Gunnar Smári Egilsson, innsti koppur í búri Sósíalistaflokks Íslands heldur því fram að nú ætli ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að refsa Rúv fyrir Verbúðarþættina vinsælu.
Gunnar Smári Egilsson setti fram færslu á Facebook síðu Sósíalistaflokksins í gær þar sem hann bendir á að Verbúðin hafi slegið í gegn en í þáttunum er athygli dregin að hans mati stærsta ráni Íslandssögunnar, kvótakerfinu. Í kjölfarið hafi myndast samstaða meðal stjórnarflokkanna, sem allir styðja kvótakerfið, að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Þetta segir Gunnar Smári enga tilviljun heldur vera refsingu ríkisvaldsins.
Hér fyrir neðan má sjá færsluna:
„Ísland í dag:
Tilviljun? Nei, þannig virkar þetta ekki. Þeim sem fara yfir strikið er refsað. Annars gæti auðvaldið misst völdin. Markmiðið er að veikja RÚV og gera það háðara stjórnvöldum.“
Færslan vakti mikla athygli og fjölmargir líkuðu við hana og þó nokkrir skrifuðu athugasemdir.
Sigmundur Ernir, fjölmiðlamaður og fyrrum alþingismaður spyr til dæmis góðrar spurningar. „Stóra spurningin er hvort einhver munur er á fulltrúa xD og VG í ráðuneyti kvótamála …“
Gunnar Smári svarar Sigmundi Erni um hæl.
„Enginn munur. Kvótagreifar stjórna. Flokkar sem hafa komið að og stutt kvótakerfið í ríkisstjórn eru: Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Borgaraflokkurinn, Samfylking, VG, Viðreisn og Björt framtíð.“
Færsluna má sjá hér.