Útlendingastofnun hefur svift að minnsta kosti 14 hælisleitendur vikulegum greiðslum sem nema 10.000 krónum og húsnæði á grundvelli þess að þeir neita því að fara í Covid-próf. Ástæðan fyrir því að þeir vilja ekki fara í prófið er sú að ef þeir gera það er hægt að senda þá strax til Grikklands. Á þennan hátt aðstoða þeir ekki við það að láta senda sig úr landi. Ástandið í Grikklandi er að margra mati ekki nokkurri manneskju bjóðandi og því kjósa þeir frekar að vera á götunni á Íslandi en þar. Mannlíf hefur heimildir fyrir því að fleiri hælisleitendur séu á leiðinni á götuna á allra næstu dögum.


Megnið af þeim 14 hælisleitendum sem Útlendingastofnun hefur svipt fæði og húsnæði eru frá Palestínu þar sem ríkir hræðilegt ástand sem hefur staðið yfir í 74 ár.
Hælisleitendur og stuðningsmenn þeirra hafa meðal annars haldið fjölmenn mótmæli á Austurvelli nokkra laugardaga í röð til þess að mótmæla meðferð Útlendingastofnunar á fólkinu. Síðastliðinn laugardag var einnig mótmælt við Danska sendiráðið en það í landi hafa stjórnvöld verið að senda flóttafólk til Sýrlands á þeim forsendum að ástandið þar sé orðið gott og þar sé ekki stríð lengur.

Fólk og samtök hafa sameinast um að hjálpa þeim einstaklingum sem voru sviptir húsnæði og framfærslu með því að veita eða finna handa þeim húsaskjól. Í því samhengi má nefna Samtök eins og Solaris hjálparsamtök fyrir hælisleitendur- og flóttafólk á Íslandi, No borders Iceland og Refugees in Iceland.
Lögfræðingurinn Magnús Davíð Norðdahl hefur barist fyrir réttindum hælisleitenda og hefur hann verið sumum þessarra einstaklinga innan handar og hjálpað þeim eins og í hans valdi stendur.

Sett var af stað neyðarsöfnun og hér að neðan má sjá upplýsingar um hana.
Nánar verður fjallað um málið í Mannlífi.