Guðmundur Benediktsson er nýjasti gesturinn í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar og ræðir þar ferilinn, væntanlegt afahlutverk og áreitið sem hann varð fyrir meðan á EM 2016 stóð.
„Hann hringdi bara stanslaust og ég bara gafst upp og slökkti á honum. Fyrsta símtalið var frá Noregi, þar sem var beðið um viðtal í norska sjónvarpinu, en svo byrjaði þetta og það hringdu bara allir fjölmiðlar í heiminum,“ lýsir Guðmundur Benediktsson fjölmiðlamaður í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar.
Guðmundur, eða Gummi Ben eins og hann er jafnan kallaður, segir þar meðal annars frá áreitinu sem hann þurfti að þola eftir að lýsingar hans á EM 2016 þutu um internetið. „Ég var fljótur að átta mig á því að það væri ekki séns fyrir mig að svara þessu öllu. Eftir Austurríkisleikinn gerðist eitthvað sem er eiginlega ekki hægt að útskýra. Reyndar verð ég nú að skjóta á einn starfsmann Símans sem ákvað að það væri góð hugmynd að allir erlendir fjölmiðlar sem hefðu samband fengju bara númerið mitt. Það var ekki góð hugmynd!“
„Hann hringdi bara stanslaust og ég bara gafst upp og slökkti á honum.“
Var áreitið svo mikið að Gummi gat ekkert notað símann, hvorki til að senda skilaboð né tölvupósta eða hringja, þar sem innhringingar beinlínís stoppuðu ekki. Í kjölfarið endaði hann meðal annars í einum stærsta sjónvarpsþætti Þýskalands sem viðmælandi með Robbie Williams en segir að undarlegasta „giggið“ hafi líklega verið þegar þýskt tæknifyrirtæki fékk hann til að halda uppistand með líkamsæfingum fyrir starfsfólkið sitt.
„Þeir voru með 200 starfsmenn á þessarri sýningu og ég var með upphitun fyrir starfsfólkið, nánast að gera einhverjar líkamsæfingar og gera þau klár inn í helgina og eitthvað.“
Viðtalið má sjá hér að neðan.