölfróð og gaman að spjalla við hana um heima og geima. Þau lýsingarorð sem samstarfsfólk taldi upp á minningarstund voru að Guðrún var hlý, traust, samviskusöm, úrræðagóð, réttsýn og forvitin um aðra á jákvæðan hátt. Hún hafði góða nærveru, var sposk, brosmild, með gott skopskyn og öll munum við minnast smitandi hlátursins,“ segir Alma og bætir við um mikilvægi Guðrúnar heitinnar í baráttunni við Covid-19:

- Auglýsing -

„Þegar faraldur COVID-19 skall á stóð Guðrún í stafni með sóttvarnalækni og samstarfsfólki enda hafði hún tekið þátt í að þróa viðbragðsáætlanir og verkferla. Henni var fengið það vandasama hlutverk að leiða vinnuna þegar fyrstu tilfellin greindust og sem svo varð að vinnu rakningateymis. Hún tók þátt í að skapa gagnagrunn um sjúkdóminn og að koma á laggirnar heimasíðunni covid.is. En svo tók sjúkdómurinn sig upp og Guðrún varð frá að hverfa. Hún reyndi þó að liðsinna þar til starfsþrekið þraut.“

„Guðrún var gáfuð kona, fjölfróð og gaman að spjalla við hana um heima og geima. Hún var einstakur fagmaður enda vel menntuð í smitsjúkdómalækningum.“

Guðrún setti fjölskylduna ávalt í forgang segir Hólmfríður en á sama tíma hafi hún náð að vera mjög ábyrgðarfull í starfi sínu. „Hún var glaðlynd, heiðarleg, drífandi, eldklár og hvetjandi. Hún þekkti mig svo vel, oft jafnvel betur en ég þekkti sjálfa mig og vissi alltaf þegar eitthvað var að. Mamma veit og ég lofaði henni að ég mun standa stöðug með báða fætur á jörðinni eftir allt saman, því þannig ól hún mig upp. Ég mun alltaf vera stolt og þakklát fyrir það að vera dóttir hennar. Við sem fengum að kynnast henni erum gríðarlega heppin, hvað þá að fá að eiga hana sem mömmu. Eftir allt sem við höfum gengið í gegnum var ekkert ósagt okkar á milli, hún veit að ég veit og ég veit að hún veit. Nú eru veikindin ekki hluti af okkar lífi lengur, en mamma mun alltaf eiga risastóran stað í mínu hjarta. Takk fyrir alla gleðina elsku mamma,“ segir Hólmfríður.

Útför Guðrún fer fram í Dómkirkjunni í dag kl. 11:00. Athöfninni verður streymt og hlekkinn getur þú nálgast hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -