Miðvikudagur 30. október, 2024
5.5 C
Reykjavik

Hægfara umbætur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun

Höfundur / Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Launahækkanir umfram svigrúm leiða til aukinnar verðbólgu og hærri vaxta. Á þetta samband hafa Íslendingar oft látið reyna og það hefur alltaf skilað sömu niðurstöðu. Frá aldamótum hafa laun meira en þrefaldast á sama tíma og kaupmáttur hefur aðeins aukist um helming. Á sama tímabili tvöfaldaðist verðlag.

Helmings kaupmáttaraukning er vissulega fagnaðarefni enda segir kaupmáttur til um raunverulegt verðmæti þeirra launa sem renna í vasa almennings, þ.e. hversu mikið af vöru og þjónustu er hægt að kaupa fyrir launin. Aukinn kaupmáttur jafngildir þannig bættum lífskjörum og ætti því að vera okkur kappsmál. Fylgi verðbólga fast á hæla launahækkunum getur hún leitt til skerðingar á kaupmætti, jafnvel þótt fleiri krónur renni nú í vasann en áður. Gildir það jafnt um kjör þeirra hæst launuðu og þeirra sem lægri laun hafa.

Í kjaraviðræðunum hefur samtal verið um þolmörk hagkerfisins. En hvað er átt við þegar rætt er um það? Á hverjum tíma verða til verðmæti sem atvinnurekendur og launafólk skapa saman. Undirliggjandi svigrúm til launahækkana miðast við þau verðmæti sem til verða. Þau má til dæmis mæla með vergri landsframleiðslu á mann. Til þess að viðhalda verðstöðugleika þarf svo einnig að taka tillit til 2,5% verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands. Nýverið gaf Seðlabankinn út hagspá þar sem spáð er að hagvöxtur á mann verði að meðaltali 0,3% á ári næstu þrjú árin.

Til langs tíma er miðað við að svigrúmið sé að jafnaði í kringum 3,5-4%, þ.e. meðalframleiðnivöxtur að viðbættu verðbólgumarkmiði. Svigrúmið nú er hins vegar minna og má rekja það til þeirrar óvissu sem blasir við í hagkerfinu um þessar mundir. Til að mynda hafa hagvaxtarhorfur í okkar helstu viðskiptalöndum versnað sem getur haft neikvæð áhrif á horfur hér á landi vegna minni eftirspurnar eftir íslenskum vörum og þjónustu. Þessu til viðbótar hefur dregið verulega úr vexti komu erlendra ferðamanna.

Launahækkanir sem rúmast innan þolmarka styðja við verðbólgumarkmið Seðlabankans og stuðla þannig að lægri vöxtum. Slíkar launahækkanir standa einnig vörð um samkeppnishæfni útflutningsgreina og stöðugleika hagkerfisins alls. Efnahagslegur stöðugleiki er á ábyrgð okkar allra og mikilvægt að allir sýni ábyrgð í verki.

- Auglýsing -

Undanfarinn áratug hefur þjóðin lagt hart að sér við að endurheimta sterka stöðu heimila, fyrirtækja og þjóðarbúsins. Allir hafa lagst á árarnar og árangurinn er eftirtektarverður. Það er mikið í húfi á næstu misserum, að glutra ekki niður þeim mikla árangri. Mikill hagvöxtur um langt skeið hefur skapað grundvöll fyrir launahækkunum sem hafa skilað kjarabótum til heimila. Atvinnuleysi er lítið, opinberar og almennar skuldir hafa verið greiddar niður og ríkisfjármálin hafa náð jafnvægi á ný. Ísland er skuldlaust og á nettó eignir í útlöndum. Prófsteinninn fram undan er að viðhalda þeim árangri sem áunnist undanfarin ár. Það er engin skyndilausn í boði að þessu sinni.

Mynd / Aðsend

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -