Ekki eru það góðar fréttir sem berast frá farsóttahúsum sem er í rekstri Rauða krossins. Nýverið var þriðja farsóttahúsið opnað en Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður húsanna er ómyrkur í máli. Morgunblaðið greindi fyrst frá.
Gylfi segist sjá fram á það að í dag eða á morgun þurfi að koma til opnunar á fjórða farsóttahúsinu ef heldur áfram eins og horfir. „Ef plássin fyllast þýðir það að annaðhvort þurfum við að fækka þeim plássum sem við höfum fyrir ferðamennina eða grípa til annarra ráða sem við höfum ekki á þessari stundu,“ sagði Gylfi Þór um ástandið.
Nú eru um það bil 250 manns í einangrun í farsóttahúsum Rauða krossins sem sér einnig um að sinna því að hýsa ferðamenn sem eru í skimunarsóttkví, telja þeir sem dvelja í slíku úrræði nú um 170 manns.
Gylfi Þór skorar á ferðaþjónustuna í Morgunblaðinu í dag, að leggja hönd á plóg og taka á móti ferðamönnum í skimunarsóttkví í þeim tilgangi að létta örlítið álaginu af farsóttahúsunum.