„Það má segja að þetta hafi byrjað í Covid,“ segir Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekkur sem Gummi kíró, um gjaldþrot félags síns, GBN-2024 ehf. sem úrskurðað var gjaldþrota í sumar. Áður en félagið fór í þrot breytti Guðmundur nafni félagsins sem áður hét Kírópraktorastöð Reykjavíkur ehf.
Guðmundur opnaði sig um gjaldþrotið í viðtali við Smartland þar sem hann útskýrði hrakfarirnar sem að hans sögn urðu vegna þess að röð mistaka gerði það að verkum að skuldir söfnuðust upp hjá félaginu þegar kórónaveiran geysaði. Fyrirtæki höfðu fengið þann möguleika að frysta greiðslur til skattsins og staðgreiðslu vegna launa sem hann nýtti sér á sínum tíma. Gummi segir að laun hjá fyrirtækinu hafi verið há og skuldin hækkað hratt.
„Ég náði að lækka heildarskuldir heilmikið niður en síðasti hjallinn var skatturinn og á endanum náði ég ekki að semja við hann. Skatturinn er harður húsbóndi þegar kemur að rekstri,“ segir Gummi við Smartland.
Hann segist hafa náði að greiða aðrar skuldir. Gummi sameinaðist í september Líf Kíró sem er í eigu Vignis Þórs Bollasonar. Sameiningin nær þó væntanlega aðeins til starfskrafta hans en fyrirtæki Gumma er nú í höndum skiptaráðenda.