Það var í maí árið 2008 að Guðmundur Jónsson var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot í starfi. Auk þess var hann dæmdur til að greiða 12 milljónir í sakarkostnað og miskabætur.
Guðmundur var betur þekktur sem Gummi í Byrginu og veit enginn nákvæma tölu fórnarlamba hans.
Byrgið var meðferðarúrræði, stofnað af Guðmundi, og nokkrum öðrum einstaklingum árið 1996. Öll áttu þau sameiginlegt að vera fyrrverandi fíklar. Starfsemin flakkaði nokkuð á milli staða eftir því sem hún stækkaði og árið 2004 var Byrgið að Efri-Brú í Grímsnesi með 30-35 einstaklinga í meðferð í einu. Jafnt karla sem konur. Frá upphafi var Guðmundur framkvæmdastjóri Byrgisins.
Vistmenn rukkaðir
Byrgið naut góðs af starfi sjálfboðaliða og var fjármagnað með styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og skattgreiðendum. Ríkið styrkti Byrgið um að minnsta kosti 226 milljónir króna á tímabilinu 1999 til og með ársins 2007 auk þess sem vistmenn þurftu einnig að greiða fyrir vist sína.
Fjármálaumsjón Byrgisins þótti oft vafasöm og var var tvisvar gerð úttekt á þeim, sú fyrri á árunum 2001/2002 og sú seinni á árunum 2006/2007. Í báðum skiptunum þótti bókhald og fjármálastjórn mjög aðfinnsluverð. Ekki var haft fyrir að skila ársskýrslum. Samt sem áður hélt hið opinbera áfram að útvista fíklum til Byrgisins og greiddi vel fyrir.
Meðferðin í Byrginu byggðist á 12 spora kerfi AA-samtakanna og byggðist á stífri dagskrá sem hófst snemma á morgnana og stóð langt fram á kvöld, strangar reglur giltu um þrif og heimsóknir takmarkaðar. Ekki var um sérstök meðferðarúrræði eða geðræna meðferð að ræða, heldur lögð áherslu á guðsótta og sameiginlegan stuðning.
Engar kröfur um þekkingu
Skjólstæðingar Byrgisins komu úr hópi þeirra viðkvæmustu í samfélaginu, oft einstaklingar sem höfðu verið lengi í fíkniefnaneyslu sem höfðu gert margar árangurslausar tilraunir til að hætta. Þetta var fólk sem var illa haldið andlega, líkamlega og félagslega. Margir voru heimilislausir.
Þetta fólk var sett í umsjón aðila sem enga formlega, né óformlega, menntun hafði fengið í að sinna þeim fjölbreytta vanda sem hrjáir ofangreindan hóp. Við nánari grennslun kom í ljós að Byrgið hafði í einhverjum tilfellum séð um afeitranir, sem eiga eingöngu að vera á hendi fagmanna.
Sprengjan fellur
Það er síðan í árslok 2006 að fréttaskýringarþátturinn Kompáss kastaði fram sprengju. Um var að ræða ásakanir á hendur Guðmundi varðandi fjármálamisferli og kynferðislegt samneyti við vistmenn Byrgisins. Voru heimildarmenn jafnt starfsmenn, vistmenn og aðstandendur vistmanna.
Kompáss tók viðtal við fjórar stúlkur sem sögðust hafa átt í kynferðislegu sambandi við Guðmund á meðan á meðferð þeirra stóð. Ein þeirra var undir lögaldri. Allar áttu þær sameiginlegt að Guðmundur nýtti sér andlega annmarka þeirra til kynlífs
Einnig var borið upp á Guðmund að hann hefði gefið þeim stúlkum sem hann átti í sambandi við, dýr föt og jafnvel bíla. Hann mun einnig hafa nýtt fé Byrgisins til lóðakaupa.
Guðmundur brást við með að neita alfarið öllum ásökunum og ásakaði heimildarmenn um lygar og að aðstandendur Kompáss hefðu gefið þeim eiturlyf til að ljúga upp á hann. En daginn eftir lét hann af störfum sem forstöðumaður Byrgisins en kærði einnig Kompáss til lögreglu.
Í kjölfarið komu fleiri fram með sögur af athæfi Guðmundar. Þjóðin fékk áfall.
Svindl á svindl ofan
Nokkrum dögum síðar kom ung kona fram undir nafni í viðtali við Stöð 2. Hún sagðist hafa átt í sambandi við Guðmund í um tvö ár sem væri nýlokið. Hún sakaði hann um trúnaðarbrest og að hann hefði sagt öðrum skjólstæðingum Byrgisins frá persónulegum samskiptum þeirra. Einnig sakaði hún hann um að hafa svikið af henni fjórar milljónir króna sem hún greiddar frá tryggingafyrirtæki. Konan kærði Guðmund þann 22. desember 2006.
Fimm dögum síðar kemur í ljós að læknir hafi sent landlækni bréf árið 2002 þess efnis að þrír vistmenn Byrgisins hafi orðið þungaðar af völdum starfsmanna. Það er kolólöglegt að starfsmenn hafi samræði við vistmenn á meðferðarstofnun en þrátt fyrir það fékk Byrgið að starfa áfram óáreitt. Í boði skattgreiðenda.
Þann 29. desember kom fram kona á miðjum aldri sem sagðist hafa gerst ábyrgðarmaður fyrir láni sem Guðmundur fór fram á til uppbyggingar Byrgisins. Lánið var tekið árið 1999 og greiddi Guðmundur af láninu í örfáa mánuði en hætti svo. Konan missti húsnæðið í kjölfarið.
Myndbandið sem setti internetið á hliðina
Alls kærðu átta konur Guðmund. Myndbandskeið þar sem hann sást stunda kynlíf með skjólstæðingi, tengt ofbeldi og drottnun, kom fljótlega fram. Myndin flaug um lendur Internetsins á ógnarhraða og hrundu netþjónar landsins þegar landsmenn flykktust að tölvum sínum.
Aðspurður sagðist Guðmundur ætla að kæra stúlkuna á myndbandinu, ungan vistmann, fyrir nauðgun. Sjálf hafði hún þá þegar kært hann fyrir nauðgun.
Ríkið lokaði buddunni með hraði og stofnaði áfallateymi fyrir fórnarlömb Guðmundar.
Guðmundur játaði aldrei neitt né sýndi iðrun. Hann kom fram í fjölmiðlum þar sem hann kvartaði sárt undan illri meðferð og kvað málið hafa dregið tengdaföður sinn til dauða.
Endanlega var skellt í lás hjá Byrginu þann 15. janúar 2007.
Ekki er vitað um hvar Guðmundur Jónsson er staddur í dag né hvað hann hefur fyrir stafni
.