Pistill frá Birni Leví þingmanni Pírata:
Fyrsti launaseðillinn minn frá Alþingi greiddi mér mánaðarlaun upp á 1.101.194 kr. Þá var árið 2016. Um síðustu mánaðamót hækkuðu laun þingmanna enn og aftur og nú eru mánaðarlaunin orðin 1.285.411 kr. á mánuði og hækkuðu um 6,2% frá launum síðasta árs sem voru 1.210.368 kr. Samtals er hækkunin 16,7% frá árinu 2016, en daginn eftir kosningarnar það árið ákvað kjararáð að hækka laun þingmanna um 44,3%. Á sama tíma hefur þróun verðlags verið 14,7%.
Ég vil byrja að taka það fram að mér finnst aðferðin sem á að vera notuð til þess að reikna þessar launabreytingar vera góð – en hún snýst um að laun þingmanna hækka um meðaltal þess sem regluleg laun starfsmanna ríkisins hækka á árinu áður, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Hér er ekki um neina geðþóttaákvörðun að ræða heldur á þetta að vera einföld stærðfræði. Þessi hækkun er því að segja okkur að á síðasta ári hækkuðu laun ríkisstarfsmanna að meðaltali um 6,2%. Það út af fyrir sig er mjög áhugavert og tilefni til nánari skoðunar.
Byrjum á lífeyri almannatrygginga. Sá lífeyrir hækkar í fjárlögum samkvæmt lögum um almannatryggingar samkvæmt spá um vísitölu neysluverðs eða launaþróun komandi árs. Það þýðir að í næstu fjárlögum verður ákveðið hversu mikið lífeyrir almannatrygginga á að hækka fyrir árið 2022. Síðustu þrjár hækkanir lífeyris voru 3,6%, 3,5% og 3,6%. Í töflunni hér fyrir neðan eru launahækkanir þingmanna kjararáðsákvörðuninni 2016. Munurinn á hækkun lífeyris og launum þingmanna er hér augljós.
Launahækkanir þingmanna
Dagsetning | Hækkun | Laun |
01.07.2021 | 6,2% | 1.285.411 |
01.01.2021 | 3,4% | 1.210.368 |
01.05.2020 | 6,3% | 1.170.569 |
30.10.2016 | 44,3% | 1.101.194 |
Eftir gríðarlega mikla hækkun kjararáðs 2016 var allt í hnút. Kjararáð var að lokum leyst upp og nýju lögin um meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna komu í staðinn.
Hvað með hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða? Hvað með framhaldsskólakennara? Tölur Hagstofunnar segja að regluleg laun þessara starfsstétta hafi hækkað frá árinu á undan samkvæmt töflunni hér fyrir neðan. Tölur hjúkrunarfræðinga er að finna í flokknum “2230 Störf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra”.
Launahækkanir nokkurra ríkisstarfsstétta
Dagsetning | Hjúkrunarfræðingar | Sjúkraliðar | Framhaldsskólakennarar |
2020 | 3,4% | 8,1% | 5,7% |
2019 | 4,1% | 2,6% | 2,0% |
2018 | 6,7% | 5,8% | 3,0% |
2017 | 6,1% | 7,1% | 3,1% |
Hækkunin er mjög mismikil milli starfsstétta og ára. Að einhverju leyti er það eðlilegt en á sama tíma áhugavert hvar er munur og þá af hverju. Það sem núverandi lög um þingfararkaup gera er að útvega þetta viðmið um regluleg laun ríkisstarfsmanna. Út frá því viðmiði getum við betur spurt okkur hvað er sanngjarnt og af hverju. Ég tel núverandi fyrirkomulag þingfararkaups vera nokkuð sanngjarnt – þó ég skilji að upphæð launanna sjálfra sé það kannski ekki. Hver sem launaupphæðin sjálf á að vera þá er aðferðin sem notuð er til þess að breyta laununum óháð því.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar þá eru þetta þeir hópar sem eru með yfir milljón í regluleg laun á mánuði
Laun hópa yfir milljón
Hópur | Laun |
1210 Forstjórar og aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja og stofnana | 1.638 |
1227 Yfirmenn framleiðslu- og rekstrardeilda í þjónustufyrirtækjum | 1.617 |
3411 Störf tengd ráðgjöf og sölu verðbréfa | 1.582 |
2422 Dómarastörf | 1.551 |
1120 Æðstu embættismenn ríkis og sveitarstjórna | 1.366 |
314 Sérfræðistörf tengd skipa- og flugsamgöngum | 1.322 |
3144 Sérfræðistörf við flugumsjón | 1.240 |
1237 Yfirmenn rannsóknar- og þróunardeilda | 1.210 |
1236 Yfirmenn tölvudeilda | 1.205 |
1223 Yfirmenn framleiðslu- og rekstrardeilda í byggingariðnaði og mannvirkjagerð | 1.143 |
1233 Yfirmenn sölu- og markaðsdeilda | 1.113 |
1232 Yfirmenn starfsmannahalds | 1.080 |
1 Störf stjórnenda | 1.079 |
12 Störf forstjóra og stjórnenda stærri fyrirtækja og stofnana | 1.067 |
1231 Yfirmenn fjármála- og stjórnunardeilda | 1.056 |
1222 Yfirmenn framleiðslu- og rekstrardeilda í iðnaði | 1.045 |
2460 Sérfræðistörf tengd trúarbragðafræði og trúfræði | 1.024 |
123 Yfirmenn annarra deilda | 1.019 |
Af þessu er augljóst að sjá að þingfararkaup er á pari við regluleg laun yfirmanna og hátt launaðra sérfræðinga. Ég er ekkert endilega viss um að það sé rétt viðmið, en á móti kemur að þingmannastarfið getur verið endalaust og er algerlega án yfirvinnu. Sitt sýnist hverjum eins og fram kom í óformlegri könnun sem ég gerði árið 2018. Þau sem svöruðu fannst launin vera of há miðað við meðallaun og að laun ráðherra og forseta væru of há miðað við laun þingmanna. 17,8% fannst launin eiga að vera í kringum meðallaun. 22% að launin ættu að vera 40% lægri en þau eru. 19,2% að launin ættu að vera 20% lægri og 20,5% að launin ættu að vera eins og þau eru. Málamiðlunin væri þá í kringum 30% lægri laun miðað við þessa könnun. Það er umtalsverður munur á núverandi launum og skoðunum fólks (sem þingmenn eru að vinna fyrir) á því hver launin ættu að vera og ætti að gefa tilefni til þess að skoða þingfararkaupið nánar.