Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er ekki að finna í nýjustu útgáfu Football Manager. Það sama má segja um Benjamin Mendy, bakvörð Manchester City.
Þann 9. nóvember næstkomandi kemur út nýjasta útgáfan af hinum geisivinsæla tölvuleik, Football Manager. Í gær kom út Beta útgáfa leiksins en þau sem forpöntuðu leikinn geta spilað hann strax.
Leikurinn gengur út á að spila sem knattspyrnuþjálfari hjá nánast hvaða liði sem er í heiminum, í efri deildunum að minnsta kosti. Þar getur maður keypt leikmenn og selt, farið í viðtöl hjá fjölmiðlum og fleira sem tengist knattspyrnunni. Hefur leikurinn verið ansi vinsæll síðan hann kom fyrst út 2005 en þar á undan gekk hann undir nafninu Championship Manager.
Fotbolti.net segir frá því fyrstu miðla að Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í þessari nýjustu útgáfu leiksins. Einnig er búið að eyða Benjamin Mendy, bakverði Manchester City úr leiknum. Leiða má af því líkur að ástæðan fyrir þessari útþurrkun séu meint kynferðisbrot þeirra en lögreglan rannsakar mál Gylfa sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni. Ákæra hefur verið gefin út á hendur Mendy, fyrir fjórar nauðganir og kynferðislegt ofbeldi. Gylfi Þór hefur hvorki leikið með Everton né landsliðinu síðan málið kom upp.
Hvergi hefur verið tilkynnt um þessa útþurrkun á leikmönnunum en þeir eru ekki í Football Manager 2022.