Gunnar Örn Heimisson Maríuson er látinn en hann var einungis 38 ára. Vinir hans minnast hans á Facebook með miklum söknuði. Gunnar Örn bjó í Kaupmannahöfn síðustu ár og þar lést hann. Af færslum vina hans að dæma þá var Gunnar í senn ljúfur, listrænn og hlýr. Hann glímdi við að vera veikur á geði.
Stefán Pálsson sagnfræðingur segir Gunnar hafa verið meðal efnilegustu sonum vinstrisins. „Á þessu heimili og í okkar kreðsum hét Gunnar Örn aldrei annað en Gunni flokksmaður. Hann var ofboðslega ljúfur og fallegur drengur. Öllum bar saman um að hann væri einn af efnilegustu sonum vinstrisins. Síðar rofnuðu tengslin. Hann leitaði í aðrar áttir í sínu lífi og síðustu samskiptin voru ekki auðveld og skildu mann eftir nokkuð hugsi. Það er sárt að þessu hafi lokið svona alltof snemma. Við gleymum þér aldrei flokksmaður sæll,“ segir Stefán.
Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur vakið athygli ötult hjálparstarf í þágu flóttamanna, minnist einnig Gunnars. „Elsku Gunnar minn er fallinn frá.Það að sólin komi bara upp eins og ekkert sé þessa dagana virkar eiginlega svolítið ósvífið af henni, þó birtan sé aldrei kærkomnari en einmitt á dimmustu dögunum. Ég er svo þakklát fyrir að lífið hafi leitt okkur saman á sínum tíma, í allskonar misgáfuleg ævintýri og áskoranir. Það verður tómlegt hérna án þín gæskur,“ segir hún.
Elísabet Ólafsdóttir, rithöfundur og stundum kölluð Beta rokk, skrifar svo einstaklega fallega og opinskáa minningargrein um Gunnar. „Ég trúi því alveg að hann er farinn. Ég var að bíða eftir því. Hann líka. Samt ekki. Við töluðum mikið um það sem skipti raunverulega máli, lífið en líka um dauðann. Hann var ekki hræddur við hann. Hann hafði komist í tæri við hann en valdi lífið, ástina, fjölskylduna. Hann elskaði fjölskylduna sína með öllu hjarta. Hann elskaði svo marga og gaf svo mikið,“ segir Elísabet og heldur áfram:
„Allir sem kynntust honum hrifust með í offorsinu sem var Gunni sæti. Hann var bókstaflega dýrðlegur. Gáfaður, vel máli farinn, fyndinn, hæfileikaríkur, söngglaður, tilfinningaríkur og fáránlega gefandi týpa. Í fyrsta skipti sem við hittumst horfði hann djúpt í augu mín, greip hann um hönd mína og leiddi mig að píanói í unglingapartýinu sem við vorum í. Svo spilaði hann Enrique Iglesias; “I can be your hero baby”… frekar vandræðalegt fyrir ískalda pönkarann mig en samt eitthvað svo heillandi. Ég gleymdi aldrei þessari stund og 20 árum síðar leiddi þetta lag okkur aftur saman.“
Hún segir að hann hafi þessi áhrif á fólk hvert sem hann fór. „Þetta eru áhrifin sem Gunnar hafði á fólk. Hann stimplaði sig inn í hjarta þeirra og dvaldi þar sama hvað. Gunnar var geðveikur og sagði sannleikann eins og lítil börn og eldgamalt fólk, það gat verið sárt en úr fjarlægð var það mannbætandi. Maður komst ekki upp með að vera ömurleg týpa með hann í kringum sig. Það er stórkostlegur kostur í manneskju og ég er að springa úr þakklæti fyrir að hafa tendrað tilfinningabál með Gunnari því hann vakti mig og gerði mig að betri manneskju,“ segir Elísabet.
Hún segist hafa heyrt í honum nýlega og þá voru engar blikur á lofti. „Ég talaði við hann síðast fyrir nokkrum dögum. Hann var kátur, fyndinn, elskandi umhyggjusamur og eins og alltaf þurfti hann að heyra allt það fyndna sem synir mínir hefðu sagt þá vikuna. Við hlógum mikið eins og alltaf, svissandi á að vera í mynd eða hljóði eftir því í hvernig netsambandi hann var á leiðinni. Hann var nefnilega að sækja tölvu sem hann var að kaupa, hann var sko ekkert á leiðinni út,“ segir Elísabet.
Að lokum segir hún: „En líkaminn fékk nóg og við sitjum hér eftir hágrátandi yfir að hafa ekki fengið lengri tíma. Hágrátandi yfir að hann gat ekki búið á Íslandi því geðheilbrigðiskerfið hérna er lamað. Hágrátandi yfir áskorunum Siggu Maju. Hágrátandi yfir því óréttlæti að foreldri þurfi að kveðja barnið sitt. Hágrátandi yfir að geðhvarfasýki er til. Hágrátandi yfir að upplifa ekki lengur alla þessa ást sem Gunnar hafði að gefa.
Elsku María, Heimir, Tinna og Lommi og fjölskyldur. Megi allar vættir veraldar styrkja ykkur á þessum ömurlegu tímum. Minningin um Nunna okkar lifir að eilífu.“