Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, segist hugsa til starfsmanna Samherja sem horfi nú á stríðsfyrirsagnir um fyrirtækið og stjórnendur þess í fjölmiðlum. Hann gagnrýnir fjölmiðla og segir það galið að ætla að styrkja þá með ríkisfé.
„Það er slæmt fyrir okkur öll þegar eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins er sakað um vafasama viðskiptahætti. Eðlilegt er að þeir sem ábyrgð bera svari fyrir það. Þeir og aðrir sem að fyrirtækinu standa eða starfa hjá því eiga fjölskyldur, börn sem skilja ekki orðin sem notuð eru eða hvers vegna fjölskyldufaðirinn eða móðirin blandast inn í þá umræðu sem búin var til með æsifréttastílnum. Æsingur fjölmiðilsins til að ná athyglinni er stundum svo mikill að annað skiptir ekki máli. Athygliskeppnin er eins og aurskriða sem engu eirir og síst sannleikanum sem kannski kemur í ljós seint og um síðir,“ segir Gunnar Bragi í grein sem hann skrifar i Morgunblaðinu í dag. Kjarninn fjallaði einnig um grein Gunnars Braga.
Gagnrýnir sérstakt samband RÚV og Stundarinnar
Gunnar Bragi gagnrýnir enn fremur það sem hann kallar sérstakt samband milli Ríkisútvarpsins og Stundarinnar, sem birtu bæði umfjallanir um ætlaðar mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti Samherja í tengslum við viðskiptahætti fyrirtækisins í Namibíu.
Segir hann RÚV og Stundina hafa áður sængað saman „og þá matreitt málin eftir eigin höfði til þess eins að gera hlutina enn verri. Því er mikilvægt að bíða eftir heildarmyndinni áður en opinberar aftökur hefjast.“ Gunnar Bragi tilgreinir þó ekki hvaða umfjöllun hann er að vísa þar í.
Hann gagnrýnir síðan fjölmiðla almennt og segir æsing þeirra til að ná athygli oft svo mikinn að annað skipti ekki máli. „Athygliskeppnin er eins og aurskriða sem engu eirir og síst sannleikanum sem kannski kemur í ljós seint og um síðir. Á þá ekki að upplýsa um það sem miður fer eða þegar líkur eru á einhverju broti? Jú, svo sannarlega en hvernig það er gert skiptir máli.“ En líkt og áður tiltekur hann engin dæmi.
Segir styrki til fjölmiðla galna hugmynd
Að lokum opinberar Gunnar Bragi það að Miðflokkurinn hafi lagt fram tillögu um að hætt yrði við að styrkja einkarekna fjölmiðla um allt að 400 milljónir króna í heild við fjárlagavinnuna, en frumvarp um slíka styrki hefur verið dreift á Alþingi og til stendur að mæla fyrir því á næstunni.
Segir hann styrkina vera galna hugmynd þegar ríkið sé þegar að setja um fimm milljarða króna í Ríkisútvarpið. „Það að reyna að koma öllum fjölmiðlum á ríkisspenann minnir óþægilega á samfélög þar sem stjórnvöld reyna að stýra öllum fjölmiðlum. Fjölmiðlar verða að geta starfað án ríkisstyrkja. Miðflokkurinn mun á næstunni kynna hugmynd að því hvernig efla megi einkarekna fjölmiðla án þess að binda þá á ríkisjötuna.“