Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Hættulegasta eldfjall Íslands rumskar: Ný skýrsla komin út – Þetta gæti gerst ef risinn vaknar!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Risinn undir Öræfajökli rumskaði fyrir nokkrum árum og nú eru blikur á lofti. Undir jökli hvílir næststærsta eldstöð Evrópu. Hún á Íslandsmet og heimsmet í að spúa eiturgufum sem kæfa eða breyta fólki í stein eins og í Pompeji árið 79. Rumski risinn, verði gos, geri gusthlaup æða þau niður hlíðarnar á yfir 150 kílómetra hraða. Þau draga í sig allt súrefni í andrúmsloftinu. Nú skiptir litlu hvað þú hleypur hratt. Kona eða karl, börn eða gamalmenni, kind eða hundur, frár á fæti, ekkert slíkt skiptir máli. Gusthlaupið kæfir og brennir og sú skepna sem fyrir verður, bíður bráður bani.“

Ný skýrsla varar við

Skýrslan Eldgos í Öræfajökli árið 1362, greining á röð atburða kom nýlega út. Hún var unnin fyrir GOSVÁ, sem er heildar áhættumat vegna eldgosa á Íslandi, Veðurstofu Íslands og Ofanflóðasjóð. Mbl.is vekur athygli á þessum mikilvægu upplýsingum sem fengust með rannsókn á gjóskulaginu sem eldgosið myndaði.

Skýrslan staðfestir það sem flesta grunuðu og óttuðust líka, en eitt metið er okkar Íslendinga, Sprengigosið mikla sem varð í Öræfajökli 1362 var ekki aðeins öflugasta eldgos Íslandssögunnar, það var líka stærsta sprengigos sem orðið hefur á jörðinni undanfarin árþúsund. Það er ólíkt flestum eldgosum á sögulegum tíma á. Það þarf helst að líkja eldgosimu mikla í Vesúvíusi svo nútímamaður átti sig á umfangi þess, er bærinn Pompeji grófst í jörðu.

Risinn er að gera sig kláran í gos

Einn höfundanna er Ármann Höskuldsson einn okkar fremsti eldfjallasérfræðingur. Hann hefur síðustu ár sagt að Öræfajökull sé að gera sig kláran í gos, og munum, þetta er næst stærsta eldstöð Evrópu! Þar hefur orðið hrikaleg eldgos. Ármann sagði í viðtali við Spegilinn á RÚV:

„Við vitum það að hann er farinn af stað. Hann er að gera sig kláran í gos. Það er alveg klárt. Svo kemur bara í ljós hve lengi hann er að vakna. Þetta er stórt og mikið eldfjall. Stendur nokkuð langt frá heita reitnum. Það er kalt en ekki heitt eldfjall. Þannig að fyrir kvikuna að komast upp er átak,“ sagði Ármann og hélt áfram:

„Það þýðir að skjálftavirkni þarf að aukast töluvert. Hins vegar er mjög erfitt að segja til um hversu langan tíma það tekur. Eyjafjallajökul, 16 til 18 ár. Það má vel vera að það taki Öræfajökul ekki nema nokkra mánuði að skila sér í gos en það verður bara að koma í ljós.“

Skýrsluhöfundar vara við og segja brýnt að laga áhættugreiningu og rýmingaráætlanir í samræmi við það. Þá er minnst á gjóskuflóð og gusthlaup séu það sem ber að óttast.

- Auglýsing -

Gjóskuhlaupin, það hleypur þau enginn af sér en þau geta ferðast á yfir 150 km/klst. hraða. Í skýrslunni segir:

„Þessar tvær tegundir af gjóskuflóðum eru hættulegustu fyrirbrigði samfara eldgosum sökum þess hve heit þau geta orðið, hversu hratt þau streyma niður hlíðar eldfjallanna og vegna þess að ekki er unnt að spá fyrir um leið gust hlaupa eftir landslagi.“

Vísindamenn gerðu tilraun til með því að sniðmæla vikurinn frá 1362 á Sandfellsheiði sumarið 2018 en einnig reynt að finna gosmenjar frá eldgosinu 1727. Loks tókst að staðsetja þær gosstöðvar í fyrsta sinn, með óhyggjandi hætti. Nær gígaröðin frá Sandfellsheiði og upp til öskju Öræfajökli.

Risinn rumskar

„Gosið í Öræfajökli 1362 er eitt mesta sprengigos sem orðið hefur á jörðinni undanfarið árþúsund. Það sem líklega kemst næst því af íslenskum gosum á sögulegum tíma er Heklugosið 1104 og þar næst Öskjugosið 1875 sem þó var minna. Gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991, er olli víðtækum veðurfarsáhrifum, kemst líklega næst því að vera svipaðrar stærðar og risa gosið sem átti sér stað undir þykkum ís, sjálft Öræfajökulsgosið 1362. Síðustu tvo til þrjú ár hefur risinn undir jöklinum verið að rumska. Sjá nánar hér, á Stjörnufræðivefnum.

- Auglýsing -

Og verði gos, og geri gusthlaup, ógnvekjandi orð það en afleiðingar skelfilegri. Gusthlaup eru gríðarlega heit og þau hamstra allt súrefni í andrúmsloftinu, háma það í sig. Kona eða karl, börn eða gamalmenni, kind eða hundur, frár á fæti, ekkert slíkt skiptir máli. Gusthlaupið kæfir og brennir og sú skepna sem fyrir verður, bíður bráður bani.“

Þá segir í merkilegri umfjöllun Gísla Sigurðssonar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1970:

„Á örfáum klukkutímum breyttist sú blómlega byggð, sem ýmist var nefnd Hérað, Litla Hérað, eða Hérað milli sanda í ömurlega eyðimörk rjúkandi vikurs. Öskustrókurinn úr gíg Knappafellsjökuls var með þvílíkum ódæmum, að askan dreifðist um þriðjung landsins.

En ógrynni vikurs og ösku hefur þó lent á haf út, enda segir í samtíma heimildum að vikurinn sást reka hrönnum fyrir Vestfjörðum, svo naumast komust þar skip áfram.“

Óvissustig

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi í Öræfajökli vegna aukinnar virkni þar. Öræfajökull er megineldstöð en ekki hefur gosið þar síðan árið 1727. Aukin skjálftavirkni hefur verið í jöklinum undanfarið og brennisteinslykt hefur fundist. Undir Öræfajökli er önnur stærsta eldstöð Evrópu. Þá hafa Almannavarnir fundað stíft og er unnið að viðbragðsáætlun ef það gjósi en þá er töluverðhætta á flóði.

Gosið mikla í Vesúvíusi

Telja jarðfræðingar, að gos af því tagi geti orðið með miklum ódæmum, og eru þær hliðstæður nefndar við þetta gos, er Hekla kaffærði byggð Þjórsárdals með vikri árið 1104, og gosið mikla í Vesúvíusi árið 79, sem gróf bæinn Pompeji í jörðu.

En hvernig gosi gætum við átt von á? Hvernig hafa gos verið áður í þessari miklu eldstöð? Á Stjörnufræðivefnum er að finna ítarlega umfjöllun um eldgos í Öræfajökli. Í inngangi umfjöllunar segir að í kvikuhólfum geti orðið breytingar á kviku á milli gosa. Líði langur tími getur magn gastegunda í kvikuhólfi aukist og endað með kröftugu og súru sprengigosi.

Það gerðist árið 1362 þegar Öræfajökull vaknaði eftir að hafa legið í dvala í rúm átta hundruð ár. Gosið hófst í júní og er talið að fyrstu daga hafi mökkurinn náð í um 30 kílómetra hæð. Var gosið það mesta síðan að Hekla gaus um 800 árum fyrir Krist. Á Stjörnufræðivefnum er ekki vitað nákvæmlega hvar gaus en talið að það hafi verið í öskjunni sjálfri. Þar segir:

„Eldsumbrotunum fylgdu jökulhlaup undan Falljökli, Virkisjökli, Kotárjökli, Rótarfjallsjökli og Svínafellsjökli niður Skeiðarársand en Kvíárjökull hljóp á sjó út. Ekki er vitað hversu stór jökulhlaupin voru en leiða má líkum að því að þau hafi ekki verið stórkostleg og til þess benda raunar vegsummerki í fjallinu. Jökullinn var minni þá en nú vegna hlýindatímabils sem á undan var gengið.

Hlaupið hefur þó án efa verið skelfilegt og kröftugt vegna mikillar fallhæðar niður fjallshlíðarnar. Úr orku þess dróg um leið og hlaupvatnið var komin niður á flatlendið þar sem það dreifðist um sandana. Mikill aurburður fylgdi hlaupinu svo þetta var eðjuflóð (lahar). Stór ísbjörg flæddu um sandana og hurfu á löngum tíma.“

Litla hérað hverfur

Blómleg byggð var í nágrenni Öræfajökuls sem þá hét Litla-hérað. Þar var stunduð akuryrkja og talið að um 30 bæir hafi verið á því svæði. Gosið eyddi allri byggð.

Tveir eldfjallafræðingar, þeir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson hafa uppi kenningar um að gjóskuflóð hafi eytt byggð í Litla-héraði. Á Stjörnufræðivefnum segir:

„Gusthlaup eru gríðarlega heit og draga allt súrefni úr andrúmsloftinu í sig. Hverjum manni og hverri skepnu sem fyrir verður bíður bráður bani.“

Dæmi um skelfileg gusthlaup er urðu í eynni Martinique árið 1902 og þá varð gusthlaup í Pompeii á Ítalíu árið 79. Þar dóu allir borgarbúar.

Skálholtsannáli frá ofanverðri 14. öld segir:

„Eldur uppi á þremur stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum að eyddi allt Litla hérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi svo að eyddi fimm þingmannaleiðir. Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó þar sem áður var þrítugt djúp, með grjótfalli, aur og saur og urðu þar síðan sléttir sandar. Tók og af tvær kirkjusóknir með öllu, að Hofi og Rauðalæk. Sandurinn tók í miðjan legg á sléttu en rak saman í kafla svo varla sá í húsin. Öskufall bar norður um land svo að sporrækt var. Það fylgdi að vikurinn sást reka í hrönnum fyrir Vestfjörðum að varla máttu skip ganga fyrir.“

Í Gottskálksannál segir:

„Í Austfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand, svo að af tók vegi alla. Á sú í Austfjörðum, er Úlfarsá heitir, hljóp á stað þann er heitir að Rauðalæk, og braut niður allan staðinn, svo að ekki hús stóð eftir nema kirkjan.“

Í Oddverjaannáll, sem ritaður var árið 1580, stendur:

Eldur uppkominn í Litla héraði og eyddi öllu héraðinu: höfðu þar áður verið 70 bæir: lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.

Á Stjörnufræðivefnum er einnig að finna ítarlega umfjöllun um öllu minna gos í Öræfajökli en það varð árið 1727 og má lesa hér.

Hér fyrir neðan má svo finna merkilega umfjöllun Gísla Sigurðssonar sem birt var í Lesbók Morgunblaðsins árið 1970 er nefndist Ferðaþættir úr Öræfasveit

Á örfáum klukkutímum breyttist sú blómlega byggð, sem ýmist var nefnd Hérað, Litla Hérað, eða Hérað milli sanda í ömurlega eyðimörk rjúkandi vikurs.

Undir þeim jökli, sem hæst gnæfir á Íslandi öllu, kúra bæirnir í einfaldri röð; þeir eru átta talsins. Þó eru austan frá Kvískerjum og vestur að Skaftafelli hvorki meira né minna en 50 km. Hvergi annars staðar á landinu er um aðrar eins vegalengdir að fara innansveitar.

Gjóska úr Öræfajökulsgosinu 1362 á bökkum Gljúfursár. Hér má sjá að gjóskuflóð og jökulhlaup koma fram strax í byrjun goss.

Ekki er þó svo að skilja að átta bændur skipti þessu flæmi á milli sín. Á flestum bæjunum er margbýlt og bæirnir standa þétt saman á gróðursvæðum, sem hamfarir náttúrunnar náðu ekki að eyða. Alls staðar er jökullinn að baki eða snarbrattar og lítt grónar undirhlíðar hans. Fram undan:

Flatlendi og sandar, þar sem ár flæmast um, óstöðugar í farvegum sínum, en fjær: brimgarðurinn við ströndina. Og síðan hafið. En austan við sveitina og vestan eru þær landsfrægu torfærur, sem fyrrum voru nefndar Lómagnúpssandur og Breiðárssandur ásamt þeim jökulfljótum, sem þar verða.

Gosið mikla í VesúvíusiAllir létust

En hvers vegna þessi kaldranalega nafngift: Öræfi. Táknar það ekki venjulega óbyggð og auðn? Að vísu, en Öræfasveit hefur heldur ekki frá upphafi íslandsbyggðar borið þetta nafn. Það mun fyrst koma fyrir árið 1412, eða réttum fimmtíu árum eftir að þar urðu slíkar náttúruhamfarir að eyddi byggðina. Það var árið 1362.

Þá stóð fólki í þessum hluta landsins sizt af öllu ógn af Öræfajökli, sem í þá daga nefndist Knappafellsjökull. Þar höfðu ekki sézt eldar uppi, enda höfðu eldstöðvar Knappafellsjökuls legið í dvala öldum saman, þegar þær vöknuðu skyndilega til lífsins vorið 1362.

Telja jarðfræðingar, að gos af því tagi geti orðið með miklum ódæmum, og eru þær hliðstæður nefndar við þetta gos, er Hekla kaffærði byggð Þjórsárdals með vikri árið 1104, og gosið mikla í Vesúvíusi árið 79, sem gróf bæinn Pompeji svo í ösku, að öldum saman vissu menn ekki hvar hann hafði staðið.

En víkjum ögn að jarðeldum Knappafellsjökuls vorið 1362.

Frá Öræfasveit Úr Lesbók Morgunblaðsins

Heimildir um hin válegu eldsumbrot og eyðingu héraðsins eru að vísu hvorki margar né fjölskrúðugar, en gefa þó í vissum atriðum glöggar hugmyndir. Skálholtsannáll segir að sandurinn hafi tekið í miðjan legg á sléttu, en rekið saman í skafla, svo að varla sá húsin. Þar er einnig sagt, að auk Litla Héraðs, hafi eyðst mikið af Hornafirði og Lónshverfi. Í Gottskálksannál segir svo:

„í Austurfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand, svo að af tók vegu alla. Á sú í Austurfjörðum, er tJlfarsá heitir, hljóp á stað þann er heitir að Rauðalæk, og braut niður allan staðinn, svo að ekki hús stóð eftir nema kirkjan.“

Í Oddaverjaannál, sem að vísu er tekinn saman mun síðar, stendur þetta um eyðingu Héraðs.

„Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“

Munnmæli síðari alda hermdu, að gífurleg vatnsflóð af völdum gossins hefðu lagt byggðina í eyði. Í seinni tíð hefur þeirri kenningu verið hafnað; vikurregnið hefur tvímælalaust átt drýgri þátt í eyðingu byggðarinnar. Þó mun gífurlegt, jökulhlaup hafa beljað fram, sín hvorum megin við kirkjustaðinn Sandfell, og af völdum þess hafa eyðzt allmargir bæir, sem stóðu frammi á sléttlendinu. Auk þeirra átta bæja, sem enn eru í byggð, kunna menn nöfn á 19 eyðijörðum. Frægust þeirra og mest var kirkjustaðurinn Rauðilækur, ekki alllangt frá Svínafelli. f máldaga frá ofanverðri 12. öld, er kveðið á um eignir og hlunnindi kirkjunnar á Rauðalæk, og sézt að þar hefur verið auðug kirkja. Ef hægt er að dæma eftir kirkjum og bænahúsum, hefur guðsótti og góðir siðir verið kennimark í Héraði milli sanda. Auk kirkjunnar á Rauðalæk hafa verið þrjár alkirkjur, með prestskyldu, tvær hálfkirkjur og ellefu bænahús. Er það hald manna, að bæir í Litla Hénaði hafi verið þrjátíu, eða jafnvel fjörutíu talsins.

Öræfajökull Saklaus og tignarlegur að sjá en undir er önnur stærsta eldstöð Evrópu

Menn hafa löngum velt fyrir sér þeirri spurningu, hver hafi orðið örlög fólksins, þess er byggði héraðið undir hlíðum Öræfajökuls. Ef að líkum lætur hefur jarðskjálfti fylgt hinni fyrstu eldsuppkomu og trúlega hafa hús hrunið.

En samkvæmt fenginni reynslu má ætla, að það hafi ekki orðið mörgum að fjörtjóni.

En vel má ímynda sér þetta nauðstadda fólk á flótta austur með fjöllunum. Það veður öskuna í mjóalegg. í myrkrinu heyrir það ofstopafullan hávaða af jöklinum.

Trúlega eru aðeins brýnustu nauðsynjar með í för inni en öskurykið svo þétt að sumum liggur við köfnun, og auk þess regn vikurhnullunga.

Af þessum flótta fer litlum sögum og kannski er ómengað sannleikskorn í hinni samþjöppuðu setningu Oddaverjaannáls:

„Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“

Ari Trausti um Öræfajökul

Óróleikinn í Öræfajökli minnir okkur á að stundum stela ólíklegu eldfjöllin senunni frá þeim sem oftast minna á sig – t.d. Heklu, Kötlu eða Grímsvötnum. Enginn sér framhald atburða fyrir í Ö. en vöktun hefur verið aukin, samráðshópur vísindamanna og Almannavarna unnið það sem að því fólki snýr og viðbrögð skipulögð í samvinnu við heimamenn fyrir austan.“

Ari Trausti Guðmundsson

Þannig hefst pistill eftir Ara Trausta Guðmundsson sem hann birti í Facebook-hópnum Jarðsöguvinir árið 2018:

Um það bil í miðri jökulfylltri öskjunni sést nú 1000 m breiður og ca. 20 m djúpur sigketil, sbr. fjölmiðla. Ísinn er allt að 500-600 m þykkur í öskjunni. Undir katlinum er bullandi jarðhiti sem tengja má aukinni skjálftavirkni og mögulegri innkomu kviku djúpt inn í rætur Öræfajökuls ef marka má suma dýpstu skjálftana – og þeirri staðreynd að skjálftavirkni (var lengi afar lítil) jókst verulega síðla árs 2016. Það er erfitt að tengja hana aðallega þynningu jökulsins og landrisi þess vegna; rýrnun hefur staðið alllengi yfir. Aukin rafleiðni í Kvíá, nokkuð aukið rennsli og „hveralykt“ úr henni eru sígild ummerki virkni háhitasvæðis.

Vissulega getur núverandi atburðarás stöðvast án mikilla tíðinda en hún getur allt eins verið upphafsfasi í ferli sem leiðir til eldgoss og jökulhlaups. Minni jökulhlaup en vegna eldgoss geta komið fram við einbera jarðhitavirknina; þ.e. aukist hún mikið eða þessi leki í Kvíá nægir ekki til að koma í veg fyrir að hvelfing bráðni upp í jökulísinn uns hleypur úr henni. Þó ég líki ekki Öræfajökli við Eyjafjallajökul þá tók það a.m.k. 16 ár frá því mæld voru þar fyrstu óróleikamerki þangað til gos hófst 2010.

Ekkert af stóru eldfjöllunum okkar hagar sér eins og eitthvert hinna. Öll munum við sennilega að gosið í Ö. 1362 var mjög öflugt, allt að 10 rúmkílómetrar af ferskri gjósku náðu yfir um 36.000 ferkm lands en yfir miklum mun stærra hafsvæði til suðurs. Seinna gosið 1727-8 (vestan til í jöklinum) var miklu smærra í sniðum en hlaup í báðum tilvikum illvíg. Ég skrifa þetta hér til að hnykkja á hve alvarlegum augum litið er á þetta gamla og stóra eldfjall sem getur verið ýmist lamb eða ljón.

Höfundar skýrslunnar eru þau Ármann Höskuldsson, Þorvaldur Þórðarson, Ingibjörg Jónsdóttir, Muhammad Aufaristama, Alma Gytha Huntington Williams, Helga Kristín Torfadóttir, Þóra Björg Andrésardóttir, Daníel Þórhallsson, Alan Woodland, Maria Janebo og Catherine R. Gallagher. Útgefandi er Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -