Laugardagur 11. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Gunnar Wiium vill opna umræðuna: ,,Nýbúinn að fara í þrjár jarðarfarir vegna sjálfsvíga”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Wiium hlaðvarpsstjórnandi og smiður er nýbúinn að fara í þrjár jarðarfarir vegna sjálfsvíga í kringum sig og segir nauðsynlegt að opna á umræðu um þunglyndi og geðlyfjanotkun. Gunnar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir alla þessa einstaklinga hafa verið á geðlyfjum, sem virðast hafa gert lítið sem ekkert gagn:

„Ég er búinn að vera á skrýtnum stað undanfarið af því að margir í kringum mig hafa verið að glíma við geðraskanir og hafa farið alveg á botninn. Allt þetta fólk er búið að vera á geðlyfjum í lengri tíma, en árangurinn er enginn. Það er búið að sjúkdómsvæða allt og við eigum bara að taka pillur ef við upplifum óþægilega hluti. Kerfið hefur svo engin úrræði önnur en að bjóða fleiri lyf og enginn hefur tíma til að sinna þeim sem raunverulega þurfa á því að halda. Ég hef horft upp á fólk í kringum mig sjálfræðissvipt og frelsissvipt, en svo eru engar lausnir aðrar en bara lyf. Einn góður vinur minn hefur verið meira og minna frelsissviptur inni á öryggisgeðdeild ár eftir ár. Þetta eru nánast orðin sex ár samfellt og allt sem hann segir við geðlækninn er túlkað honum í óhag. Ég er líka búinn að fara í fjölmargar jarðarfarir undanfarið, meðal annars þrjár vegna hræðilegra sjálfsvíga og svo eina vegna ofskömmtunar af opíóðalyfjum sem eru framleidd af lyfjafyrirtækjunum,“ segir Gunnar, sem segist líta á það sem skyldu sína að ræða um þessa hluti opinberlega:

„Ég get ekki setið hjá og horft upp á þetta án þess að tjá mig og opna á þessa umræðu opinberlega. Við erum ekki að ávarpa þennan grafalvarlega vanda, hvort sem það er gríðarleg aukning í opíóðanotkun eða mestu geðlyfjanotkun í heimi. Við verðum að ræða um þetta sem samfélag og gera eitthvað í þessu. Þessi hræðilega vanlíðan sem er allt í kringum okkur hlýtur að snerta okkur öll í þessu litla samfélagi.“

Gunnar þekkir sjálfur hvað það er að glíma við fíknir og mikla vanlíðan. Hann var í áraraðir fastur í fíknimynstrum áður en hann fékk andlega vakningu og gjörbreytti lífi sínu:

„En ég þurfti líka að fara að díla við alls konar annað eftir að ég vaknaði til vitundar. Meðal annars hvatir tengdar lágum orkustöðvum, sem oft er talað um sem ástar- og kynlífsfíkn, sem var að valda miklu sársauka heima fyrir. Ég þurfti að horfast í augu við klámfíkn sem var búin að hrjá mig eins og marga karlmenn alveg síðan ég var lítill pjakkur. Það var enginn sem útskýrði þennan heim fyrir manni og alveg síðan maður var lítill krakki var feluleikur og skömm í kringum allt sem sneri að kynlífi og hvötum þeim tengdum. Það tók enginn spjallið við mann á þessum tíma og úr varð feluleikur sem bjó síðan til skömm. Eitthvað sem maður vildi halda fyrir sjálfan sig og ekki sýna heiminum. Það eru margir karlmenn að díla við þetta og burðast við þessa skömm. Þess vegna er mikilvægt að tala um þetta opinskátt og varpa ljósi á þetta. Ef ungum karlmönnum er sagt að skammast sín bara og að þeir séu ógeðslegir verða hlutirnir bara verri. Það hjálpaði mér mikið að opna á þetta og tala um þetta opinskátt. Það velur enginn að vera klám- eða kynlífsfíkill þegar hann er í góðu jafnvægi.“

Í þættinum ræða Gunnar og Sölvi líka um sveppi, CBD olíur og kannabis. Gunnar segir mikilvægt að ræða um þessa hluti opinskátt og opinberlega.

- Auglýsing -

„Við erum komin á ákveðna endastöð þegar kemur að þessum SSRI lyfjum og ég hef ekki tölu á því hve margir sem hafa tekið þessi lyf í áraraðir hafa komið að máli við mig og líður ekkert betur. Það þýðir að fólk er farið að leita annarra lausna þegar kemur að depurð, kvíða og áfallastreitu. Það er orðið mjög útbreitt á Íslandi að fullorðið fólk sé að taka svepp til þess að komast inn á við og vinna á kvillum. Bæði að taka inn smáskammta og ferðalög á stærri skömmtum. Fólk á ekki að þurfa að skammast sín og vera í feluleik með þetta. Það er fólk í öll­um stigum samfélagsins að taka þetta út um all­an bæ. Við eig­um að opna á þessa umræðu og hætta laumu­leikn­um og skömm­inni í kring­um þetta. Fyrir nokkrum árum síðan var fólk að laumast með að taka inn CBD olíu af því að hún var bönnuð, en núna er það búið. Það er sama með svepp­inn eins og CBD að mjög marg­ir eru að fá bót á alls kyns kvill­um og bætta líðan með réttri notk­un,” seg­ir Gunn­ar, sem seg­ir að CBD olía hafi gjör­breytt lífi sínu:

„Ég var í laumuneyslu í talsverðan tíma gagnvart mínum nánustu og í raun bara öllum. Það var skrýtið að þurfa að hitta ein­hvern díler á bíla­plani í laumi til að fá flöskur með CBD olíu, sem ég var eingöngu að kaupa til að laga taugakerfið. Það var mjög súrt. Sem betur fer er þetta allt að breytast núna. Neysla á CBD er orðin út­breidd á Íslandi og er að aðstoða fólk við alls kyns tauga­ker­fisk­villum og kvíða.“

Gunnar þekkir á eigin skinni hvað það er að fara á botninn í neyslu og vill ræða opinskátt um allt sem getur aðstoðað fólk. Hann var kominn niður fyrir 50 kíló eftir mikla kókaínneyslu þegar verst lét, en hefur verið edrú í mörg ár og snúið lífi sínu gjörsamlega við:

- Auglýsing -

„Ég var gjörsamlega farinn í neyslu. Stærstan hlutann af tímanum var mesta spennan þegar ég var að bíða eftir dílernum og síðan kannski í fyrstu mínúturnar eftir að ég tók inn efnið. En hægt og rólega missti ég sjónar á veruleikanum og var í raun rúinn inn að beini. Hættur að borða og sofa svo vikum skipti og í raun kominn algjörlega á botninn. En ég var svo blessaður að verða fyrir andlegri vakningu sem gjörbreytti öllu hjá mér. Ég var bæði andlegt og líkamlegt flak og stoðkerfið var í rúst. En þá gerðist atburður sem leiddi af sér einhverja óútskýranlega heilun og eftir það var allt breytt. Fram að því hafði ég verið að ganga í gegnum lífið hálfsofandi þó að ég hafi ekki séð það sjálfur. Eftir þessa breytingu ákvað ég að stíga út úr hræðslunni og byrja að tjá mig um minn sannleika, alveg sama þó að það gæti kostað mig einhverjar óvinsældir.“

Gunnar segir að eitt af því sem hafi hjálpað honum að ná meira jafnvægi hafi verið að hægja á tilverunni:

„Ég vinn 150 metra frá húsinu mínu og fyrst var ég hræddur við að minnka heiminn minn svona mikið og draga úr spennu. En smám saman fór ég að upplifa miklu meiri ró og vellíðan. Eftir að heimurinn minn minnkaði fór ég að finna meiri samkennd meðal nágranna minna og það kom einhvern vegin bara meiri tenging. Ég held að við séum ekki hönnuð fyrir þetta stórborgarlíf þar sem maður er stöðugt fastur í traffík að fara á milli staða. Það er mjög ósýnilegt hvað þessir lifnaðarhættir búa til mikla streitu hjá fólki.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Gunnar og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -