Gylfi Arnbjörnsson er formaður stjórnar Ferðafélagsins Útivistar. Hann hafði þetta að segja í samtali við mbl.is um bann landeigenda við Kirkjufell á allri umferð um fjallið fram til 15. júní á næsta ári.
„Við skiljum alveg þessa stöðu sem landeigendur eru í þarna, en teljum það jafnframt ekki þeirra að meta aðstæður og hvað þá að banna alla umferð um fjallið.“

Í október varð banaslys á fjallinu, sem varð til þess að landeigendur tóku ákvörðun um bannið til að sporna við frekari slysum á fjallinu fræga og vinsæla; ekki síst hjá erlendum ferðamönnum.
Ferðafélagið Útivist sendi frá sér ályktun vegna málsins; þar kemur fram að skilningur sé á áhyggjum landeigenda vegna slysa á fjallinu; og deginum ljósara að það þurfi að grípa til einhverra aðgerða.
En þó er ekki litið á það sem endanlega lausn að banna umferð á fjallinu; stjórn Útivistar vill einnig minna á almannaréttinn sem fjallað er um í náttúruverndarlögum:
„Ég efast um að þetta bann standist lög,“ segir Gylfi og bætir við að Það sé alveg ljóst að enginn sé að fara að fylgja þessu banni eftir; Gylfi telur skynsamlegra að veita auknu fjármagni í aðgengismál sem og öryggismál, frekar en að banna vel búnu og þaulreyndu fólki að fara á Kirkjufellið.
„Síðan er það fáránlegt að banna vönum göngumönnum og hópum að fara á Kirkjufellið og ekkert hægt að bera það saman við óvana göngumenn og illa búna. Það er áskorun sem við stöndum frammi fyrir með þessari miklu uppbyggingu í ferðaþjónustu á landinu. Það þurfa að vera meiri upplýsingar um hvar hætturnar leynast sem er víða, og ekki bara á Kirkjufellinu og í Reynisfjöru og það er ekkert endilega á færi einstakra landeigenda að leysa það.“