Nokkrir jólasveinar eru ennþá væntanlegir til byggða og þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér vænlegum gjöfum sem heppilegar eru í skóinn. Við tókum saman nokkrar einfaldar og hagkvæmar hugmyndir fyrir jólasveininn.
Púsl og lítil spil eru ekki aðeins góð hugarþjálfun heldur getur orðið að skemmtilegri samverustund barna, systkina og foreldra.
Flestum börnum þykir gaman að lita, nýir litir í safnið ættu því alltaf að vekja lukku, sem og hvers kyns föndur sem fylgt gæti með.
Að mati margra er aðventan tími til að fylla híbýlin af bakstursilmi en mörgum börnum þykir gaman að taka þátt í smákökubakstrinum. Kökuform og hvers kyns bakstursáhöld sérsniðin fyrir smáar hendur gætu því glatt litla sælkera.
Flestum börnum þykir gaman að leira og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.
Límmiðar og tímabundin tattú slá alltaf í gegn án þess að kosta mikið. Auðvelt er að nálgast fjölbreytt úrval af ýmis konar örkum sem hægt er að dreifa yfir desember.
Jólasokkar og jólavettlingar njóta sífellt meiri vinsælda en hægt er að nálgast þá víða um borgina á hagstæðu verði.
Punt í hárið fylgir aðventunni og öllum þeim hátíðarhöldum sem fylgja þessum tíma árs, því er ekki úr vegi að lauma lítilli spennu eða spöng í skóinn.
Mörgum þykir spennandi að fá eitthvað ætt í skóinn án þess að það sé sælgæti. Mandarínur hafa lengi þótt vinsælt val en morgunkornspakkar og ávaxtastangir gætu líka slegið í gegn.
Skafmiðar kosta sáralítið en vekja alltaf mikla lukku hvort sem þeim fylgir vinningur eður ei.
Gaman er að gefa börnum fallegt jólaskraut sem þau geta skreytt herbergið sitt með eða hengt á jólatréð.
Sniðugt er að gefa börnum hvers kyns upplifun í skóinn. Hægt er að fá gjafabréf hjá kvikmyndahúsum, ísbúðum og svo auðvitað sundlaugum.