Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, setur stórt spurningarmerki við það að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, skuli reglulega ítreka áhuga sinn á að skoða það að flytja út íslenska raforku um sæstreng til Evrópu.
Gunnar telur upp nokkur ummæli sem Þórdís hefur látið falla um raforkumarkaðinn. Hann segir það vera „áhyggjuefni” hvernig Þórdís talar um raforkumarkaðinn og segir umræðuna vera líkt og ráðherra sé að „undirbúa okkur undir stóru bombuna”.
„Það er sama hversu oft ráðherrann reynir að telja okkur hinum trú um að hún sé enginn sérstakur talsmaður útflutnings á raforku um sæstreng þá kemur upp aftur og aftur önnur mynd. Ráðherrann er frekar fúl yfir því að almenningur og sérstaklega hennar eigin flokksmenn bregðist illa við orðum hennar.”
Gunnar tekur fram að hann sé á móti rafstreng vegna þess að hann vill nýta orkuna hér heima en líka vegna þess að hann er viss um að með því að flytja út íslenska raforku um sæstreng til Evrópu væri verið að „færa Evrópusambandinu stórkostleg völd” yfir auðlindum Íslendinga.
Lestu pistil Gunnars í heild sinni hérna.