Í frétt The Sun um mál Gylfa Sigurðssonar kemur fram að hann segist alsaklaus af því að hafa áreitt barn kynferðislega.
Bæði hér á landi og í Englandi hefur mikið verið fjallað um mál Gylfa og nafngreindi til að mynda mbl.is Gylfa og í kjölfarið fleiri miðlar hérlendis. Einnig var Gylfi nafngreindur í ensku pressunni.
Í áðurnefndri grein The Sun er Gylfi sagður harðneita öllum ásökunum á hendur sér.
Óhætt er að segja að mál Gylfa, sem af mörgum er talinn besti knattspyrnumaður Íslands fyrr og síðar, hafi sett allt á hliðina í samfélaginu frá því að Mannlíf greindi fyrstur allra miðla í heiminum frá málinu.
Gylfi hefur ekki verið sakfelldur fyrir eitt né neitt, en það vita allir hvernig mál hans standa þessi misserin. Fólki er brugðið; enginn átti von á neinu slíku í tengslum við Gylfa, sem ávallt kemur vel fyrir, er kurteis og vingjarnlegur og á aðdáendur út um allan heim. Stuðningsmönnum Everton um allan heim varð bylt við er tíðindin bárust og þeir og hreinlega allir sem þekkja til Gylfa í algjöru sjokki. Sama á við um leikmenn Everton, liðsfélaga Gylfa. Einn leikmannanna, sem ekki lætur nafn síns getið, tjáði sig um málið ytra: „Allir í klefanum eru í sjokki. Það vona allir hér að þessar ásakanir séu ekki sannar.“
Málið mun fara sína réttu leið og eru allir hvattir til að halda ró sinni og láta ekki út úr sér nein særandi opinber ummæli; Gylfi á fjölskyldu – nýfætt barn og er að ganga í gegnum erfiða tíma, eins og allir í fjölskyldu hans og Alexöndru konu hans, vinir og vandamenn.
Gylfi segist vera saklaus og á hann skýlausan rétt á því að hann sé ekki dæmdur fyrirfram af einum né neinum.