Fram á sunnudag gengur knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, sem leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni, laus gegn tryggingu hjá lögreglunni í Manchester.
Gera má að því skóna að brátt dragi til tíðinda í máli Gylfa Þórs sem hófst með handtöku hans síðastliðið sumar.
Lítið er vitað um málið og framvindu þess; en lögreglan í Manchester hefur haft til rannsóknar hvort Gylfi hafi brotið gegn ólögráða einstaklingi.
Slík mál geta tekið afar langan tíma í Bretlandi.
Gylfi Þór gæti allt eins átt von á því að málið dragist ennfrekar á langinn; en einnig eru þeir tveir möguleikar í stöðunni að lögreglan felli málið niður eða leggi fram ákæru.
Samningur Gylfa hjá Everton er laus í sumar.