Hópur kvenna er þessa stundina að undirbúa bingó til styrktar Haven Rescue Home í Kenýa. Haven Rescue Home er heimili fyrir stúlkur, 18 ára og yngri, sem eru barnshafandi eða mæður ungra barna. Markmiðið er að safna 450.000 krónum og setja upp hænsnabú fyrir ágóðann.
„Í Kenýa ríkir mikil fátækt og eitt af þeim mörgu vandamálum sem fylgir fátækt er að ungar stúlkur verða barnshafandi og ljúka ekki skólagöngu. Ríkjandi hugarfar í Kenýa er að þegar þú ert orðin móðir þá sé skólagöngunni lokið.
Þær stúlkur sem kjósa að halda áfram að mennta sig hafa því hingað til einungis haft þann möguleika að gefa barn sitt frá sér. Mörg heimili taka við ungabörnum sem fjölskyldur gefa frá sér en aðeins örfá heimili aðstoða bæði móður og barn saman,“ segir Hafdís Ósk Baldursdóttir í samtali við Mannlíf.
Hafdís Ósk er ein þeirra sem stendur að bingóinu en systir hennar, Anna Þóra Baldursdóttir, er einn stofnandi Haven Rescue Home. Anna Þóra stofnaði heimilið með kenískri samstarfskonu sinni.
„Á meðan stelpurnar á Haven Rescue Home klára skólagönguna er þeim boðið að búa með barnið sitt inni á heimilinu og fá nauðsynlega aðstoð til að geta sinnt bæði skóla og barni. Með því að klára skólagöngu eiga þær möguleika á að fá góða vinnu og geta flutt aftur út sem sterkari einstaklingar,“ útskýrir Hafdís Ósk.
Tilvalið að halda bingó
„Styrktarfélag Haven Rescue Home hefur síðustu mánuði verið að leggja höfuðið í bleyti varðandi fjáröflun fyrir heimilið. Heimilið er eingöngu rekið á styrkjum, mánaðarlegum boðgreiðslum og styrkjum frá einstaklingum,“ segir Hafdís Ósk. „Okkur fannst upplagt að skipuleggja bingó og safna þannig.“
„Fyrsti áfanginn í því að setja upp hænsnabú sem skapar tekjur.“
Hópurinn sem stendur að bingóinu hefur sett sér það markmið að safna 450.000 krónum. „Draumurinn er að gera reksturinn sjálfbæran að mestu. Fyrsti áfanginn í því að setja upp hænsnabú sem skapar tekjur. Áætlað er að heildarkostnaður muni nema 450.000 krónum. Því leggjum við upp með að safna þeirri upphæð,” útskýrir Hafdís Ósk.
Hún segir undirbúning bingósins hafa gengið vel og margt fólk er tilbúið að leggja verkefninu lið. „Vinningarnir hrúgast inn og stefnir þetta í mjög veglegt bingó.”
Bingóið verður haldið 23. nóvember klukkan 15:00. í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði.