Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Hafa efni á verkföllum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Félagsmenn stéttarfélaga greiða reglulega í svokallaða vinnudeilusjóði sem ætlað er að koma til móts við launþega í vinnustöðvunum eða verkbönnum. Þessir sjóðir standa almennt vel og eru á annan tug milljarða króna í sjóðum þeirra félaga sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands.

Þannig eru um 3,6 milljarðar króna í verkfallssjóði VR sem fer stækkandi að því er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt í fjölmiðlum. Þá geti félagið hæglega fært til fjármagn í sjóðinn ef svo ber undir þar sem félagið eigi um 12 milljarða í sjóðum og eignum. „Ef við förum hins vegar í einhvers konar verkfallsskærur með öðrum stéttarfélögum eða t.d. á ASÍ-grunni, þá munu fjármagnstekjur þessara sjóða duga til þess að halda því úti í mjög langan tíma. Þar erum við að tala um mun smærri hópa, sem gætu þá verið í einhvers konar átökum eða aðgerðum en væru á fullum launum. En ef við förum í allsherjarverkfall þá dugar þetta náttúrlega skammt,“ sagði Ragnar Þór í viðtali við mbl.is í desember.

„Við getum farið í verkfall. Það leikur enginn vafi á því,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Hjá Eflingu eru um 2,7 milljarðar í verkfallssjóði og ljóst að á þeim bænum eru félagsmenn tilbúnir í verkfall því í nýrri könnun Gallup kom fram að 80 prósent félagsmanna Eflingar styðja verkfallsaðgerðir ef til þeirra kemur. „Við getum farið í verkfall. Það leikur enginn vafi á því,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í viðtali við RÚV í vikunni.

Áhugaverðar staðreyndir

Alls losnuðu 82 kjarasamningar um áramót og 152 til viðbótar renna út í mars. Stærsta einstaka deilan er á milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness hins vegar en þeirri deilu var vísað til ríkissáttasemjara í desember.

Af þessum félögum er VR fjölmennast en félagsmenn þess eru um 35.500 talsins úr öllum geirum samfélagsins, allt frá almennu verslunarfólki upp í háskólamenntaða sérfræðinga. Heildarlaun félagsmanna VR samkvæmt launakönnun félagsins í fyrra voru 668 þúsund krónur.

Félagsmenn Eflingar eru um 27 þúsund talsins og starfa þeir flestir við þjónustustörf, umönnun, ræstingar og almenn verkastörf. Um helmingur félagsmanna eru erlendir ríkisborgarar. Heildarlaun félagsmanna Eflingar í fyrra voru 479 þúsund krónur samkvæmt kjarakönnun félagsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -