Mikilvægt er að huga vel að hreinlæti og réttri meðhöndlun matvæla til að koma í veg fyrir e.coli smit.
„Það er lykilatriði að þvo sér um hendurnar og þvo þær almennilega, þessi krosssmit eru svo hættuleg.“ Þetta sagði Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sviðsstjóri Mæliþjónustu og innviða hjá Matís, en hún og Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri Rannsókna og nýsköpunar hjá Matís, voru gestir í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem þær ræddu e.coli bakteríur vegna umræðu síðustu vikna og hvernig hægt væri að fyrirbyggja smit. Sögðu þær hreinlæti vera bestu leiðina til að uppræta e.coli bakteríur ef smit kemur upp. „Oft er hægt að fyrirbyggja þetta með hreinlæti og réttri meðhöndlun matvæla,“ sagði Anna.
Það sem gerir e.coli bakteríuna hættulega er að það þarf lítið til að smita að þeirra sögn. Salmónella þurfi 1000 bakteríur til að valda smiti í manneskju en e.coli-tegundin sem fannst á dögunum þurf aðeins 10 frumur til að smita. Þá sagði Hrönn að það geti vel gerst að e.coli smit geti borist í gegnum dýraafurðir. Í kjöti sé bakterían á yfirborðinu. Hún sé stundum kölluð hamborgarabakterían því um leið og kjötið er hakkað er bakterían komin undir yfirborðið og þá er eldunin orðin svo mikilvæg. „Því er þetta orðin raunveruleg áhætta.“
Þær bentu á að e.coli er náttúruleg baktería sem fyrirfinnst í þörmum allra spendýra. Hún sé sjaldnast sjúkdómsvaldandi og faraldar á borð við þann sem nú geisar sjaldgæfir. Eitt einkenni bakteríunnar sé hins vegar að hún breytist ört og ef hún komi upp í dýrum geti hún smitast í menn. Því skipti hreinlæti höfuðmáli.