Settur hefur verið af stað undirskriftalisti til þess að mótmæla því að flóttafólk sé sent aftur til Grikklands í ómannúðlegar aðstæður, með öllu óboðlegar.
Íslensk stjórnvöld senda allt flóttafólk sem hlotið hefur vernd frá Grikklandi aftur þangað. Fólkið er sent í aðstæður sem eru algerlega óviðunandi og það fær enga hjálp við að fá húsnæði, vinnu né nokkuð annað svo það geti átt minnstu von til þess að eiga mannsæmandi líf. Grikkland fær greitt fyrir að taka við flóttafólki frá öðrum löndum og tekur endalaust við fólki án þess að hafa aðstæður til þess að taka við því, en vilja peningana sem greiddir eru fyrir hvern og einn einstakling.
Auðvitað getur Ísland ekki tekið við öllu flóttafólki í heiminum en það að nýta sér Shengen ákvæðið og senda fólkið í aðstæður sem allir vita að eru skelfilegar og alls ekki mannúðlegar, er nokkuð sem ætti ekki að viðgangast. Finna þarf farsæla og mannúðlega lausn á þessum málum og ættu íslensk stjórnvöld að leggja mikla áherslu á það því þetta er skömm fyrir land og þjóð í núverandi mynd.
Undirskriftalisti hefur verið settur í gang til þess að mótmæla því að flóttafólki sé snúið aftur til Grikklands. Fyrir þá sem vilja leggja hönd á plóg er undirskriftalistann að finna hér.