Ólafur Arnalds semur tónlistina við kvikmyndina Lof mér að falla, en hún fjallar um unga stúlku sem leiðist út í fíkniefnaneyslu. Hann segir uggvænlegt að fylgjast með aukinni útbreiðslu harðra efna á Íslandi.
Lof mér að falla, nýrrar kvikmyndar leikstjórans Baldvins Z, er beðið með mikilli eftirvæntingu en hún verður frumsýnd 7. september á þessu ári. Myndin lýsir hrollvekjand og napurlegum veruleika íslenskra ungmenna sem leiðast út fíkniefnaneyslu og er byggð á raunverulegum sögum stúlkna sem hafa verið í neyslu. Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds er í miðjum klíðum við að semja tónlist myndarinnar sem hann segir að muni endurspegla drungalegt viðfangsefnið.
„Ég er að svolítið að vinna með sakleysi ungu persónanna í melódíum, sem eru krúttlegar á köflum,“ lýsir hann, „og svo nota ég hljóðheim til að brjóta þetta sakleysi smám saman niður og gera það ljótara.“
Umfjöllunarefnið er klárlega innlegg inn í umræðuna sem í þjóðfélaginu um aukna neyslu ávanabindandi efna, sér í lagi meðal ungmenna. Spurður hvað honum finnist um þá þróun sem er að eiga sér stað í þeim efnum dregur Ólafur ekki dul á það að honum líst illa á blikuna. „Það er ömurlegt að sjá þessi hörðu efni verða að einhvers konar tískuefnum,“ segir hann hreinskilinn. „Hlutirnir geta nefnilega verið ansi fljótir að breytast til hins verra fyrir fólk sem er að fikta með þau.“
Hvað finnst þér þá um umræðuna sem hefur verið um þessi mál undanfarið?
„Mér finnst að við ættum að hætta að ljúga að börnunum okkar með draugasögum og einfaldlega sýna og segja þeim sannleikann um öll efni – líka áfengi,“ svarar hann ákveðinn. „Það gerir engum gagn að setja einhverskonar stimpil á öll fíkniefni sem segir: „Ef þú prófar hass einu sinni þá endarðu í ræsinu í næstu viku“. Forvarnir þurfa að byggja á sannleika, ekki ýkjum. Þannig byggjum við upp traust milli okkar og þeirra sem þurfa á forvörnunum að halda. Bæði barna og foreldra.“
Lof mér að falla er ekki fyrsta samstarfsverkefni þeirra Ólafs og leikstjórans Baldsvins Z, þeir félagar hafa unnið saman að ýmsum verkefnum í gegnum árin þar á meðal tónlistarmyndinni Island Songs sem Ólafur framleiddi enn fremur og kvikmyndinni Vonarstræti sem bæði hlaut einróma lof gagnrýnenda og vann til fjölda verðlauna á Edduverðlaunahátíðinni árið 2015. Ólafur segir góða vináttu lykilinn að þessu giftursamlega samstarfi þeirra Baldvins. Auk þess skipti gríðarlegu máli það fullkomna listræna frelsi sem hann hefur fengið við tónsmíðarnar, en hann leggur mikla áherslu á það bæði þegar í samstarfi við innlenda og erlenda aðila.
Talandi um það, þú hefur einmitt samið talsvert af tónlist fyrir erlenda aðila. Hver er munurinn á því og að starfa með innlendum aðilum?
„Ja, ætli helsti munurinn sé ekki sá að erlendu verkefnin, sjónvarpsþættirnir og bíómyndirnar, sem ég hef verið að semja tónlist við eru yfirleitt miklu stærri en gengur og gerist á Íslandi. Það gerir það að verkum að oft hafa fleiri leikstjórar og framleiðendur eitthvað um tónlistina að segja en á sama tíma gefur það manni meira svigrúm til að reyna hluti sem ekki væri kannski hægt að prófa í minni og ódýrari verkefnum,“ segir hann og bætir við að hann hafi eitt prinsipp að leiðarljósi.
„Ég tek ekki að mér verkefni yfirhöfuð þar sem ég er einfaldlega „work for hire“ eftir höfði einhvers annars. Sama hvort það er íslenskt eða erlent. Hingað til hef ég verið heppinn með það.“
Lof mér að falla kemur út í haust. Hægt er að heyra brot úr tónlistinni í nýlegu sýnishorni úr myndinni.
Mynd / Heiða Helgadóttir