„Fuglaglensan kom bara í andlegum skilningi til Íslands árið 2006. Það hef ég oft sagt en í það skiptið voru margir alveg við að trompast yfir því að flensan væri að koma og fólk drap bara fuglana sína,“ segir Júlíus Már Baldursson, hænsabóndi í Þykkvabæ, um fárið í kringum fuglaflensuna fyrir fáeinum árum síðan.
„Það var mikið fár í þjóðfélaginu á þessum tíma, þó flensan leggðist aðallega á sundfugla og enginn vildi fá flensuna. Sjálfur tók ég við hænum frá fimmtán stöðum víðsvegar um landið því fólk vildi bara losna við fuglana strax. Nú er fólk til allrar hamingju rólegra“.
Hann segir að meiri yfirvegun og ró hafi ríkt meðal hænsnabónda nú í vetur meðan reglugerðir MAST kváðu enn á um algera einangrun fiðurfénaðs sökum hættu á fuglaflensu. „Fólk var jú beðið um að loka fuglana sína inni í vetur, en þeir fuglar sem búa við byrgi eða búr fyrir utan hús hafa komist út,“ segir Júlíus jafnframt. „Það ætti, samkvæmt reglugerð MAST, að vera heilt þak en ekki net yfir búrinu. Þetta er gert svo fljúgandi fuglar geti ekki dritað ofan í búrin og borið þannig mögulega fuglaflensu í fiðurfénaðinn. Hænur mega fara út að degi nú um þessar mundir, en aðeins þær sem búa við yfirbyggt aðhald. Og þetta gildir um allt landið, líka höfuðborgarsvæðið.“
Innivera sökum fuglaflensu ekki hættuleg fiðurfénaði
Og hænsnabóndinn í Þykkvabæ segir fuglaflensuna ekki hafa sett bústofn íslensku landnámshænunnar í neina hættu.
„Inniveran hefur í sjálfu sér engin áhrif á fuglana að öðru leyti en því að hænurnar fá ekki að spássera frjálsar úti þar sem þær geta étið það sem náttúran býður þeim. Hreinn og þurr spænir, lokuð búr og byrgi geta orðið hænunum úti um smávægilega útivist á hverjum degi en um leið og öllum takmörkunum léttir hjá MAST mega hænurnar fara aftur út að viðra sig. Þessir fuglar fara aldrei langt frá húsinu og halda sig í nágrenni við heimilið, því þar er öryggi og skjól að finna gegn yfirvofandi hættu.“
Umfram hönum fargað
Stofn íslensku landnámshænunnar blómstrar í Þykkvabæ en yfir þúsund hænu- og hanaungar klekjast út hjá Júlíusi á hverju einasta vori.
„Ég kyngreini fuglana þegar þeir eru fimm til sex vikna gamlir og ég sel ungana til lífs. Margir panta sér hænur í þéttbýli og yfirleitt fæ ég pantanir gegnum töluvpóst.“ Því miður kveða reglugerðir þó á um að ekki er leyfilegt að vera með hana í þéttbýli og segir Júlíus það miður. Umframhönum sé því miður fargað þar sem þeir gangi ekki út, en þetta merkir að ýmist má ekki hafa hana með sökum háreysti eða ekki er rými fyrir karlfuglana. „Fólk til sveita er hins vegar að panta sér tíu til tólf hænur og tvo hana en ég er kannski að láta fimm hana á móti hverjum hundrað hænum. Það þarf ekki nema einn hana í stóran hænsnahóp. En hanahald í þéttbýli er því miður alveg bannað“.
Hanagal þykir ótækt
Júlíus er gagnrýninn á núgildandi reglugerðir sem þó hafa rýmkað talsvert undanfarinn áratug, en nú er leyfilegt að vera með hænur í lokuðu garðrými í þéttbýli.
„Ég stóð lengi vel í fundum ofan í fundi með yfirdýralæknum, bæjaryfirvöldum og borgarstjórnum hingað og þangað um landið. Þetta virtust á sínum tíma vera pestargemlingar upp til hópa þegar að hænum kom en sömu nefndum þótti hins vegar í lagi að vera með hunda og ketti í þéttbýliskjörnum“.
Að lokum hafi þó samkomulag legið fyrir og reglugerð fæddist: Hanar væru ekki leyfilegir en hænur hins vegar velkomnar.
„Þessar leyfisveitingar fóru að lokum í svipaðan farveg og hunda- og kattaleyfi. Þú mátt vera með þrjár til fjórar hænur en engan hana í þéttbýli. Það þykir mér skjóta svolítið skökku við. Fólk er að fara í vinnu og til skóla að morgni og eftir situr einhver tegund hunds, stór eða lítill og hann er lokaður inni í bílskúr eða íbúð allan daginn,“ segir Júlíus. Hann er hins vegar og er ósáttur við núgildandi lagagerðir.
„Það er alveg sama hvað hundurinn geltir, hávaðinn sá telst ekki ónæði gagnvart nágrönnum en gali hani í næsta húsagarði verður allt vitlaust. Haninn, á samkvæmt reglugerðum, að valda mesta ónæðinu“.
Þekkja ekki íslensku húsdýrin
Neikvætt viðhorf gagnvart hanagali segir Júlíus gegnumgangandi í öllum þéttbýliskjörnum landsins.
„Fólk í dag og sérstaklega yngra fólkið er komið svo langt fram úr sjálfum sér. Þetta fólk er komið svo langt frá uppruna sínum. Yngra fólkið hefur margt hvert aldrei verið í sveit og hefur aldrei kynnst íslensku húsdýrunum. Eitt hanagal heyrist og allt verður vitlaust í hverfinu. Þetta var nú umræðan á fundunum meðan verið var að meta hvort leyfa ætti hænuhald í þéttbýli og niðurstaðan varð þessi; hænur eru leyfðar en hanar ekki.“
Júlíus harmar þau neikvæðu viðhorf sem bæjaryfirvöld víðsvegar um landið hafi gagnvart karlkyns hænsnum og háværu hanagali.
„Mér þykir þetta svo rangt viðhorf. Við sem höfum kynnst sveitalífi og sveitastörfum erum alin upp við að heyra hunda gelta og hana gala. Það pirrar sveitafólkið ekkert í daglegum störfum sínum, en margt borgar- og bæjarfólkið fer alveg úr jafnvægi um leið og hani galar að morgni“.
Fiðraðar fjölskyldur
Að framangreindu sögðu er því ekki annað að ætla en að ógerlegt sé að reisa hænsnakofa fyrir fiðraða fjölskyldu nema haninn sé undanskilinn, rísi litla búið í þéttbýli. Hanagal er aðeins leyfilegt á landsbyggðinni og þar við situr um stund.
„Fyrstu ungarnir mínir koma hins vegar í heiminn um einni viku fyrir páska og fyrstu fuglarnir mínir þetta árið eru farnir til nýrra eiganda, þeir voru tilbúnir til afhendingar um miðjan maí. Fólk er mikið að endurnýja hjá sér stofninn, sumir eru að hætta og aðrir eru að byrja. Eftirspurnin er nokkuð þétt og stöðug.“
Hænsnahvíslarinn Júlíus segir þó hænurnar ekki fara á hvaða heimili sem er.
„Þetta eru náttúrulega lifandi dýr með tilfinningar og þessu má líkja við að finna hundi eða ketti nýjan samastað. Það skiptir öllu máli að vel sé farið með dýrin“.
Hanar eru þó ekki leigðir út til sumarbónda þar sem galið veldur að sögn þéttbýlisbúa of miklu ónæði í nágrenni og stendur sú reglugerð óhögguð, ekki skal hafa fleiri en tvo hana í hverju hænsnabúi og þá aðeins í dreifbýli. Hvað koma skal er erfitt að segja til um en Júlíus segist binda veika von við afléttingu hafta, sem snúi að líftíma hana ekki síður en rýmkandi hag þeirra hænsna sem njóta þess að vera úti við.