Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi veltir fyrir sér hvort hið vinsæla lag Húsavík úr Eurovision-kvikmynd Wills Ferrell sé stolið.
„Ég horfði á Júóvision myndina með Sóley. Þegar Húsavíkurlagið kom sagði hún að það væri stolið, þetta væri Wonderful Life úr Smallfoot,“ skrifar Gunnar Smári á Facebook og spyr: „Hvað finnst ykkur?“
Með færslunni deilir Gunnar Smári laginu Wonderful Life úr teiknimyndinni Smallfoot sem flutt er af bandarísku leik- og söngkonunni Zendya.
Til samanburðar deilir hann laginu Húsavík sem Astrid, persóna kanadísku leikkonunnar Rachel McAdams, flytur í myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga og er raunverulega sungið af sænsku söngkonunni Molly Sandén.
Ekki fylgir sögunni hvað Gunnari Smára finnst um lagið sjálft eða myndina yfirleitt.